14.12.1964
Sameinað þing: 19. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

1. mál, fjárlög 1965

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það gengur seint að fá prentaðar þær brtt., sem lagðar eru fram. Ég held, að hæstv. ríkisstj. og forsetar Alþingis þurfi alvarlega að athuga, hvort það sé ekki nauðsynlegt, að Ríkisprentsmiðjan Gutenberg borgi álag á taxtann, sem samið er um, eins og aðrar prentsmiðjur í bænum, til að fá prentað. Ég vildi skjóta því fram. Það er óviðkunnanlegt að láta Alþingi biða mjög lengi bara vegna þess, að Ríkisprentsmiðjan nái ekki í prentarana á þeim grundvelli, að hún borgi ekki samsvarandi álag ofan á alla taxta eins og aðrar prentsmiðjur í bænum gera. Ég vil nú bara skjóta því fram, af því að ég verð að mæla hér fyrir brtt. það, sem ég ætlaði að segja, án þess að nokkuð af þessum brtt. liggi fyrir, og ég veit yfirleitt ekki, hvenær þær koma. Það er orðið þannig með afgreiðsluna hér á fjárl. hjá okkur, að þetta er farið að verða hrein sýndarmennska. Þar sem áður tók 2—3 daga að afgreiða fjárl. á Alþingi og ræða um þau og voru einhverjir möguleikar að fá einhverjar till. samþ. og annað slíkt, þá er þetta orðið þannig, að þessu er hespað af á einum degi og síðan drepið meginið af öllum till.

Ég vildi í sambandi við þær ræður, sem hér hafa verið haldnar af hálfu meiri hl. og beggja minni hl., aðeins segja nokkur orð viðvíkjandi heildarafgreiðslunni á þessum fjárl. Mér sýnist satt að segja, að í þessum fjárl. sé fylgt alveg þveröfugri stefnu við þá, sem fylgt var í júnísamkomulaginu í sumar. Með júnísamkomulaginu í sumar tóku hæstv. ríkisstj. og verkalýðssamtökin höndum saman um að reyna að stöðva verðbólguna. Og ef það hefði átt að reka samsvarandi stefnu í sambandi við afgreiðslu þessara fjárl., þurfti fyrst og fremst að undirbúa þau á þann hátt að þora að skera niður af fjárl., þora að fara út í sparnað. Ég meina eiginlega þar með, þó að það sé ákaflega óvinsælt orð að segja það, að það hefði þurft að sýna ofurlitla íhaldsmennsku í sambandi við afgreiðslu fjárl. Og ég býst við, að það sé það, sem hins vegar liggi einna lengst frá hæstv. fjmrh., að detta í hug að sýna íhaldsmennsku í slíku. En það verður einhver að segja þessa hluti. Ef við ætlum að reyna að stöðva verðbólgu hér á Íslandi og láta verðgildi peninga haldast, þá verður að fara með fjárlög jafnt eins og annað eins og peningarnir hafi eitthvert gildi. Og það þýðir, að það dugir ekki að ausa þeim út eftir því, hvort einhverjir og einhverjir menn og það kannske voldugir eða nákomnir viðkomandi flokkum sækja á og heimta að fá hitt og þetta. Ég held þess vegna, að það hefði verið nauðsynlegt, að við hefðum fengið að vita, hvaða stefnu hæstv. ríkisstj. ætlar að fylgja, hvort það á að fylgja stefnu hæstv. fjmrh. eða hvort á að fylgja stefnu þeirri, sem mörkuð var með júnísamkomulaginu í sumar, vegna þess að þetta eru tvær alveg gerólíkar stefnur, og það væri mjög gott að fá að vita, hvor þeirra eigi að fá að verða ofan á hjá hæstv. ríkisstj. Ég veit hins vegar og skil ákaflega vel, að það munu fæstar ríkisstj. á Íslandi með tveggja atkv. meiri hl. á þingi, eitt í hvorri deild, þora að gera nokkurn skapaðan hlut, sem yrði óvinsælt í þeirra eigin röðum, muni bresta bókstaflega hugrekki til þess, það sé miklu betra að láta vaða á súðum og miklu þægilegra, sérstaklega upp á fylgi og kosningar. En það er eins gott, að þetta komi fram og þá frá stjórnarandstöðunni, þegar við erum að ræða þetta. Ég býst við, að ef hæstv. ríkisstj. hefði viljað hafa skynsamlegan hátt á, hefði hún átt að ræða fjárl. við stjórnarandstöðuna á þingi og það á þeim grundvelli, hvort það gæti orðið samkomulag um vissa hluti í svona afgreiðslu. Það hefði verið í samræmi við júnísamkomulagið í sumar. Ég skal segja það undireins, að það liggja þarna milljónafúlgur, sem hægt væri að spara. Hvað höfum við að gera við almannavarnir meir? Það dugir ekki að vera að hanga í svona úreltri vitleysu. Menn geta verið fylgjandi sínu Atlantshafsbandalagi og annað slíkt, en þessi vitleysa með almannavarnir og vera að flækjast með milljónir þarna inn á, þetta er eins og hver önnur della. Það væri hægt að skera þetta alveg niður. Eða svo að maður taki annan hlut, hvað á það að þýða að vera að auka t.d. núna framlög til kirknanna og þess háttar með 2 millj. kr. á þeirri grein? Ég veit að vísu ósköp vel, að okkar kirkjuhöfðingjar eru mjög duglegir og sóknharðir menn í veraldlegum efnum, eins og kirkjuhöfðingjar hafa oft verið hér á Íslandi áður, og þegar þeir geta nú í staðinn fyrir að vera að pína bændur úti um allar sveitir, eins og þurfti að gera í gamla daga, látið sér nægja að fara með fjvn. út í hornið og pína hana og láta eiginlega við liggja, að menn séu ekki góðir, kristnir menn, ef þeir gangi ekki inn á þetta og þetta, sem þeir þurfa að fá, t.d. til íslenzks prests í Kaupmannahöfn og annað þess háttar, þá er ósköp skiljanlegt, að þessum kirkjuhöfðingjum verði hitt og þetta ágengt. En það er bara til skammar að gera svo ókristilegt eins og meiri hl. fjvn. hefur gert þarna, að fleygja peningum út í alls konar sýndarmennsku og vitleysu í sambandi við kirkjuna, þegar það bíða hér verk, sem þarf að vinna, sem væri miklu, miklu nær kristindóminum að láta þó peningana fara í.

Ég nefni bara þessa hluti. Annars voru þeir, sem töluðu hér f.h. stjórnarandstöðunnar, búnir að rekja heilmikið af þeim till., sem hægt væri að framkvæma til sparnaðar. En ég vil aðeins minnast á þetta líka til þess að sýna fram á það um leið, af því að það eru ekki margar brtt., sem ég fyrir mitt leyti geri hér, að það er á 2—3 liðum hægt að spara það, sem ég legg til, að frekar sé eytt í, og vil ég reyna að færa fyrir þeim brtt., sem ég hér flyt, þau rök, að ég álít, að það sé nær heldur en það, sem nú hefur verið samþykkt af fjvn. að veita fé í.

Ég vil þá fyrst taka nokkur atriði í sambandi við menningarmálin. Ég ætla ekki að þessu sinni að gera brtt. viðvíkjandi háskólanum. Ég hef komið inn á það hér áður, að ég áliti það mjög nauðsynlegt. Það hefur mikið verið talað um það af hálfu háskólans, og var sérstaklega nú við setningarathöfnina, að það væri nauðsynlegt að gera mikið til þess að gera hann fullkomnari í þeim tæknilegu efnum, og er rétt mælt. Ég hefði fyrir mitt leyti persónulega haft meiri áhuga á því, sem gæti miðað að því að gera okkar norrænudeild þannig úr garði, að hún gæti orðið okkur til sóma og rýrnaði ekki í sífellu andlega. Ég álít, að hér ætti að vera bezta miðstöð fyrir germönsk fræði, til þess að stúdera þau og nema, sem til væri í veröldinni, og það þyrfti ekki mikið að gera til þess. En sem sé, það kostar bæði lagabreytingar og eitthvert samstarf um það, þannig að það þýðir ekki að koma með till. um slíkt í sambandi við afgreiðslu fjárlaga einna. Hins vegar flyt ég hér till. í sambandi við Handritastofnunina. Það er við 14. gr. II, Handritastofnun Íslands, þar eru laun og rannsóknarstyrkir nú áætlað 925 þús. Ég legg til að hækka þetta upp í 1 millj. 500 þús. Og ég vil segja örfá orð til þess að sanna það.

Við stöndum í deilum við Dani um handritin nú sem stendur. Og það er fylgzt með því, hvað við gerum í þessum efnum. Danir, ýmsir þeirra, jafnvel vísindamenn þar og heil vísindafélög, held ég, tala alldjarft og hávært nú og láta mikið til sín taka í blöðunum. Ég man eftir því, að fyrir ekki svo mjög mörgum árum var það þannig í Árnasafni, meðan það var enn þá í parti af háskólanum, að ár eftir ár var sótt um til danska þingsins að fá pappahylki utan um beztu handritin, sem þarna væru til, svo að rykið kæmist ekki að þeim, og því var alltaf neitað. Þetta hefur verið skilningur Dana og það sumra vísindamanna þar líka á nauðsyninni á því að vernda þau íslenzku handrit, á meðan Íslendingar, sem þar vinna, voru að reyna að vinna að því að bjarga þeim og sóttu um að fá, þótt það væru ekki nema smáfjárveitingar til þess að hafa pappahylki utan um beztu handritin, og fengu það ekki. Svona var nú skilningurinn, áður en við Íslendingar fórum að gera kröfu til þessara handrita, þannig að Dönum er nú bezt að hafa hægt um sig í sambandi við þau. En ég held, að við þurfum að sýna dálítið meiri skilning en við gerum í þessum efnum. Ég held, að við þurfum strax að hafa fleiri menn á launum við Handritastofnunina. Þegar við setjum menn í slíkt, ætlumst við til þess, að þeir geti unnið vísindalega að vissum verkefnum og séu ekki allt of bundnir bara við hreinar afgreiðslur og annað slíkt þar. Við vitum það enn fremur, að við verðum að reikna með þó nokkrum kostnaði í sambandi við rekstur svona stofnunar eins og Handritastofnunar. Það er margt, sem í kringum það er, ekki sízt þegar það fara að verða allmiklar heimsóknir útlendra manna til þess m.a. að líta eftir því, hvernig að handritunum sé búið hjá okkur, og ræða við þá menn, sem hér starfa í þessu. Ég held þess vegna, að það sé alveg nauðsynlegt, að við sýnum viðleitni til þess að hækka verulega þessa styrki, laun og rannsóknarstyrki. Og það er ekki mikið, sem ég fer þarna fram á, ein einustu rúm 500 þús. Ég held þess vegna, að við ættum að geta orðið sammála um, að slíkt væri okkur nauðsynlegt. Við eigum ekki að láta svona hluti eins og handritin og Handritastofnunina, við eigum ekki að láta þá standa óhreyfða, þegar við afgreiðum fjárlög. Við eigum í sífellu að vera að hækka þetta.

Þá flyt ég í öðru lagi brtt. í sambandi við þjóðminjasafnið. Það er í fyrsta lagi við 14. gr. B, III, 2. undirliður þar, til aðstoðar, tímavinnu, til þess að útvega gripi, til áhalda og aðgerðar safngripa, bóka og ritfanga, það eru 410 þús., sem þar eru veittar. Ég legg til, að það sé hækkað upp í 500 þús. Því miður er það svo, að margir af okkar embættismönnum og það á hinum þýðingarmestu stöðum, ekki sízt menntamenn, þeir eru það hógværir og þekkja ekki þá frekju, sem „bisnessmenn“, hvort heldur það er í kirkju eða utan hennar, temja sér, að vera sífellt að nauða á fjvn. og sífellt að ota sínum tota, og það vill oft fara svo, að þær stofnanir, sem þeir veita forstöðu, líða undir því. Og við eigum sjálfir að geta tekið það upp hjá okkur að ýta undir slíkar stofnanir með því að leggja til að veita þeim fé og auka í sífellu við þær.

Þetta er lítið, sem ég legg þarna til með þessa hækkun en ég geri aðra brtt. og meiri í sambandi við 3. lið, sem er til rannsókna og ferðalaga, það eru 50 þús. Ég legg til, að hann sé orðaður þannig: Til rannsókna og ferðalaga á Íslandi og Grænlandi 400 þús. Það er vitanlegt, að okkar fornminjar eru ekki aðeins á, Íslandi. Þær eru á Grænlandi í mjög ríkum mæli og jafnvel vestar, þær eru líka í gamla Vínlandi. En það er hins vegar vitanlegt, að sérstaklega hvað snertir fornminjarnar í Grænlandi, þá ber okkur alveg sérstök skylda til að hugsa um það á sama máta og við hugsum um okkar eigin. Og 50 þús. kr. til rannsókna og ferðalaga fyrir þjóðminjasafn, sem á að sjá um allt, sem snertir þá raunverulegu fornleifafræði viðvíkjandi Íslandi, það er lítið, það er svo lítið, að það er raunverulega sama sem ekkert hægt fyrir það að gera. Og ég held þess vegna, þótt við bættum Grænlandi þarna inn í og hækkuðum þetta upp í 400 þús., þá sé það það minnsta, sem við gætum þarna komizt af með. Þess vegna held ég, að það væri rétt að hækka þennan lið verulega. Það er líka í samræmi við það, sem við erum að gera í sambandi við endurheimt handritanna, að vinna að slíku.

Þá hef ég enn fremur lagt til í sambandi við þjóðminjasafnið, að til hljómplötusafns, sem nú er 5 þús. kr., sé aukið upp í 25 þús. Það er sama till. og ég gerði í fyrra og fann ekki náð þá. Það er kannske hugsanlegt, að hún fengi nokkra náð núna.

Þá hef ég enn fremur lagt til í sambandi við XVI. liðinn þarna í B, að til fornritaútgáfunnar, sem er 125 þús., sé hækkað upp í 250 þús. Það er líka í samræmi við hitt. Við vitum, að það, sem hefur staðið á með fornritaútgáfuna, að meira væri að henni gert, það er einmitt af því, að það hefur vantað fé og jafnvel menn, og það þýðir, að það hefur vantað fé líka til að borga mönnum til þess að vinna að þessu. Og þetta snertir það sama, sem við erum að berjast um þarna. Við erum undir smásjá hvað þessa hluti snertir, og við þurfum að sýna það, að við reynum af okkar litlu efnum að gera þó það, sem við getum, á öllum sviðum til þess að efla þetta starf okkar.

Þá hef ég enn fremur lagt til, að síðast í 14. gr., þar sem er almennt líka af hálfu hv. fjvn. lagt til að bæta við ýmsu, t.d. að varðveita gamla smiðju á Norðausturlandi, þá geri ég þá brtt., að það sé settur nýr liður: Til viðhalds Viðeyjarstofu 400 þús. kr. Ég hef lagt fram í hv. Nd. frv. um breyt. á l. um verndun fornminja og gerði m.a. þá grein þar fyrir þeim brtt., sem ég geri, að það væri ekki sízt með Viðeyjarstofuna í huga, að ég legg til, að þær breytingar væru gerðar. Og ég álít, — ég er raunar búinn að segja það hér oft, ég held, að ég hafi 3—4 sinnum á s.l. 10 árum flutt brtt. hér um fjárl. viðvíkjandi Viðeyjarstofu, — að það er ekki vansalaust af Alþingi, á sama tíma sem við erum að heimta gömul handrit til baka, að við látum eitt af þeim helztu gömlu húsum, sem við eigum á Íslandi, hrörna og kannske falla, eins og nú er að verða um Viðeyjarstofuna. Og þótt þessi stofa sé í einkaeign, þá getur það ekki verið því til fyrirstöðu, að ríkið geri sínar ráðstafanir til þess að framkvæma þá skyldu gagnvart slíkum húsum, sem einkaeigendur vanrækja. Og ég held, að þessir hlutir heyri nokkuð saman, þannig að þetta ætti að geta fylgzt nokkuð að.

Þá hef ég gert eina brtt. við 17. gr., til félagsmála. Það er um sumardvalarheimilin, til sumardvalarheimila, dagheimila og vistheimila fyrir börn í bæjum og kauptúnum gegn jöfnu framlagi annars staðar að, í staðinn fyrir 450 þús. komi þarna 2 millj. Ég geri ekki þessa brtt. beinlínis vegna þess, að ég búizt við, að hún verði samþykkt, en ég geri hana til þess að vekja athygli, ekki sízt hæstv. ríkisstj., á því, hvað raunverulega þurfi að gera á þessu sviði. Hv. 10. landsk., 2. minni hl. fjvn. og fulltrúi okkar Alþb.-manna í fjvn., hefur gert till. um þetta, sem eru nokkru lægri og ég vona að hafi einhverja möguleika á að verða samþykktar. Hins vegar höfum við flutt hér frv. um að breyta l. eða búa til réttara sagt ný lög um barnaheimili og styrk ríkisins til þeirra, og ég hefði satt að segja álitið, að það væri mögulegt, að slík lög yrðu samþykkt á Alþingi. Það, sem nú er varið til sumardvalarheimila, eru 450 þús. kr. og bara til þess að sýna handahófsþáttinn í því, hvernig úthlutað er úr fjárl., vil ég benda á, að á 15. gr. III er til íslenzks prests í Danmörku 495 þús. kr., sem er nýr liður. M.ö.o.: allt, sem gert er af hálfu ríkisins til þess að aðstoða börnin, til þess að segja við börnin: Látið þið börnin koma til mín, það er upp á 450 þús. Það er allt, sem ríkið þykist geta lagt fram til þeirra barna, sem þurfa á því að halda, að þau komist burt frá sínum heimilum og öðlist heimili, sem ríkið, það opinbera, og bæirnir verða að meira eða minna leyti að sjá fyrir. En þegar einhverjum kirkjuhöfðingja dettur í hug að segja: Ég vil endilega fá íslenzkan prest í Danmörku, þá er 495 þús. kr. skellt inn á fjárl. alveg fyrirhafnarlaust, bara í hreinni vitleysu, án lagaheimildar og alls. Ég veit ekki, hvort það stendur eitthvað í sambandi við, að það hafi orðið árekstur milli guðs almáttugs og skynseminnar í Morgunblaðinu. En hvernig sem á þessu stendur, er það jafnvitlaust, að þetta skuli vera komið þarna inn, og sú brtt., sem raunverulega ætti að flytja við þetta, er, að aftan við kæmi þarna kostnaður 1965, síðasta greiðsla, og það er hægt að athuga það, ef fjvn. finnur ekki upp á því sjálf undir 3. umr., til þess að binda enda á slíkt. En annars, ef það er ekki gert, er rétt að gera till. um það, að þetta sé veitt til barnaheimila. Og svo geta menn þá fengið að kjósa á milli, hvort mönnum finnst liggja nær. En svona er þetta orðið í fjárl. Þeir, sem eru nógu ágengir og frekir, vaða þarna inn og taka hundruð þús. þarna út, en börnin og aðrir þeir, sem ekki eiga neina forsvarsmenn, þau eru látin sitja á hakanum. Ég býst við, að t.d. fyrir fangelsum og slíku sé sæmilega séð, lögreglustöðinni, það er ausið í það, og ég býst við, að embættismannabústaðir og slíkt sé allt saman í lagi og þar séu milljónir á milljónir ofan á hverjum fjárl. En þegar komið er að einhverju, sem þarf að vera handa þeim, sem þurfa þess með, þá kemur líklega að sparnaðarstefnunni, sem annars á ekki heima í fjárl., eins og þau eru nú.

Að lokum tók ég svo upp gamla till., sem ég flutti í fyrra og var felld þá. Það er við 17. gr., til þess að kosta menn samkv. vali félmrn. til þess að ferðast um byggðir Grænlendinga, kynna sér lífskjör þeirra og rita bók um þau og félagslegan aðbúnað þjóðarinnar, og sé bókin síðan gefin út, 250 þús. kr. Það var nýlega flutt hér till. í sameinuðu þingi, þáltill. um aðstoð við þróunarlöndin, mjög góð till., sem fékk góðar undirtektir og þm. virtust mjög sammála um. Hér í nágrenni okkar höfum við næsta nágranna okkar, næsta náunga, mundi líklega vera sagt í sérstakri bók, þjóð, sem við erum tengdir á margan máta meira en flestum öðrum þjóðum og býr í landi, sem enn er á stigi þróunarlanda, en þarf á öllu því að halda, sem við þurftum á að halda af skilningi annarra þjóða fyrir 100 árum. Ég álit, að það væri mjög gott verk, að góður maður, sem ég treysti vel félmrn. til þess að velja, ferðaðist þar um byggðir Grænlendinga, tæki vafalaust sínar ljósmyndir og kannske kvikmyndir um leið og skrifaði bók um þeirra félagslega aðbúnað og við gæfum þá bók út á Íslandi. Það er nauðsynlegt, að þeir, sem eiga erfitt eins og Grænlendingar nú og eiga forsvara fáa, þeir finni til þess, að við viljum eitthvað fyrir þá gera. Og það gæti hjálpað þeim, að það væri vakin eftirtekt á því, hvers konar aðbúnað þeir eiga við að búa. Þegar Danmörk innlimaði Grænland, án þess að við samþykktum það hér, Íslendingarnir, í danska ríkið, þá var það á þeim forsendum, að Grænlendingarnir hefðu sjálfir æskt þess á grundvelli þess, að þeir nytu jafnréttis við danska þegna. Og það vitum við, að þeir gera ekki. Og við vitum enn fremur, að það er slík hreyfing hjá Grænlendingum í slíkum efnum, að þeir gera nú kröfur samsvarandi og við gerðum fyrir 100 árum um réttindi í þessum efnum. Það er komin upp hjá þeim þjóðleg hreyfing, sem gefur út sín blöð. Það er komin upp hjá þeim verkalýðshreyfing, sem skipuleggur sín verkalýðssamtök. Það er komin upp hjá þeim stúdentahreyfing í Kaupmannahöfn, sem meira að segja fer á fundi danska ríkisþingsins og heldur sínar kröfugöngur fyrir utan Christiansborg til þess að heimta jafnrétti til handa Grænlendingum. Og við eigum fyrir okkar leyti að vinna að því, að það sé vakin athygli heimsins og fyrst og fremst athygli okkar eigin íslenzku þjóðar á því, hvað þarna er að gerast. Þess vegna held ég, að þetta væri tilvalið.

Það kynni nú einhver að segja við mig, að mér væri kannske nær að láta skrifa þetta um Ísland og aðbúnaðinn sums staðar hér. En ég býst ekki við, að við fengjum neinn styrk til þess frá Alþingi að skrifa slíkt. En þetta aftur á móti væri eðlilegt að gera. Íslenzkir fræðimenn hafa gert þetta fyrr. Sá merki maður, Helgi Péturs, fór þarna í leiðangur fyrir rúmum 60 árum og skrifaði um það ágæta bók, þótt það væri ekki sérstök félagsleg stúdía, en merkileg, og gott hefði það verið, ef við hefðum eignazt slíka bók, sem væri byggð á rannsóknum á þeirra félagslega aðbúnaði og þeirra þjóðfélagsháttum um aldamótin. Það hefði verið dýrmæt stúdía nú.

Það eru sem sé ekki margar brtt., sem ég flyt í þessum efnum, og þá hæstu þeirra, um barnaheimilin, hef ég frekar sett fram til þess að minna aðeins á, að það er lagafrv., sem liggur fyrir þinginu í þessum efnum, og ef það lagafrv. yrði samþ., yrði að hækka þennan lið, heldur en vegna hins, að ég geri mér nokkra von um, að slíkt yrði samþykkt. Aftur á móti álít ég, að þær till., sem hv. 2. minni hl. fjvn. leggur til í þeim efnum viðvíkjandi barnaheimilum, sé alveg óhjákvæmilegt að samþ. og ekki sé vansalaust fyrir Alþingi, fyrst það á annað borð ætlar að afgreiða fjárlög svona, að samþ. ekki þær till. Ég býst við, að ef hv. þm. almennt hefðu þá innsýn í aðstöðu barna, sérstaklega hér í Reykjavík, þessu svokallaða þéttbýli, sem t.d. við þm. Nd., sem eigum sæti í menntmn., höfum fengið, að svo miklu leyti sem við höfum ekki haft hana, í sambandi við það að hafa nú þrisvar í viku haldið fundi um barnaverndarfrv. ríkisstj., — ég býst við, að ef allir hv. þm. hefðu álíka innsæi, þá mundu menn fallast á, að þarna sé nauðsynlegt að taka til höndum.

En um hin málin, sem snerta menningu og menntir, vil ég segja það, að það er að mínu álíti nokkurt metnaðarmál fyrir okkur alla, að við sýnum viðleitni í þeim efnum. Það er alveg óþarfi að láta ýmsum dönskum mönnum haldast uppi neinn hroka í þeim efnum gagnvart okkur Íslendingum. Það erum við, sem höfum ekki bara skrifað handritin, heldur líka unnið mest að þeim allan tímann og höfum sýnt þann áhuga á þeim, sem hefur ekki verið til í Danmörku og hjá dönsku fjárveitingavaldi og flestum dönskum vísindamönnum, á sama tíma sem við vorum að reyna að vinna að því að gera þau kunn í heiminum og vinna að því að fá þau þangað, sem þau eiga að vera, hingað heim til okkar. En ljóst er af öllum þeim æsingi, sem reynt er að setja í þetta mál, að við þurfum að halda vel á þessum málum og vera þar nokkuð meira stórhuga en við höfum verið fram að þessu.