14.12.1964
Sameinað þing: 19. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

1. mál, fjárlög 1965

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjvn. og þá í rauninni fyrst og fremst formanni hennar og frsm. fyrir að hafa afgreitt till. sínar og frv. úr n. það tímanlega, að unnt verði að afgreiða frv. fyrir jól. Það er í fimmta skipti í röð, sem slíkt virðist ætla að takast, en eins og kunnugt er, hafði oft áður verið á því nokkur misbrestur, en hins vegar í rauninni sjálfsögð regla, sem á að fylgja, eftir því, sem unnt er, að fjárlög séu afgreidd fyrir áramót.

Í aths. um 19. gr. fjárlagafrv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Niðurgreiðslur vöruverðs innanlands eru áætlaðar 336 millj. kr. Er þá miðað við niðurgreiðslur, eins og þær voru áætlaðar í maí s.l., á ársgrundvelli að viðbættri áætlaðri söluaukningu næsta ár. Á hinn bóginn er hér ekki gerð till, um, hversu skuli á næsta ári fara um þær niðurgreiðslur, sem síðan hafa bætzt við og nauðsynlegar hafa reynzt til þess að halda vísitölunni óbreyttri að sinni, eins og gert var ráð fyrir, þegar samið var milli ríkisstj. og Alþýðusambands Íslands í júní s.l.“

Eins og fram hefur komið, m.a. í nál. og framsöguræðu formanns fjvn., hefur þetta mikla vandamál, sem í rauninni er stærsta vandamálið í sambandi við fjárlagafrv. nú, verið að undanförnu til athugunar og umr. hjá ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar. Með júnísamkomulaginu var ákveðið og gefið fyrirheit um það, að með auknum niðurgreiðslum skyldi vísitölunni haldið óbreyttri fram á haust eða jafnvel fram að áramótum. Það hefur einnig komið fram, að það kostar mjög mikið fé, ef á að halda henni óbreyttri eða lítt breyttri áfram á næsta ári. Allt þetta vandamál og að sjálfsögðu tekjuöflun í sambandi við það hefur sem sagt verið undanfarið til meðferðar, og varð að ráði að flytja till. um þetta mál allt saman við 3. umr. frv. Af þeirri ástæðu einnig, að tekjuáætlunin öll kemur til athugunar í sambandi við þetta mál, þótti rétt, að þeir embættismenn, sem vanir eru að gefa fjvn. yfirlit yfir tekjuáætlunina, gerðu það milli 2. og 3. umr. Hefðu þeir gert það fyrr, hefði það orðið tvíverknaður og valdið vandkvæðum, meðan tekjuáætlunin er í endurskoðun. Ég sé nú ekki, að það hafi við rök að styðjast, að tveir hv. þm. hafa kvartað yfir því, að þessar grg. hafa ekki verið gefnar þegar, virðist að öllu leyti eðlilegra, eins og á stendur, að það sé gert milli 2. og 3. umr.

Ég ræði ekki frekar um frv. að þessu sinni, geymi það til 3. umr., þar sem bæði niðurgreiðslumálið og tekjuhlið frv. verður þá tekin til meðferðar. Þá gefst líka tækifæri til að svara nokkrum beim aths. um fjárlagafrv. almennt, sem hér hafa komið fram.