05.05.1965
Sameinað þing: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í D-deild Alþingistíðinda. (3333)

221. mál, vinnuvélar

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Spurt er um það í fyrsta lagi, hvort fyrirtækinu Íslenzkum aðalverktökum hafi verið heimilað að nota utan Keflavíkurflugvallar og við framkvæmdir í þágu íslenzkra aðila bifreiðar, vélar og verkfæri, sem flutt hafa verið inn tollfrjáls samkv. ákvæðum i herstöðvasamningnum frá 1951. Það er mjög sjaldgæft, að leyfi sé veitt til þess að nota þau tæki, sem um er rætt í fsp., utan varnarsvæðanna sjálfra. Þó hefur það komið fyrir, að slíkt leyfi sé veitt, en þá er um það farið eftir ákveðnum, mjög ströngum reglum. Það er frumskilyrði til þess að veita slíkt leyfi, að sá, sem um það biður, vinni að framkvæmd verks í þágu þess opinbera, ríkissjóðs, ríkísfyrirtækis eða sveitarfyrirtækis. Það er annað ófrávíkjanlegt skilyrði, að ekki sé til tæki í landinu fáanlegt, sem hægt sé að leysa verkið með. Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt, er yfirleitt ekki veitt leyfi til þess að nota tækin af Keflavíkurflugvelli í þágu annarra, en varnasliðsins. Þó hefur það komið fyrir nokkrum sinnum, að leyfi hefur verið gefið til þess að nota þessi tæki í þágu einstaklinga, en þá hefur það því aðeins verið gert, að þannig hefur á staðið, að það hefur verið óhjákvæmilegt til þess að bjarga verðmætum og önnur tæki ekki fáanleg. Hef ég sérstaklega í huga, að það hefur komið fyrir oftar en einu sinni, að orðið hefur að leyfa að nota tæki af vellinum í skipasmíðastöðvum í nágrenni flugvallarins til að bjarga og rétta við báta, sem ekki hefur verið hægt að rétta við á annan hátt. En innan þessara þröngu marka hefur leyfunum verið haldið og reglunum um það hefur verið fylgt mjög stranglega eftir.

Hv. fyrirspyrjandi minntist hér aðeins á í ræðu sinni byggingarframkvæmdir Íslenzkra aðalverktaka í Reykjavík og talaði um hús, sem þeir hefðu byggt hér í bænum í þágu Reykjavíkurborgar. Ég skal, vegna þess að hv. fyrirspyrjandi nefndi þessar byggingarframkvæmdir, taka það fram, að öll þau tæki, sem Íslenzkir aðalverktakar notuðu við þessar byggingarframkvæmdir, voru tollafgreidd með venjulegum hætti, en tollfrjáls tæki at flugvellinum voru ekki lánuð til þeirra framkvæmda.

Þm. minntist líka á vegaframkvæmdir í þessu sambandi. Það er rétt, Íslenzkir aðalverktakar hafa fengið að nota stórvirkar vinnuvélar og stórar bifreiðar í sambandi við lagningu Reykjanesbrautar og í sambandi við vegagerð í Hafnarfirði. Þessar vegaframkvæmdir eru sumpart á vegum ríkisins og sumpart á vegum Hafnarfjarðarbæjar. En það var sett að skilyrði, áður en leyft var að nota þessi tæki, í fyrsta lagi, að ekki væru til önnur jafngóð tæki á staðnum og í öðru lagi, að þeir, sem báðu um að fá að nota tækin, sæju um það sjálfir að hafa fullt samkomulag og samstarf um afnotin við þau verkalýðsfélög, sem fyrir eru á staðnum. Og aðilarnir hafa báðir verið látnir vita, að afnot tækjanna eru háð þeirri takmörkun, að þessum skilyrðum verði fullnægt.

Þá er um það spurt í öðru lagi, hvort lagaákvæði heimili þá notkun ótollaðra tækja, sem hér er um að ræða. Í þessu sambandi vil ég taka fram, að tollfrjáls tæki, sem lánuð eru til framkvæmda utan Keflavíkurflugvallar, eru ætíð skrásett, áður en þau eru flutt burt af vellinum og eftirlit haft með því, að þeim sé skilað aftur inn á flugvöllinn, þegar notkun þeirra er lokið. Hér er því ekki um innflutning að ræða, sem gefi tilefni til tollafgreiðslu, enda venjulega um stutt, tímabundin afnot að ræða. Það hefur viðgengizt, allt frá því að herlið kom fyrst til landsins á stríðsárunum og farið var að flytja inn tæki til þeirra framkvæmda, sem hér fóru fram á vegum varnarliðanna, tollfrjáls, að þessi tæki væru lánuð íslenzkum aðilum, þegar sérstaklega stæði á. Það hefur verið litið svo á, að slík notkun væri ekki í ósamræmi við íslenzka löggjöf og er þessi framkvæmd nú orðin meira en 20 ára gömul.

Ég hef því, að svo miklu leyti sem ég hef haft með þessi mál að gera, eingöngu fylgt þeirri venju, sem löngu var mynduð í landinu, en ég hef reynt, eins og tök hafa verið frekast á, að þrengja reglurnar og hafa með því nákvæmt og gott eftirlit, að tækjunum væri skilað aftur inn á völlinn og að þau væru á engan hátt notuð til þess að skapa einum eða öðrum betri samkeppnisaðstöðu við íslenzka aðila eða eigendur íslenzkra tækja. Þegar þannig hefur staðið á, að ástæða hefur þótt til að ætla, að hægt væri að nota tækin í slíkri samkeppni, hefur ekki verið leyft að lána tækin.