14.12.1964
Sameinað þing: 19. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

1. mál, fjárlög 1965

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér áðan, að afgreiðsla fjárl. er alltaf að verða flausturslegri og flausturslegri. Þegar við höfum verið að ganga frá fjárl. fyrir jólin, hefur ár eftir ár verið allra líkast því, að við værum að hlaupa í líf og blóð fyrir forvaða milli ólaga. Og nú er þannig komið, að aldan skellur á okkur og við vöðum, sullumst bara í verðbólguöldunum á sleipum þangsteinum. Þetta er mjög alvarlegt mál, sem ég hygg að þm. greini varla á um, þótt þeir, sem ráða för, eins og hæstv. fjmrh., sem talaði hér áðan, hafi ekki orð á og þeir látist jafnvel vera ánægðir með þetta. Annars skal ég ekki á þessari stundu hafa um þetta fleiri orð, heldur vaða eins og aðrir gera, af því að um annað er ekki að ræða, eins og sakir standa.

Ég og tveir samþm. mínir úr Norðurl. e., hv. 3. þm. kjördæmisins og hv. 5. þm. kjördæmisins, höfum leyft okkur að flytja fáeinar brtt. við fjárlagafrv. Sumar þeirra eru að vísu brtt. við brtt. hv. fjvn. við frv. Vil ég nú gera með örfáum orðum grein fyrir þrem þessara tillagna.

Fyrst er þá till. um hækkun fjárveitingar til hafnargerðar í Grenivík í Suður-Þingeyjarsýslu. Grenivík er, eins og allir hér vita, þorp í Grýtubakkahreppi á austurströnd Eyjafjarðar. Þar er talsverð útgerð og afar duglegir sjómenn, en þar hefur aðstaðan fram að þessu verið sú, að sjómennirnir hafa orðið að fara með meginhluta heimafengins afla til vinnslu í Hrísey vegna hafnleysunnar í Grenivík og flýja með báta sína til Akureyrar, þegar brimað hefur. Þetta hafa verið óþolandi aðstæður. S.l. sumar var hafin í Grenivík hafnargerð og byggður hafnargarður. Lánaðist verkið vel, að talið er. Garð þennan þarf að lengja, áður en langt um liður. En það, sem strax kallar að, er, að innan á garðinn séu byggðar bryggjur, til þess að hann hagnýtist og verk það, sem búið er að vinna, komi að notum. Garðurinn kostaði um 2.5 millj. kr. Afanginn næsta ár, þ.e. bryggjurnar, er áætlað að kosti 1.2 millj. Við það verk verður samkv. áætluninni hlutur ríkisins 430 þús., en ógreitt ríkisframlag frá þessu ári verður um áramótin 530 þús., eða samtals þá 1 millj. og 10 þús. kr. sá hluti, sem ríkið þyrfti að inna af hendi á næsta ári. Upp í þetta gerir hv. fjvn. till. um að ríkið borgi næsta ár aðeins 300 þús. kr. Þetta er allt of lág upphæð. Það er ósanngjarnt að ætlast til, að sveitarfélagið láni ríkinu fullar 700 þús. kr. af framkvæmdafénu, sem kemur í hlut ríkisins, yfir áramótin 1965—1966. Við leggjum til, að fjárveitingin verði hækkuð úr 300 þús. í 600 þús. Yrði þá skuld ríkisins 410 þús. samkv. áætlunum, og er sannarlega nóg byrði fyrir sveitarfélagið að bifa vegna ríkisins yfir áramótin 1965—1966.

Þá er Húsavík. Hv. fjvn. leggur til, að til hafnarmála á Húsavík verði veittar 400 þús. kr. á næsta ári, eða 50 þús. kr. minna en veitt var á fjárlögum í ár. Á Húsavík er fyrirhugað að vinna fyrir 2.5 millj. kr. næsta ár. Ógreitt á ríkið í árslok nú af lögboðnu framlagi til hafnargerðar á Húsavík vegna þegar gerðra framkvæmda nálega 1 millj. kr. Hlutur ríkisins næsta ár er samkv. áðurnefndri áætlun um framkvæmdir ársins 1 millj. Fjárveitingin samkv. till., 400 þús. kr., er því upp í 2 millj. kr. fjárhæð, sem í hlut ríkisins kemur, þegar lagt er saman tillag ríkisins, sem er ógoldið næstu áramót, og áætlaður hluti ríkisins við framkvæmdir 1965. Við flm. brtt. leggjum til, að framlagið verði hækkað upp í 700 þús. kr. og verða þá 1.2—1.3 millj. kr. ógreiddar af ríkisins hendi í árslok 1965. Tel ég það sannarlega nógu þungan hala. Till. 700 þús. er um, að Húsavík komist í hæsta flokk fjárveitinga til hafnargerða. Tel ég það réttmætt, af því að Húsavík hefur lagt afar mikið á sig um langt árabil til þess að koma upp höfn hjá sér, hlutfallslega meira en flestir aðrir staðir miðað við mannfjölda. Hins vegar er Húsavík á síðustu árum stækkandi staður, fjölgun fólks þar seinustu ár, að ég hygg, meiri hlutfallslega en hjá öðrum byggðarlögum í landinu. Þetta er út af fyrir sig ánægjulegt fyrir staðinn, að fólkinu fjölgar svona. En samt er það ekki margt enn, og því fylgir mikill félagslegur tilkostnaður að mæta fólksfjölguninni fyrir sveitarfélagið. Þar er verið að byggja skóla, félagsheimili, sjúkrahús og lögreglustöðvarhús. Vegagerð og gatnagerð þarf mikla, vatnsveitulagnir, frárennslislagnir, rafveitulagnir, sökum þess að mikið er byggt af íbúðarhúsum vegna fólksfjölgunarinnar og bærinn stækkar mikið. Ég tel sanngjarnt, að hv. Alþingi taki tillit til þessa og dragi ekki svo af framlagi sínu til Húsavíkurhafnar sem fjvn. þó hefur lagt til, augsýnilega að allt of lítið athuguðu máli.

Í fyrra var, eins og ég sagði áðan, fjárveitingin 450 þús. Við flm. treystum því, að hv. alþm. fallist á hækkunartill. okkar.

Svo vil ég minnast á eina till. frá okkur sömu mönnum, er snertir vegamál. Hún er um það, að ríkisstj. verði heimilað á 22. gr. fjárl. að taka allt að 3 millj. kr. lán vegna vegagerðar á Tjörnesi í Suður-Þingeyjarsýslu. Þessi vegur er millibyggðavegur, svo sem kunnugt er. Hann er orðinn mjög þýðingarmikil samgöngubót. Á hann leggst meiri umferð milli héraðanna, sem hann tengir, og milli Norður- og Austurlands ár frá ári. Reykjaheiði, sem áður var farin á sumrum, er ekki lengur í þjóðvegatölu og vegi þar ekki við haldið. Leiðin um Mývatnsöræfi og Hólsfjöll fer undir snjó og verður ófær bifreiðum, þótt Tjörnesleiðin sé opin allan veturinn, ef vegi þar er komið í sæmilegt ástand. Reynsla seinustu ára hefur sannað það. Til þess að svo verði, að vegur komist þar í sæmilegt ástand og þoli þá umferð og veiti þá aðstöðu til vetrarumferðar, sem hann getur veitt, telur vegamálastjóri að þurfi að byggja upp veg yfir tvö gil, svonefnt Skeifárgil, sem unnið var að í sumar sem leið, en ekki lokið, og Rekárgil. Vegamálastjórinn áætlar, að það að ganga frá giljunum muni kosta 2 millj. kr., en vegagerðin frá Húsavík að Reká aftur á móti 4 millj. kr. og þar með þá þær vegabætur, sem nauðsynlegastar eru og gera þessa leið, þennan millibyggðaveg, að góðum vegi, sem engan svíkur. Samtals er þá áætlunin um nauðsynlegar aðgerðir á þessum vegi 6 millj. kr. Með venjulegum fjárveitingum mundi þessi vegagerð ganga allt of hægt, miðað við hlutverk vegarins í vegakerfi landsins, eins og það er nú orðið. Og úr því að ríkið er farið að taka lán til vegagerðar, er tengivegurinn um Tjörnes einn þeirra vega, sem á að flýta með lántöku. Annað væri í ósamræmi við aðrar framkvæmdir í vegamálum Till. okkar Norðlendinganna er byggð á fullum kunnugleika á þýðingu Tjörnesvegar, og við leyfum okkur að vænta, að hún verði samþykkt.