23.10.1964
Sameinað þing: 5. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

1. mál, fjárlög 1965

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Aðaluppistaðan í ádeilum stjórnarandstæðinga á fjárlagafrv. er sú, að fjárlagaupphæðin hækki og hækki verulega. Fyrsta spurningin hlýtur þá að vera sú: Er það óeðlilegt, að fjárlög hækki frá ári til árs? Hv. þm., sem hér talaði fyrir Alþfl., Birgir Finnsson, gerði þessum málum nokkur skil og benti á það, að vegna fólksfjölgunar í landinu og vaxandi þjóðartekna væri eðlilegt, að fjárlög hækkuðu, bæði tekjur og útgjöld, frá ári til árs. Þetta þarf því engan að undra. Það þarf engan að undra, að þegar við höfum þjóðartekjur, sem nema um 17 milljörðum kr., þá er eðlilegt, að tekjur og gjöld ríkisins séu í krónum hærri en þegar þjóðartekjurnar nema 8 milljörðum eða tæpum helmingi þeirrar upphæðar.

Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, sagði, að hækkunin í fjárl. frá siðasta árs fjárl. væri 530 millj., og er það rétt. Að vísu sleppti hann janúarlögunum, sem ég rakti hér í minni frumræðu og hækkuðu verulega bæði tekjur og gjöld ríkisins. En látum það nú vera, þótt hv. þm. sleppti því. En hann átti varla nógu sterk orð til að hneykslast á því, að á einu ári skyldu fjárlög hækka um þessa upphæð. Mér finnst undarlegt, að þetta skuli koma honum spánskt fyrir. Þessi hækkun frá gildandi fjárlögum til fjárlagafrv. nemur um það bil 20%. En það var fyrir nokkrum árum, sem þessi hv. þm. var fjmrh. og hann lagði fram haustið 1956 frv. til fjárl., þar sem hækkun var á einu ári úr 516 millj. upp í 662 millj. eða um ca. 28%. Nú er að vísu dálítið svipað, sem gerðist á því ári, eins og á s.l. ári, að kauphækkanir urðu mjög miklar í landinu, þó ekki eins miklar þá og á síðasta ári, en hvort tveggja olli verulegri hækkun fjárl. En mér finnst, að hv. þm., sem lagði sem fjmrh. fram frv. um 28% hækkun fjárl. á einu ári, ætti ekki að hneykslast stórkostlega á því, að fjárlög hækki nú um 20% á einu ári, þegar þess er þó gætt, að í ársbyrjun var bætt við með janúarlögunum miklum tekjum og gjöldum.

En fyrst þessi hv. þm., Eysteinn Jónsson, hneykslaðist svo mjög á því, að fjárl. skuli hækka, er ekki óeðlilegt, þótt hv. þm. og hlustendur hafi beðið þess í ofvæni, hverjar till. hann bæri fram og ábendingar um að lækka fjárl., fyrst þau voru svona óhóflega há. En þann hálftíma, sem hv. þm. talaði, fyrirfannst ekki í hans ræðu ein einasta till., ein einasta ábending um lækkun útgjalda. Og það var ekki nóg með það, að engin ábending um útgjaldalækkun fyrirfyndist í hans ræðu, heldur var ræða hans full af kröfum um hækkanir útgjalda. Hann sagði, að það yrði að fá miklu meira fé í skóla, það væri lífsnauðsynlegt að fjölga tækniskólum og verja meira fé til menningar þjóðarinnar en nú er. Hann heimtaði miklu meira fé á fjárl. til spítalabygginga. Hann heimtaði stórhækkuð framlög til atvinnubótasjóðs til þess að efla atvinnulífið víðsvegar úti á landi. Og hann heimtaði stóraukið fé í fjárl. til íbúðabygginga og komst svo að orði, að ekki virtist pláss í fjárlagafrv. fyrir nein framlög til íbúðabygginga. Nú missýnist honum að vísu í þessu efni. Í fjárlagafrv. er nú m.a. einn liður, sem hv. þm. hefði þó átt að staldra við, en það er framlag að upphæð 25 millj. kr. til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Ég segi: hann hefði átt að staldra við þennan lið, því að hann hefur hækkað frá árinu 1953, síðasta árinu, sem hv. þm. var fjmrh., hækkað úr 3.8 millj. upp í 25 millj. Þessi liður, þetta framlag til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði, sem ætti þó að koma þeim til góðs, sem verst eru staddir í þessum efnum, hefur þannig á þessu tímabili hækkað um og yfir 500% eða milli sex- og sjöfaldazt, en byggingarkostnaður hefur þó ekki hækkað nema um rúmlega 60% á þessu tímabili. Það er annað mál. En hitt skiptir þó mestu í þessu sambandi, að þannig er borin fram hver krafan eftir aðra frá hv. þm. um það að hækka útgjöld fjárl. frá þessari og umfram þessa ofboðslegu hækkun, sem ríkisstj. leggi til. Og það er ekki nóg með þessi fjögur dæmi, sem ég nefndi, heldur má nefna enn eitt. Hv. þm., málgagn hans og flokkur hafa krafizt þess eindregið, að laun opinberra starfsmanna yrðu miklu hærri en þau eru. Það kom berlega fram í samningstilraunum á s.l. ári milli BSRB og ríkisstj. um laun opinberra starfsmanna, hvernig málgagn Framsfl. átti ekki nógu sterk orð til að lýsa þeim smánarboðum, sem ríkisstj. bæri fram, þegar ríkisstj. lagði þó til, að laun opinberra starfsmanna yrðu hækkuð miklu meira en þekkzt hafði áður í sögu ríkisins og margfalt meira en þessum hv. þm. hafði nokkurn tíma dottið í hug að bjóða opinberum starfsmönnum, meðan hann var við völd.

Því er ekki að neita, að þetta kemur dálítið einkennilega fyrir allt saman, annars vegar þessi mikla hneykslan á því, að fjárl. skuli hækka, þegar þess er gætt í fyrsta lagi, að hann þekkir fordæmi úr sinni eigin sögu um miklu meiri hækkun milli fjárl. tveggja ára, og þegar maður gætir þess, að hann hefur engar till. að gera um lækkun útgjalda, en ber fram hverja kröfuna eftir aðra í þessari hálftíma ræðu sinni um stóraukin framlög. Þessi hv. þm. hefur oft verið talinn slyngur taflmaður í tafli stjórnmálanna, en manni verður það á að detta í hug, hvort hann sé nú orðið sleginn skákblindu.

Hv. þm. taldi, að ríkisstj. hefði nú gengið á bak orða sinna í mörgum efnum og ekki staðið við fyrirheit sín. Hann nefndi sem dæmi um brigðmæli ríkisstj., að á sínum tíma hefði verið lagður hér á bráðabirgðasöluskattur með hátíðlegum loforðum um að afnema hann eftir eitt ár. Þetta er tilbúningur einn. Það hefur verið margsinnis sýnt fram á það í umr. hér á Alþingi, að engin slík loforð, fyrirheit eða ádráttur í þá átt hafa verið gefin, þegar bráðabirgðasöluskatturinn var lögleiddur 1960. Og nú heldur hv. þm. því fram, að það séu brigðmæli af hendi ríkisstj. að gera í fjárlagafrv. ráð fyrir, að 2 1/2% söluskatturinn, sem var lagður á í janúarmánuði, eigi að haldast áfram. Þetta er líka rangt, enda skýrt tekið fram í janúarlögunum, að söluskattshækkunin er ekki bundin við árið 1964, heldur ótímabundin. Því er haldið fram, að það sé fráleitt að halda þessari söluskattshækkun, vegna þess að mikið af þeim útgjöldum, sem hún átti að standa undir, sé ekki tekið í þetta frv. Þetta er líka misskilningur. Þeir liðir, sem söluskattshækkunin samkv. janúarl. átti að standa undir, voru styrkur til togaranna, styrkur til frystihúsanna, uppbót á fiskverð, hækkun á almannatryggingum, fiskileit, framlag til fiskveiðasjóðs og niðurgreiðslur. Flestir af þessum liðum eru áfram í fjárlagafrv. Þeir standa allir í fjárlagafrv. áfram og þörf fyrir allar þessar greiðslur nema tvær, hagræðingarstyrkurinn til frystihúsanna og uppbótin á fiskverðið, hins vegar sumir þeirra hækkað, eins og t.d. framlagið til fiskveiðasjóðs.

Sami hv. þm. nefndi enn sem dæmi í þessa sömu átt, að ríkisstj. og stuðningsmenn hennar hefðu gefið 59 sparnaðarfyrirheit á sinni tíð og lítið sem ekkert af því verið efnt. Þetta er ekki rétt heldur. Á sínum tíma vöktu bæði fjvn. og ég athygli á því í mörgum liðum, að ýmis atriði í ríkisrekstrinum þyrftu athugunar við og það þyrfti að kanna, hvort mögulegt væri að breyta fyrirkomulagi í sparnaðarátt eða til bættrar starfsemi í ýmsum greinum. Það er tæpast sómasamlegur málflutningur að kalla það loforð og fyrirheit um sparnað, ef bent er á, að tiltekin atriði þurfi að kanna og athuga, hvort möguleikar séu á að draga þar úr kostnaði. Hér hefur áður á Alþingi, m.a. í fjárlagaræðum, verið gefið yfirlit um mörg þessara atriða. Mörg þeirra, sem átti að kanna, hafa verið könnuð og hafa leitt til betra skipulags og verulegs sparnaðar. Önnur atriði hafa við könnun sýnt, að ekki hefur verið hægt að koma v ð sparnaði eða breyttu skipulagi. Í sumum tilfellum hafa breytingar mætt andstöðu frá ýmsum aðilum og af þeim ástæðum ekki getað komizt í framkvæmd.

Á þessu þingi verður lagt fram frv. til l. um hagsýsl ríkisins og í sambandi við það frv. verður gerð ýtarlega grein fyrir öllu því starfi, sem í þeim efnum hefur verið unnið á síðustu 4—5 árum.

Hér hafa skattamálin verið gerð mjög að umtalsefni. Hér er ekki tími í þessari síðustu ræðu að fara rækilega út í þau mál. En ég vil þó aðeins rifja það upp, að þegar núverandi stjórn tók til starfa í nóvember 1959, var hér almenn og mögnuð óánægja með beinu skattana, og gagnrýnin beindist þá að tvennu, annars vegar því, að skattar á hverjum gjaldanda væru of þungbærir, og hins vegar, að skattsvik væru stórfelld. Ríkisstj. ákvað að endurskoða skattalögin til að reyna að ráða bót á þessum meinsemdum, og með skattalögum frá 1960 var tekjuskattsl. gerbreytt og skattur afnuminn af almennum launatekjum. Þessar lagabreytingar féllu í góðan jarðveg hjá öllum almenningi, sem taldi þær verulega hagsbót og réttarbót. Þær urðu einnig til að bæta framtöl og draga úr skattsvikum að dómi allra, sem gerst þekkja. Þannig liðu fram 3 ár, og varð ekki teljandi vart gagnrýni og óánægju varðandi tekjuskattinn. En á árinu 1963 varð hér gerbreyting í launamálum, launahækkanir meiri en þekkzt höfðu áður, og var því ljóst, að lina þyrfti tekjuskattslögin vegna hækkandi verðlags og hækkandi tekna. Ríkisstj. flutti því og fékk samþykktar á síðasta Alþingi breytingar á tekjuskattsl., sem fólu það í sér aðallega, að skattfrjálsar tekjur voru hækkaðar um 30%. Í því sambandi var því haldið fram af ríkisstj. í fyrsta lagi, að tekjuskattur gjaldenda yrði í ár lægri en hann hefði orðið að óbreyttum lögum, og í öðru lagi, að tekjuskatturinn mundi skila í ríkissjóð a.m.k. 80 millj. minna en ef lögin hefðu staðið óbreytt. Hvort tveggja þetta hefur staðizt fyllilega. Hitt er ekki rétt, að af stjórnarinnar hálfu hafi því nokkru sinni verið lofað, að gjaldendur með stórhækkandi tekjur fengju lægri skatt en árið áður. Hitt er svo annað mál, að vegna þeirra miklu verðlags- og kaupgjaldsbreytinga, sem orðið hafa, þarf enn að breyta skattal., enda gat ég um það í framsöguræðu minni, að frv. til breytinga á þeim yrði lagt fyrir þetta þing.

Í þessu sambandi hafa báðir hv. stjórnarandstæðingar talað mjög um skattsvikin. Þau eru engin ný bóla, heldur hafa vafalaust lengi verið landlægur sjúkdómur. Ég efa það ekki, að á þeim tíma, sem þeir Eysteinn Jónsson og Lúðvík Jósefsson fóru með völd, og Eysteinn Jónsson var yfirmaður skattamálanna í mjög langan tíma, þá hafi skattstjórar og starfsmenn skattstofa unnið að því af samvizkusemi að reyna að koma í veg fyrir skattsvik í landinu. En einkennilegt er að heyra ádeilur í þessum efnum úr þessum herbúðum, vegna þess að þótt vafalaust hafi verið af samvizkusemi unnið að þessu af hálfu skattstarfsmanna áður, hafa þó fyrst nú verið gerðar alveg sérstakar ráðstafanir til þess að reyna að uppræta skattsvikin, m.a. með stofnun rannsóknardeildar, með því að veita skattstarfsmönnum auknar heimildir og rýmri til rannsókna og með því að þyngja refsingar. Áður var aðeins heimilt að dæma í sektir fyrir skattsvik. Nú hefur það verið lögleitt, að við ítrekuð og stórfelld skattsvik megi dæma í fangelsi. Var það hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, sem beitti sér fyrir þessum málum? Nei, þess hefur ekki orðið vart, að hann beitti sér fyrir neinu þeirra.

Hv. 1. þm. Austf. taldi mikla nauðsyn á því að veita mikinn afslátt af álögðum tekjuskatti og útsvari í ár og flokkur hans hefur nú lagt fram frv. í þessa átt. Það á að veita hverjum einstaklingi 7 þús. kr. afslátt af tekjuskatti, en öll tekjuútsvör á einstaklinga skulu lækkuð um 20%. Látum það nú vera, þótt Framsfl. vilji lækka útsvarið á verkamanninum, sem borgar 10 þús. kr., lækka það um 2 þús., en lækka um 20 þús. útsvarið á hátekjumanninum, sem hefur 100 þús. kr. útsvar, það er mál út af fyrir sig. En hitt er nokkru furðulegra, að nú ber þessi hv. þm. svo mikla umhyggju fyrir sveitarfélögunum og fjárhag þeirra, að sá afsláttur eða lækkun, sem þau kynnu að veita, á að bætast upp að fullu af ríkissjóði. Við minnumst þess nefnilega, ýmsir þm., að ekki eru ýkjamörg ár síðan samþykkt var í Nd. Alþingis að afla sveitarfélögunum nýs tekjustofns með því, að þau fengju hluta af söluskatti. Þá var samstjórn Framsóknar- og Sjálfstfl. og Eysteinn Jónsson fjmrh. Hann lýsti því þá yfir fyrir hönd síns flokks, að stjórnarsamstarfið væri úr sögunni, það væri rofið af hálfu Framsfl., ef þessi firn ættu fram að ganga. Nú hefur þetta í tíð núv. stjórnar orðið að iðgum, að sveitarfélögin hafa fengið sinn tekjustofn, hluta af söluskatti og verðtolli. En nú er áhuginn svo brennandi hjá þessum sama hv. þm., að hér má ekki láta staðar numið, heldur á að veita stórfé til sveitarfélaganna í viðbót úr ríkissjóði. Trúi hver sem vill á alvöruna og heilindin í þessari afstöðu.

Í sambandi við skattamálin vil ég aðeins að lokum nefna hér eitt atriði. Hagstofa Íslands hefur reiknað það út nú eins og áður, hverjar væru meðaltekjur verkamanna í Reykjavík á s.l. ári, 1963. Það er m.a. til afnota við ákvörðun landbúnaðarverðs. Það eru tæpar 118 þús. kr., sem hagstofan telur vera meðaltekjur verkamanna, eða nánar tiltekið 117 870 kr., nettótekjur kvænts verkamanns í Reykjavík í því úrtaki skattframtala, sem gert var fyrir árið 1963. Þessi verkamaður, kvæntur með tvö börn, mundi engan tekjuskatt borga í ár. Ef tekjuskattsl. hefði ekki verið breytt á s.l. þingi, þá mundi hann borga nú í ár 2280 kr., og sýnir það, að nokkur linun hefur þó verið gerð með tekjuskattslagabreytingunni frá s.l. vori. En ef skattalög Eysteins Jónssonar og Lúðvíks Jósefssonar væru nú í gildi, þ.e.a.s. þau skattalög, sem voru í gildi, þegar stjórn þeirra lét af völdum, einnig með umreikningsreglunni, sem þeir guma svo mjög af, mundi þessi verkamaður með tvö börn og tæplega 118 þús. kr. tekjur í ár þurfa að borga 6785 kr. í tekjuskatt til ríkissjóðs.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Tími minn er á enda og vinnst því ekki tækifæri til að svara fleiri atriðum, sem hér hafa fram komið. — Þökk þeim, er hlýddu. Góða nótt.