05.05.1965
Sameinað þing: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í D-deild Alþingistíðinda. (3334)

221. mál, vinnuvélar

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu, sem hann hefur gefið og þau svör, sem hann hefur veitt við fsp. minni. Ég skal ekki gera margar aths. við þau svör, enda ekki vettvangur til þess hér í fyrirspurnatíma.

Hæstv. ráðh. lagði á það ríka áherzlu í upphafi svars síns, að það væri mjög sjaldgæft, að veitt væru þau leyfi, sem um væri talað, til þess að nota ótollaðar vinnuvélar og verkfæri utan herstöðvasvæðisins. En síðar kom þó fram, var algerlega staðfest í svari hans, að þetta hefur átt sér stað all oft og á sér stað í mjög vaxandi mæli, að því er virðist, nú í seinni tíð.

Hæstv. ráðh .segir, að um þetta gildi mjög strangar reglur, þegar slík leyfi eru veitt og nefndi nokkur skilyrði, sem þyrftu að vera fyrir hendi, til þess að leyfi væru veitt. Eitt þeirra skilyrða og eitt hið helzta væri það, að ekki væru til sams konar tæki í landinu eins og þau, sem leyfi væri veitt fyrir ótolluðum út af Keflavíkurvelli. En í því sambandi vil ég benda á, að leyfi hefur verið veitt fyrir notkun vörubifreiða í allstórum stíl og að því er mér er tjáð jafnvel þótt fyrir væru bifreiðar á viðkomandi svæði, sem bifreiðastjórar hefðu gjarnan viljað koma í vinnu við þau verk, sem átti að framkvæma og um vörubifreiðar getur þetta ekki átt, að þær séu ekki til í landinu hliðstæðar við þær, sem gefin hafa verið leyfi fyrir.

Þá nefndi hæstv. ráðh. það sem eitt skilyrðið, að fullt samkomulag skyldi vera og samráð við verkalýðsfélög á víðkomandi stöðum. Ég vil draga í efa, að þessu skilyrði hafi ævinlega verið fullnægt og spyr, hvort svo sé nú í sambandi við Reykjanesbrautina, að því er varðar til að mynda bifreiðastjórafélag þeirra Voga- og Vatnsleysustrandarmanna.

Svar hæstv. ráðh. við því, hvaða lagaákvæði það væru, sem heimiluðu slíka notkun ótollaðra vinnuvéla utan herstöðvanna, var nánast það, að þetta væri orðin hefð, þetta hefði verið framkvæmt svona í 20 ár meira og minna og hann hefði ekki gert annað, en það, sem fyrirrennarar hans hefðu leyft, en ég sé ekki, að hann bendi á einn einasta lagastaf, sem hefur leyft þetta eða leyfir þetta.