23.10.1964
Sameinað þing: 5. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

1. mál, fjárlög 1965

Eysteinn Jónsson:

Gott kvöld. Á árunum 1962 og 1963 fóru ríkistekjurnar 560 millj. fram úr áætlun samtals. Af þessari fúlgu eyddi ríkisstj. umfram fjárlög 170 millj., en greiðsluafgangur var 160 millj. fyrra árið og rúmlega 130 síðara árið, eða samtals 300 millj.

Það er yfirlýst stefna ríkisstj. að hafa álögurnar meiri en útgjöldin og efna til greiðsluafganga, ekki til þess að leggja afgangana í almannaframkvæmdir, sem mest eru aðkallandi, heldur til þess að draga með álögunum úr kaupmætti, ná fé úr umferð og leggja inn í bankakerfið, eins og hæstv. fjmrh. var að lýsa hér áðan að væri nauðsynlegt til að auka jafnvægið. Þetta er liður í þeirra höftum og á að vera til þess að stuðla að jafnvægi, en þessi kjaraskerðing hefur þó ekki stuðlað að neinu jafnvægi, en orðið til þess eins, að innkaup til heimilanna og framkvæmdir almennings hafa orðið að víkja fyrir öðrum framkvæmdum og eyðslu þeirra, sem mest hafa haft peningaráðin og sumir hverjir hafa komið sér undan að borga lögmæt gjöld.

Ekki hafa greiðsluafgangar orðið fyrir aukna ráðdeild eða sparnað, því að þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur eyðsla farið hraðvaxandi og ríkiskerfið þanizt út með ofsahraða. Það er ekki heldur mikið talað núna síðustu missirin um þessi 59 sparnaðarfyrirheit sem fjmrh. og hans menn gáfu, á meðan þeir voru brattastir á fyrstu árum viðreisnarinnar, sællar minningar. Af handahófi tek ég dæmi.

Það átti að spara einhver ósköp í kostnaði við álagningu skattanna og af því tilefni var sá kostnaður áætlaður í fjárlögum 1963 tæplega 8 1/2 millj. kr. En reikningurinn sýnir á hinn bóginn núna, að kostnaðurinn varð 18 1/2 millj. kr. í stað 8 og er í flugvexti.

Þá átti að minnka kostnaðinn við eyðingu minka og refa, þó að enginn vissi í raun og veru, hvernig átti að fara að því, og var þetta boðað með því að áætla þennan kostnað í fjárlögum 1963 1 1/2 millj. kr., en nú sýnir reikningurinn, að hann nálgaðist 3 millj. kr. Svona fór það, og þannig mætti lengi telja.

Nefndum átti að fækka, en kostnaður við nefndir hefur vaxið tröllaskrefum, en þeirri brellu beitt að kalla nefndavinnuna í mörgum dæmum vinnuundirbúning þessa eða hins. Er sparnaður af því tagi táknrænn fyrir hagsýslu núv. ríkisstj.

Þetta er sjötta fjárlagafrv. þeirra viðreisnarmanna, og nú eru þeir búnir að koma því upp á 4. þús. millj. kr. Hækkunin er núna hvorki meiri né minni en 530 millj. frá fjárlögum þessa árs. Verður því stjórnin sífellt stórstígari og stórstígari og er nú farin að hafa meir en hálfan milljarð í skrefinu. Ekki gefur þó einu sinni þetta fullnægjandi mynd af ráðleysisöngþveiti ríkisstj. í efnahags- og fjármálum og afleiðingum þess, sem hún hefur aðhafzt, því að á fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir kostnaði við viðbótarniðurgreiðslur, sem ríkisstj. lætur nú framkvæma til þess að halda verðlaginu í skefjum í bili.

Sýnir þetta svo glöggt sem verða má, að ekki hefur ríkisstj. getað gert það upp við sig, þegar hún samdi fjárlagafrv., hvað skyldi næst til bragðs taka, heldur staðið ráðþrota. Kemur það ekki flatt upp á neinn, því að augljóst er orðið, að ríkisstj. hrekst nú mjög fyrir sjó og vindi.

Til þess að halda núgildandi niðurgreiðslum áfram og núgildandi uppbótum vegna landbúnaðar og sjávarútvegs þarf a.m.k. 850 millj., en á frv. eru 524 eða 300 millj. minna en þyrfti til að halda áfram eins og horfir.

Vegaútgjöldin eru að mestu utan fjárlaga, og í vegáætlun vantar væntanlega á þriðja hundrað millj., en væru þær í fjárlögunum og niðurgreiðslurnar og uppbæturnar, sem gilda núna, mundu fjárlögin komast upp í 3700—3800 millj. kr., og sýnir þetta, hvert stefnir. En þetta fjárlagafrv., þrátt fyrir allt, sem á það vantar, er nálega 4 sinnum hærra en fjárlögin voru fyrir 6 árum.

Það er ekki að furða, þótt aðalfundur Sjálfstfl. á dögunum fagnaði því, hve vel hefði tekizt að vernda íslenzku krónuna.

Það vekur eftirtekt, að söluskatturinn nýi, sem lögleiddur var í fyrra og mestmegnis átti að renna til sjávarútvegsins, á nú að renna í ríkissjóð. En uppbætur á fiskverð og framleiðniframlög til fiskvinnslustöðva eru ekki tekin með á fjárlögin. Þannig er nýjum álögum til venjulegra útgjalda bætt á undir fölsku yfirskini, og er það ekki ný bóla nú, sbr. innflutningssöluskattinn upp á nokkur hundruð millj., sem lögfestur var á byrjun viðreisnar með hátíðlegum loforðum um afnám hans eftir eitt ár, en hann stendur enn.

Allir sjá, hvernig fjárlögin hækka risaskrefum, og álögurnar finna menn í dýrtiðinni og á skattseðlum gjaldheimtunnar. Allt er þetta meira en lítið alvörumál, og tekur þó steininn úr, að þrátt fyrir þetta skatta- og tollaflóð tekst ekki að leysa á viðunandi hátt mörg þýðingarmikil verkefni, sem ríkið verður að leysa.

Skólaskortur er í landinu, og hefur ástandið í þeim málum farið hraðversnandi síðustu árin. Verður að vísa ungu fólki frá skólavist í hópum, og horfir þó, til enn vaxandi öngþveitis. Á næstu missirum verður að efna til nýrra stórátaka í menntamálum, bæði varðandi skólakost til almennrar menntunar, og þá ekki síður til að koma upp lífsnauðsynlegum tækniskólum, og endurskoða verður alla tækni- og vísindalega kennslu frá rótum með þarfir atvinnulífsins og nútímasamfélags í huga. Auknar fjárveitingar a,ð krónutölu, sem veittar hafa verið og lítið eitt fyrirhugaðar í þessu fjárlagafrv., hverfa eins og dögg fyrir sólu í verðbólguhít ríkisstj.

Svipaða sögu er að segja í spítalamálum landsins, þótt fjárveitingar hækki að krónutölu. Er það ömurlegur vottur um stefnuna, að í þessum málum og fleiri hliðstæðum skuli safnast fyrir óleyst verkefni í mestu góðærum, sem þjóðin hefur nokkru sinni lifað, og við harðsnúnustu skattheimtu, sem þekkzt hefur, síðan landið fékk forráð mála sinna.

Af þeim 3200 millj., sem innheimta á samkv. þessu fjárlagafrv., er ekki gert ráð fyrir; að hægt sé að sjá af einum eyri til nýrra sérstakra ráðstafana til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins eða til uppbyggingar í þeim byggðarlögum, þar sem skilyrði eru góð, en lítið fjármagn heima fyrir, og engan eyri til stuðnings á þeim stöðum, þar sem ástandið er verst.

Áður en stofnað var til núverandi öngþveitis og fjárl. voru ekki nema 800 millj. eða svo, var varið 13—15 millj. á ári sérstaklega til uppbyggingar víðs vegar um landið, þar sem skilyrði voru góð, en heimafjármagn af skornum skammti. Þannig var grundvallað sumt af því, sem nú mjólkar drýgst í þjóðarbúið: síldarverksmiðjur, fiskiðjuver o.fl., þótt Sjálfstfl. teldi þessar framkvæmdir þá bera vott um pólitíska spillingu, enda er nú svo komið, að framlög í þessu skyni nema á fjárl. litlum hluta af 10 millj., sem kallað er atvinnubótafé. Í þessu skyni ættu þó að vera í fjárl. a.m.k. 50—60 millj., miðað við margföldun þeirra og rýrnun krónunnar.

Framsóknarmenn flytja hér þing eftir þing frv. um nýja stofnun, sem hafi veruleg fjárráð til að sinna þessu þýðingarmesta verkefni í öllum þjóðarbúskapnum, þ.e.a.s. skipulegri uppbyggingu atvinnulífsins í landinu, þar á meðal skynsamlegum ráðstöfunum til eflingar þéttbýlisstöðvum, þar sem því verður við komið. Úr öðrum löndum berast nú þær fréttir, að einmitt þvílíkar ráðstafanir séu fyrirhugaðar í hverju landinu af öðru og taldar lífsnauðsynlegar. En ríkisstj. hérna og hennar lið hefur fram að þessu fellt frv. framsóknarmanna með þeim formála, að þessi hégómlega lágu framlög þeirra úr atvinnubótasjóðnum væru fullnægjandi ráðstafanir í þessu skyni.

Framsfl. mun halda áfram baráttu sinni í þessu máli, unz undan verður látið, eins og í fleiri málum, sem dæmi gerast um nú þessi missirin. Máske hjálpa okkur þær fréttir, sem úr öðrum löndum berast nú um þessi efni, því að kunnara er það en fram þurfi að draga, að fúsastir sýnast forráðamenn stjórnarflokkanna að hlusta á það, sem heyrist erlendis frá. Ættu landsmenn fyrir því, að sú árátta þeirra kæmi sér einu sinni vel.

Framlög af ríkistekjum til að dreifa raforkunni standa í stað ár eftir ár þrátt fyrir stökkhækkun fjárl. og rýrnun krónunnar.

Til aukinna átaka í húsnæðismálum telur ríkisstj. ekki hægt að verja neinu af þessum 3200 millj., enda þótt ástandið í húsnæðismálum hafi farið síversnandi undanfarin uppgripaár og sé nú orðið með öllu óþolandi. Minnstu íbúðir eru nú orðið leigðar á 4000–6000 kr. á mánuði, ef þær fást, sem er raunar fágætt. Fjöldamargir borga nú þessa mánuðina í húsaleigu allt það, sem eftir er af mánaðarkaupinu, þegar ríkisstj. hefur tekið af þeim upp í skattana, og margir miklu meira, og enn aðrir eru hreinlega á götunni. Það er svo táknrænt, að ofan á þetta ástand eru það helztu ráðstafanir ríkisstj. til að draga úr fjárfestingunni að hræða menn frá því að leggja út í nýjar íbúðabyggingar á þessu hausti. Það er þáttur í þeirra höftum, og þá fannst þeim sanngjarnast að draga úr fjárfestingunni með því að minnka íbúðabyggingarnar. Skilningur valdhafanna á húsnæðisvandamálinu, sem augljóslega hefur verið að skapast undanfarin ár, sést á því, að í framkvæmdaáætlun þeirri, sem gefin var út í fyrra, segir ríkisstj. orðrétt:

„Nú er hins vegar svo komið, að hið mikla húsnæðisvandamál, sem fyrir lá í lok styrjaldarinnar, er í aðalatriðum leyst og sérstakra átaka í húsnæðismálum af því tagi, sem gera varð á síðasta áratug, er ekki lengur þörf.“

Með þessa speki að leiðarljósi hefur ríkisstj. látið íbúðamálin verða að stórfelldu þjóðfélagsvandamáli þrátt fyrir betri kringumstæður til að gera stórátök í þeim málum en nokkur ríkisstj. hefur áður haft.

Í verkalýðssamningunum í vor var ríkisstj. loks þvinguð til að gera nokkrar endurbætur á lánakjörum íbúðalána, og kostaði það nýjan skatt og sennilega þó fleiri en einn nýjan skatt, því að á fjárl. telur ríkisstj. sig ekki hafa pláss fyrir framlög til húsnæðismála, eins og þetta fjárlagafrv. sýnir.

Húsnæðismálin standa nú orðið þannig, að skammt mun það hrökkva til að leysa þau, sem fékkst fram í vor. Mun þar ekkert minna duga en ráðstafanir til að gera byggingu hentugs íbúðarhúsnæðis ásamt öðru hliðstæðu í almannaþágu að hreinum forgangsframkvæmdum í landinu.

Framlög til landbúnaðannála eru nokkuð hækkuð í krónutölu í þessu frv., og er það mest vegna þess, að stéttasamtökum bændanna tókst að knýja fram í afurðaverðsamningunum í haust ýmis atriði, sem áttu að vera sjálfsögð, en synjað var gersamlega að samþykkja með eðlilegum hætti. Vantar þó mikið á, að hlutur landbúnaðarins varðandi framlög til uppbyggingar og lánskjör hafi verið réttur miðað við það, sem áður var, hvað þá bættur, sem brýn nauðsyn krefur. Verður þeirri baráttu haldið áfram.

Vegamálin veróa eitt gleggsta dæmið um, hvernig stjórnarstefnan leikur framfaramálin og hvernig verðbólgan étur framkvæmdaféð, Til vegaframkvæmda og brúa voru samþ. 100 millj. kr. í nýjum álögum í fyrra. Samt var ekki hægt að halda vegunum viðhlítandi við í sumar og féð til nýlagningar varð svo ódrjúgt, að furðu sætti, miðað við verkefnin, því að þau eru sístækkandi í vegamálum. Horfir nú enn til vandræða með vega- og brúaframkvæmdir. Ríkissjóður tekur til almennra þarfa stórfé af því, sem lagt er á umferðina, og mun Framsfl. halda áfram baráttu sinni fyrir því að fá það fé í vaxandi mæli til vega- og brúargerða.

Þetta fjárlagafrv,. er í sannleika sagt ófögur mynd af rangri stjórnarstefnu, örlagaríkum mistökum veikrar ríkisstj. Veruleikinn er þó verri en frv. sýnir, því að þar er leynt, hvernig komið er, eins og glöggt hefur þegar komið fram í þessum umr.

Ofan á allt annað er ríkisstj. komin algerlega í hring, þar sem hún streitist nú við að borga niður með ríkisfé sívaxandi verðhækkanir, sem hún hefur beinlínis sjálf kallað fram skipulega með stefnu sinni, sem byggð var á því að láta verðlag og framkvæmdakostnað hækka meira en kaup og aðrar tekjur almennings. Af því sýpur ríkisstjórnin nú seyðið sjálf, síðan vísitalan fékkst loks sett í samband við kaupgjaldið á ný.

Ég kem að skattamálunum, sem efst hafa verið á baugi um sinn, og kemur það ekki til af góðu. Ríkisstj. lýsti því yfir 1960, að stefna hennar væri sú að afnema tekjuskatta á almennum tekjum. Og þegar skattal. frá 1960 voru sett, var því lýst yfir hátíðlega, að búið væri að afnema tekjuskattinn á almennum launatekjum. Brátt fóru menn þó að finna, að hér var ekki allt með felldu, enda fór svo fjarri því, að þetta væri satt, að síðan þessu var lýst hátíðlega yfir, að skattar þessir væru úr sögunni, er sagt, að þeir hafi í tvígang verið lækkaðir, en samt eru þeir nú þyngri miðað við gjaldgetu manna en nokkru sinni fyrr.

Hér var sem sé þannig frá gengið, að umreikningsreglan gamla var numin brott úr skattal. 1960 og beinir skattar hækkuðu því óðfluga með vaxandi dýrtíð og verðbólgu. Einkum var augljóst, að í hreint óefni stefndi á þessu ári, því að ríkisstj. lagði til í vetur sem leið að hækka skattstigana á meðaltekjum ofan á annað og taka þannig til baka að mestu leyti leiðréttinguna, sem gerð var á persónufrádrættinum. Stefndi hér sýnilega í mikinn vanda.

Lögðu framsóknarmenn því þrennt til málanna í vetur, sem hefði getað bjargað: að hækka meira persónufrádráttinn, að till. ríkisstj. um að hækka skattstigann á meðaltekjum yrðu felldar og að umreikningurinn yrði tekinn í lög á ný. En stjórnarflokkarnir máttu ekki heyra þetta nefnt og létu aðvaranir framsóknarmanna sem vind um eyru þjóta og felldu till. okkar og kölluðu yfirboð, eins og þeir eru vanir. Fjmrh. taldi, að íullyrðingar framsóknarmanna um, að fram undan væri gífurleg skattahækkun, ef ekki yrði meira að gert til þess að leiðrétta skattalögin, — fjmrh. taldi þessa yfirlýsingu glöggt dæmi þess, hve lágt væri hægt að leggjast í heiðarlegum málflutningi, og dæmi um pólitískt siðleysi. Minna mátti það ekki heita. Þvert á móti væri nú enn von á verulegri skattalækkun, sagði ráðh. Undir þetta tók svo allur stjórnarkórinn, og hámarki sínu náði þessi þokkalega blekking, þegar blað fjmrh. lýsti því með sterkum orðum, rétt áður en skattskrár fóru að koma, að nú mundu beinir skattar lækka svo rækilega, að menn gætu hópum saman siglt í sumarfríunum fyrir það, sem sparaðist í skattgreiðslunum.

En þá féll reiðarslagið. Skattskrá höfuðborgarinnar kom út. Áróðursmoldviðrið féll til jarðar. Sannleikurinn um skattana stóð allt í einu svartur á hvítu, ekki bara í Tímanum, heldur líka á sjálfum skattseðlunum. Þúsundir manna sáu nú tvennt í senn, að þeir réðu ekki við að borga skattana, sem áttu að vera ýmist úr sögunni eða orðnir fisléttir, enn fremur, hvers virði málflutningur fjmrh., ríkisstj. og stjórnarblaðanna var, þegar hægt var að finna kvarða til að mæla á sannleiksgildið. Hefur síðan að ýmsum hvarflað máltækið, að „fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott“, því að þessum býsnum fylgdi þýðingarmikil reynsla af því, hvers virði áróður stjórnarflokkanna er og hve mikið þeim er að treysta. Gæti sú reynsla komið að gagni síðar.

Skipti nú engum togum, að allir sáu, hvernig í pottinn var búið. En stjórnarblöðin ætluðu samt ekki að láta sig, og blað fjmrh. byrjaði t.d. á því að segja þær fréttir, að menn væru núna óvenju ánægðir með skattana. En almenningsálitið og hvernig raunverulega er ástatt sést bezt á því, að ekki liðu margir dagar, unz það stóð í Alþýðublaðinu t.d., að ranglæti í skattamálum væri nú í fyrsta sinn í sögunni svo hróplegt, að við það yrði alls ekki unað, og í Morgunblaðinu mátti finna — innan um afsakanirnar, að skattalögin líktust mest óðs manns æði í framkvæmd, en samt var því haldið fram blákalt, að skattur og útsvar hefðu lækkað.

Jók það enn réttmæta reiði manna, að skattundandráttur virtist mönnum nú meiri en nokkru sinni, og voru það efndirnar á mörgum hátíðlegum skrumyfirlýsingum margendurteknum undanfarin missiri um, að skattsvik væru að verða úr sögunni. Var þetta því allt hvað eftir öðru.

Framkvæmdastjórn Framsfl. hófst strax handa, því að líklegt var, að nú hefði jarðvegur skapazt, sem gæti orðið til að knýja fram þær réttmætu skattalagabreytingar, sem felldar voru fyrir flokknum í fyrravetur. Enn fremur var augljóst, að þessar álögur sköpuðu þúsundum heimila lítt eða alveg óleysanlegan vanda, og varð því að reyna að knýja einnig fram lækkun á álögðu sköttunum.

Framsfl. stakk strax upp á því, að efnt yrði til samstarfsnefndar stjórnmálaflokkanna, sem beitti sér jöfnum höndum að því að finna leiðir til að lækka álagða skatta og tillögugerð um gagngerðar endurbætur á skatta- og útsvarskerfinu til frambúðar. Till. flokksins og forusta í málinu höfðu feikna hljómgrunn. Það var auðfundið, en ríkisstj. vildi ekki nota tækifærið og efna til samstarfs um málið, sem þó hefði verið skynsamlegast. Hún neitaði því þessu samstarfi og reyndi að bera sig vel í fyrstu.

En augljóst var, að nú var stjórninni brugðið, og á öllu sást, að fjmrh. fann, að hann var ósvinnur orðinn. Er skemmst af að segja, að þegar ráðh. var ásamt okkur fleirum kvaddur í útvarpsþátt til að segja álít sitt á þessum málum, gaf hann þessi fyrirheit, orðrétt: „Að hækka persónufrádrátt, að breikka þrepin í skattstiganum og að setja í skattalögin ákvæði um breytingu á persónufrádrætti og skattstiga með hliðsjón af kaupgjalds- og framfærsluvísitölu.“

Eins og allir mega heyra, eru þetta einmitt þau þrjú meginatriði, sem framsóknarmenn gerðu till. um í fyrravetur, en stjórnarflokkarnir felldu þá og létu fylgja svigurmæli um yfirboð og ábyrgðarleysi. En ávarp fjmrh. í ágúst til landsmanna hefði alveg eins mátt orða þannig: Verið ekki reið, við lofum nú að gera það, sem Framsfl. vildi í vetur, en við felldum þá.

Nú er það hlutverk almennings að vera á verði með okkur og sjá um, að ekki verði hlaupið frá því, sem lofað hefur verið núna og lofað var, þegar almenningsálítið brann heitast á ríkisstj., enn fremur, að herferð verði hafin gegn skattsvikum og þá ekki síður á söluskatti en öðrum sköttum og endurbætur gerðar á útsvarslöggjöfinni. Þetta lýtur að framtiðinni, og við verðum að telja, að nú hafi tekizt að skorða ríkisstj. varðandi veigamikil atriði með þessu lagi.

En erfiðlega gengur með lagfæringu á álögðum sköttum, sem eru mjög mörgum alveg gersamlega ofviða, eins og nú er komið húsnæðisokri og dýrtíð hins vegar. Fyrst í sumar virtist lát á ríkisstj. einnig í því máli, en nú er helzt að heyra, að það eitt standi til að gefa kost á elns konar kreppulánum til stutts tíma með viðreisnarvöxtum til að greiða ríkisstj. upp í skattana. Leysir það ekki vanda manna, sem augljóst er. En sögulegur atburður má það teljast, að ríkisstj. sér sér þann kost helztan fyrir hendi að stofna hjálparlánasjóð handa mönnum til að greiða álögur hennar sjálfrar, og ekki verða þetta minni tíðindi, þegar í hlut á sú ríkisstj., sem hafði hátíðlega heitið því að afnema beina skatta á almennum tekjum og margsagt og það alveg fram á síðustu stund, að hún væri búin að því.

Í stað þess að lækka álögðu skattana, sem þeir hafa neyðzt til þess að játa með loforðum um breytingu næst, að engri átt nái nú, er nú enn byrjað á alls konar vífilengjum og farið að framleiða óskiljanlega talna-„rebúsa“ með gamla laginu, sem eiginlega eiga helzt að sýna, að ekkert óvenjulegt hafi gerzt. Manni skilst helzt, að menn hljóti að hafa lesið skakkt á skattseðlunum. Inn í þetta er svo blandað getgátum um, hvað menn hefðu þurft að borga, ef í gildi hefðu verið skattalög, sem giltu fyrir 6 árum, og þetta kallaðir útreikningar, en eru blekkingar einar, því að enginn getur þar fundið réttan samanburð, þegar verðlagskerfi, peningagildi og fjármálakerfi landsins hefur verið gersamlega umturnað og persónufrádrættir og skattstigar frá þeim tíma gætu því alls ekki komið til mála nú. Allur slíkur samanburður er í þeim eina tilgangi gerður að draga frá því athyglina, að það á að reyna að innheimta álögðu skattana þrátt fyrir allt, því miður, nema stefnunni verði breytt frá því, sem horfir nú í dag.

Framsóknarmenn hafa nú lagt fram frv. um að fella niður tekjuskatt undir 7000 kr. og 7000 kr. hjá hverjum einstaklingi, sem meira á að borga, og lækka álögð útsvör um 20%, enn fremur lögskipa sérstaka rannsókn á framtölum ársins 1963 og efna til samstarfs um endurskoðun skatta- og útsvarslaga. Sveitarfélögum verði bætt upp af ríkisfé lækkun útsvaranna. Þetta er hægt að gera og verður að gera til að létta undir með greiðslum hjá þeim, sem alls ekki ráða við þessar álögur.

Umframtekjur ríkissjóðs af tekjuskattinum einum munu nægja til að mæta þessari lækkun á tekjuskattinum sjálfum, og af öðrum sköttum í ár fær ríkissjóður feikna umframtekjur, en nú verður enn eitt metár í framleiðslu, eins og hæstv. fjmrh. lagði sjálfur áherzlu á áðan. Hér við bætist, að greiðsluafgangur tveggja síðustu ára nam um 300 millj. kr.

Vafalítið verða till. okkar í þessum málum kallaðar yfirboð. En við tökum það ekki nærri okkur, og enginn mun taka slíkt alvarlega framar. Það var líka kallað yfirboð t.d. að leggja til, að aukið jarðræktarframlag næði til 25 ha. túna, en nú er það komið í lög. Það var líka kallað yfirboð að krefjast og gera till. um lækkun á vöxtum af íbúðalánum, og það var sagt, að slíkt væri með öllu óframkvæmanlegt, enda væru vextirnir léttbærir. En þegar stjórnin stóð frammi fyrir óleysanlegum kjaramálum í vor og ráðherrastólarnir voru farnir að rugga, þá reyndist hægt að lækka íbúðalánavextina um helming eða um 4%. Það var líka kallað yfirboð að leggja til þær breytingar á skattalöggjöfinni í fyrra, sem felldar voru fyrir okkur framsóknarmönnum þá. En 17. ágúst í sumar gaf fjmrh. þau fyrirheit í útvarpinu, að þessi atriði skyldu tekin til greina og gerð að lögum á þessu þingi. Við tökum því ekki nærri okkur, þó að till. okkar kynnu að verða kallaðar yfirboð af stjórnarliðinu.

Sumir kunna að halda, að óheilindi hæstv. ríkisstj. í skattamálum, sem nú blasa við allra augum, séu einsdæmi. En svo er ekki. Það er miklu nær, að þetta sé einkennandi fyrir ráðlagið allt, því miður. En menn sjá þetta með beinu skattana betur en margt annað, af því að það snertir menn meira beint. Flest hliðstætt dylst fremur, en er þó engu síður áhrifarikt, enda hefur það ekki gerzt sjálfkrafa að umturna tekjuskiptingunni í landinu, eins og gert hefur verið á fáum árum og ég drep á í örfáum orðum hér á eftir.

Lítum að lokum á nokkra höfuðþætti stjórnarstefnunnar aðra en þá, sem ég hef þegar rætt í beinu sambandi við fjárlagafrv.

Því var hátíðlega heitið, að uppbótakerfið skyldi hverfa með öllu. En núgildandi uppbætur og niðurgreiðslur mundu nema 850 millj., ef þeim verður haldið áfram í gildi. Þetta eru efndirnar á því að afnema uppbótakerfið. Það átti að koma á stöðugu verðlagi með sjálfvirku efnahagskerfi. Dýrtíðarvöxturinn hefur þó orðið nálega fjórfalt hraðari á þessum árum en áður. Það átti að koma á stöðugu verðgildi peninga og viðhalda gildi krónunnar og sparifjárins. En aldrei hefur verðgildi peninga og kaupmáttur sparifjár rýrnað jafnóðfluga og á þessum árum. Það var lofað frelsi. En í framkvæmdinni hefur það orðið frelsi þeirra einna, sem hafa fullar hendur fjár, en lánsfjárhöftum og kjaraskerðingarpólitík óspart beitt til þess að hefta hina. Baggana átti að binda þjóðinni, til þess að hún gæti greitt niður og lækkað skuldir sínar við útlönd. En þrátt fyrir mestu uppgripaár, mörg í röð, hafa skuldir þjóðarinnar út á við, að frádregnum innstæðum og að frádregnum hinum margumtalaða gjaldeyrisvarasjóði, hækkað stórkostlega, en ekki lækkað, og lausaskuldir til stutts tíma eru hærri en nokkru sinni fyrr vegna rekstrarlánanna stuttu, sem menn hafa orðið að grípa til vegna rekstrarfjárskortsins.

En ofan á þetta allt saman bætist, að þrátt fyrir óvenjulegt góðæri og vaxandi þjóðartekjur hefur raunverulegt endurgjald vinnandi fólks fyrir hvern vinnudag farið minnkandi í stað þess að fara eðlilega vaxandi.

Nú er nálega engum kleift að sjá sér og sínum farborða með endurgjaldi fyrir venjulegan vinnudag, og þrátt fyrir góðæri til lands og sjávar og fágæt uppgrip standa framleiðsluatvinnuvegirnir einnig höllum fæti. Koma þar fyrst og fremst til greina hagstjórnaraðferðir núv. ríkisstj., sem koma þungt niður á þessum undirstöðugreinum í þjóðarbúskapnum. Sést búskaparlagið bezt á því, að þannig skuli vera háttað afkomu þessara undirstöðuatvinnuvega, enda þótt kaupgjald sé lægra hér en í nálægum, sambærilegum löndum og raunverulega lægra nú en það var fyrir 6 árum. Samt er því haldið hér blákalt fram og síðast nú fyrir nokkrum mínútum úr hessum stól, að það séu óeðlilegar hækkanir á kaupgjaldi, sem séu undirrót þeirrar verðbólgu, sem þjóðin hefur búið við á síðustu árum.

Höfum við ekki sögur af því, að nokkur ríkisstjórn önnur en þessi hér haldi þannig á málum, að endurgjald fyrir venjulegan vinnudag, þ.e.a.s. kaupgjald og tekjur í landbúnaði, hafi farið lækkandi þrátt fyrir vaxandi þjóðartekjur. Slík frammistaða mun nálega heimsmet í ráðleysi og óstjórn, og svo eiga menn að þakka þá mola, sem stjórnin lætur falla á flóttanum og eiga að koma í staðinn fyrir mannsæmandi búskaparlag.

Kjarni meinsemdarinnar er sá, að ríkisstj. er alltaf að reyna að koma á jafnvægi og lækna verðbólguna með því að draga úr kaupgetu manna með auknum tollum og sköttum og minni kauphækkunum og minni hækkunum á tekjum bænda en dýrtíðaraukningunni nemur og með því að halda niðri almennum bankaútlánum og útlánum til framleiðslunnar og halda háum lánavöxtum. Þetta eru hagstjórnaraðgerðirnar, sem reyndar hafa verið núna nálega um 6 ára skeið og skapað hafa það ástand, sem blasir við í efnahagslífi þjóðarinnar, og enn er haldið dauðahaldi í þessar aðferðir.

Um þetta stendur hið eilífa stríð við almenning og framleiðendur út af kaupgjaldi, dýrtíð, vöxtum, rekstarlánum og stofnlánum. Ríkisstj. kemur þó aldrei til fulls fram vilja sínum vegna samtaka fólksins og stuðnings stjórnarandstöðunnar við þau, sem af og til verður að taka tillit til. En jafnvægið næst auðvitað ekki og næst aldrei með þessum aðferðum, og verðbólgan dunar áfram og svikamyllan malar. Gífurlegar verðbólguframkvæmdir þeirra, sem mest hafa peningaráðin, sitja fyrir. Verðbólgugróðinn eykst hröðum skrefum og sogar til sín sívaxandi hluta af þjóðartekjunum og vinnuafl frá framleiðslunni og íbúðabyggingum t.d. Sú gífurlega eyðsla, sem á þessu byggist, á sinn ríka þátt í því að viðhalda sjálfum vandanum. Á þessum slóðum er að leita þess fjár, sem vantar til að framleiðslan skili góðum arði á þessum árum og geti borgað viðunandi kaup. En stjórnarstefnan er beinlínis byggð á því, að þetta verði svona að vera, peningaöflin verði að leika lausum hala, en jafnvægi skuli ná með takmörkunum á kaupgetu almennings, háum útlánsvöxtum og harðvítugri lánsfjárskömmtun, sem kemur þyngst niður á framleiðslunni, því að þessi stefna lamar rekstur fjölda þýðingarmikilla fyrirtækja í landinu vegna rekstrarfjárskorts, sem henni fylgir.

Verðbólgan stafar ekki af of miklum kauphækkunum á undanförnum árum. Verðbólgan er herkostnaðurinn við að láta peningavaldið rótfesta sig í landinu með framkvæmdum sínum og umsvifum, sem komast fram fyrir annað, þegar kjör annarra eru skert og dregið úr lánsfé og það gert dýrara og dregið úr stuðningi ríkisins við þýðingarmestu framkvæmdir. En þessi verðbólguumbrot peningavaldsins eru svo fyrirferðarmikil í þjóðarbúskapnum, að á meðan þau eru höfð í forgangsflokki, verður ætíð hernaðarástand í atvinnu- og efnahagsmálum.

Nálega allir finna nú, að eitthvað meira en lítið er bogið við stjórnarstefnuna. Það er ávinningur. En það þarf þó meira til. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að blaðinu verður að snúa alveg við. Líta verður á allt þetta frá nýjum sjónarhól, kasta úreltum hagstjórnaraðferðum, bar sem handahófið og verðbólgueyðslan er látið sitja í öndveginu, taka þess í stað upp þá stefnu að beina fjármagni landsmanna, vinnu og vélaafli að því að efla sjálfa framleiðsluna, auka framleiðni og vélvæðingu og borga mannsæmandi kaup fyrir venjulegan vinnudag, láta þær framkvæmdir sitja fyrir, sem þýðingarmestar eru, og rista þannig meðal annars fram úr húsnæðisvandamálinu og rekstrarfjárvandamáli atvinnuveganna. Stefna verður að skipulegum hagvexti og réttlátri skiptingu þjóðarteknanna, eðlilegu jafnvægi í byggð landsins, beita vísindalegum starfsaðferðum, efla rannsóknir og leiða vinnu, þekkingu og skipulag til sætis við háborðið í stað handahófs og úreltra hagstjórnaraðgerða, sem draga niður á við og nágrannaþjóðir okkar telja ekki nothæfar lengur.

Stefnubreytingu verður að knýja fram. Hægt er að þvinga fram nokkrar lagfæringar í einstökum atriðum, sumum þýðingarmiklum, og fyrirbyggja sumt af því versta með jákvæðri baráttu stjórnarandstöðunnar, einkum í samvinnu við almannasamtökin og með stuðningi almenningsálits, eins og glögg dæmi sanna. En aðkallandi, raunar lífsnauðsynleg breyting á grundvallarstefnu og viðhorfum fæst ekki, nema nægilega margir landsmenn sameinist um að fylgja fram nýrri stefnu í stað þeirrar, sem fyrir allra augum hefur gengið sér til húðar. — Góða nótt.