14.12.1964
Sameinað þing: 19. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

1. mál, fjárlög 1965

Frsm. samvn. samgm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Unnið hefur verið að undirbúningi till. um flóabáta og flutningastyrki með venjulegum hætti. Veruleg hækkun hefur á þessu ári orðið á rekstrarkostnaði flóabátanna, og er fjárhagur margra þeirra mjög þröngur. Ýmsar breytingar á samgöngum og flutningum innan einstakra héraða hafa einnig orðið flóabátunum í óhag. Samvinnunefndin hefur því ekki komizt hjá því að leggja til, að framlög til þeirrar þjónustu, sem hér er um að ræða, hækki nokkuð frá því, sem gert er ráð fyrir í fjárl. yfirstandandi árs.

Um rekstur einstakra flóabáta vil ég segja þetta:

Að því er snertir Norðurlandssamgöngur er lagt til, að styrkur til Norðurlandsbátsins Drangs hækki úr 900 þús. kr. í 1200 þús. kr. Útgerðarmaður bátsins, Steindór Jónsson, taldi sig þó þurfa töluvert meiri hækkun styrksins. Mjög há erlend lán hvíla með allmiklum þunga á fyrirtæki hans vegna byggingar skipsins. Var samvinnunefndin sammála um, að áherzlu bæri að leggja á að útvega útgerðarmanni Drangs lengri og hagstæðari lán til þess að auðvelda rekstur skipsins. Þá er gert ráð fyrir; að framlag til Strandabáts hækki um 30 þús. kr., og er þá miðað við; að báturinn haldi uppi ferðum um farsvæði sitt eigi skemur en 6 mánuði ársins. Framlag til Haganesvíkurbáts er óbreytt, en framlag til Hríseyjarbáts hækkar um 5 bús. kr. Styrkur til flugsamgangna við Grímsey hækkar um 10 þús. kr. samkv. till. n., enda verði farnar a.m.k. 35 flugferðir til eyjarinnar á árinu, sem dreifist sem jafnast um þetta tímabil. Styrkur til Flateyjarbáts á Skjálfanda leggur n. til að hækki um 35 þús. krónur. Er þá gert ráð fyrir, að 10 þúsund krónum af þeirri hækkun verði varið til þess að gera tilraunir með flugsamgöngur við eyna, en flugvöllur er í Flatey, og er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess, að hann komi eyjarbúum að gagni.

Um Austfjarðasamgöngur er það að segja, að lagt er til, að styrkur til Loðmundarfjarðarbáts verði óbreyttur og heildarstyrkur til Mjóafjarðarbáts verði 140 þús. kr. Er það 10 þús. kr. lægra en heildarfjárveiting til bátsins var á s.l. ári að meðtöldum styrk vegna vélarkaupa. Eins og áður er lagt til, að 50 þús. kr. verði veittar til rekstrar snjóbifreiðar, sem heldur uppi ferðum frá Seyðisfirði um Fjarðarheiði á Hérað.

Í sambandi við Suðurlandssamgöngur er þess að geta, að n. leggur til, að framlag vegna vöruflutninga í Vestur-Skaftafellssýslu hækki allverulega, eða um 200 þús. kr. Hefur verið lögð mikil áherzla á þá hækkun af hálfu þm. héraðsins. Um þessa fjárveitingu má segja það, að það hefur fyrir löngu verið viðurkennd sérstaða hinna hafnlausu byggðarlaga í VesturSkaftafellssýslu og nokkur styrkur hefur verið veittur til flutninga þangað um hina löngu aðdráttarleið frá Reykjavík alla leið austur að Kirkjubæjarklaustri. Þá er gert ráð fyrir, að framlag vegna vöruflutninga til Öræfa hækki um 10 þús. kr. Og loks er lagt til, að styrkur vegna mjólkurflutninga til Vestmannaeyja verði 275 þús. kr. og hækki þar með um 75 þús. kr.

Þegar komið er að Faxaflóasamgöngum, ber fyrst að ræða um h/f Skallagrím, sem heldur uppi samgöngum með Akraborg milli Reykjavíkur, Akraness og Borgarness, en afkoma þess skips hefur á yfirstandandi ári orðið mjög bágborin. Veldur þar aðallega um, að fyrirtækið hefur misst af áburðar- og mjólkurflutningum, sem gáfu því verulegar tekjur. Stjórn Skallagríms h/f í Borgarnesi sótti nú um mikla hækkun ríkisstyrks, þar sem hún taldi sig sjá fram á stóraukinn hallarekstur skipsins á næsta ári. N. taldi, að ekki yrði hjá því komizt að koma töluvert til móts við óskir Skallagríms um hækkaðan rekstrarstyrk, og leggur hún til, að styrkurinn verði hækkaður um 350 þús. kr., og flytur enn fremur sérstaka brtt.

við 22. gr. fjárlagafrv. um, að ríkisstj. verði heimilað að greiða Skallagrími h/f 100 þús. kr. vegna óhjákvæmilegrar viðgerðar, sem fram á að fara á Akraborg á næsta ári. N. telur, að nauðsynlegt sé að vinna að því, að m/s Akraborg njóti framvegis þeirra flutninga, sem um er að ræða á farsvæði hennar, sem fyrirtækið hefur nú nýlega misst af, þ.e.a.s. flutningum á mjólk og áburði. Væri æskilegt, að byggðarlögin, sem skipið heldur fyrst og fremst uppi samgöngum fyrir, treysti samvinnu sína sem bezt um rekstur þess.

Um Breiðafjarðarsamgöngur er það að segja, að Flateyjarbáturinn Konráð hefur nú verið dæmdur ósjófær, og er því óhjákvæmilegt að fá annan bát til þess að annast flóabátaferðir milli eyjanna við norðanverðan Breiðafjörð og þeirra landhreppa Barðastrandarsýslu, sem notið hafa ferða Konráðs. Hefur oddviti Flateyjarhrepps, Aðalsteinn Aðalsteinsson í Hvallátrum, rætt við samvinnunefndina og skýrt henni frá því, að hreppsnefndin muni í samvinnu við önnur byggðarlög hafa forgöngu um kaup á nýjum vélbát, sem er 21 tonn að stærð. Er þó ekki fullgengið frá þeim kaupum, en oddvitinn taldi, að þau væru möguleg, ef 200 þús. kr. styrkur yrði veittur til kaupanna. Varð n. sammála um að verða við þeirri ósk. Hins vegar leggur hún til, að rekstrarstyrkur Flateyjarbáts á Breiðafirði verði óbreyttur frá því, sem er á þessu ári. Gert er ráð fyrir, að hinn nýi Stykkishólmsbátur muni hefja ferðir fyrri hluta næsta árs. Var talið óhjákvæmilegt að hækka styrk til hans allverulega. Leggur n. til, að hann hækki úr 975 þús. kr. í 1300 þús. kr. eða um 325 þús. kr. Styrkur til Langeyjarnesbáts hækkar um 20 þús. kr., og er þá gert ráð fyrir, að ferðum þess báts verði fjölgað nokkuð.

Er þá komið að Vestfjarðasamgöngum, og má segja, að rekstur hins nýja Djúpbáts, sem heldur uppi ferðum um Ísafjarðardjúp og til kauptúnanna í Vestur-Ísafjarðarsýslu, hafi gengið vel á yfirstandandi ári. Er lagt til, að rekstrarstyrkur hans hækki aðeins um 50 þús. kr. Framlag til Dýrafjarðarbáts hækkar samkvæmt till. samvn. um 20 þús. kr., og er þá gert ráð fyrir, að með því verði greiddur hluti kostnaðar vegna byggingar nausts og rafknúinna setningartækja fyrir ferjuna. Framlag til Patreksfjarðarbáts og Skötufjarðarbáts hækkar um 5 þús. kr. til hvors.

Samkv. framansögðu leggur samvn. samgm. til, að heildarfjárveitingar til flóabáta og vöruflutninga verði á árinu 1965 7 millj. og 632 þús. kr. Er það rúmlega 1.6 millj. kr. hærra en á árinu 1964. Þar að auki leggur svo n. til, eins og áður er getið, að ríkisstj. verði heimilað að greiða h/f Skallagrími 100 þús. kr. styrk vegna viðgerðar á m/s Akraborg, sem fram fer á næsta ári.