14.12.1964
Sameinað þing: 19. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

1. mál, fjárlög 1965

Ragnar Arnalds [frh.]:

Herra forseti. Ég átti satt að segja ekki eftir nema örfá orð til að ljúka ræðu sinni, því að ég var einmitt að ræða um seinustu brtt., sem ég geri við till. fjvn. Ég var að ræða um hafnarmál Hofsósbúa og minnti á það, að ég flutti hér í þinginu í fyrra till. um að veita 400 þús. kr. fjárveitingu til hafnarinnar í Hofsósi, en á síðustu fjárl. var ekki gert ráð fyrir neinu fé til Hofsósbúa. Þessi till. var felld, og nú hefur það hins vegar gerzt, að fjvn. hefur flutt sjálf till. um, að Hofsósbúar fái 400 þús. kr. fjárveitingu. Ég þarf ekki að taka það fram, að það er fengur fyrir heimamenn á Hofsósi að fá þessa viðurkenningu af hálfu Alþingis og fjvn. á þörfinni, sem er á staðnum, að höfnin þar verði bætt. Hins vegar er mér kunnugt um, að þessi upphæð er allt of lág, til þess að unnt sé að nota hana til nokkurra verka. Og ég get leyft mér að fullyrða það, að jafnvel þó að Hofsós fái þessa 400 þús. kr. fjárveitingu, mun vitamálaskrifstofan ekki sjá ástæðu til þess að gera nokkuð í hafnarmálum Hofsóss á þessu ári, vegna þess að fyrir svo litla fjárhæð er, að því er mér skilst, sáralítið hægt að vinna. Hins vegar mundi dæmið sjálfsagt líta svolítið öðruvísi út, ef Hofsós hefði fengið í fyrra 400 þús. kr., eins og ég lagði þá til, og fengi svo þessa viðhót nú. En svo er ekki. Ég hef þar af leiðandi lagt til, að Hofsós fái nú þegar 700 þús. kr. E.t.v. hefði verið réttast að leggja fram till. um 1 millj. eða eitthvað þar yfir. Það hefði verið nær því, sem Hofsós þarf á að halda. En ég hef haldið mig við þessa upphæð, vegna þess að það er sama upphæðin og hæstu upphæðirnar, sem hv. fjvn. gerir að till. sinni til annarra hafna á landinu, og ég hef ekki viljað fara upp fyrir þá tölu. En ég er hræddur um, að þessi tala sé algert lágmark, enda er þörfin, eins og ég tók fram áðan, alveg sérstaklega brýn á þessum stað. Ég vil leyfa mér að efast um, áð hafnarmálum sé jafnilla komið á nokkrum stað á landinu og á þessum.

Ég vil enn undirstrika það, sem ég hef sagt hér, að ég held, að þessar till. séu ákaflega hógværar, og kannske eru þær allt of hógværar, því að þarfirnar krefjast vissulega miklu hærri upphæða. Ég hef aðeins farið fram á, að þessir þrír staðir, sem ég nefndi fyrst, fái sömu úrlausnina og þeir fengu í fyrra og þeir verði ekki skornir niður við trog, þó að illa ári nú í þessum landshluta í þetta sinn. Einmitt vegna þess, hversu illa árar, tel ég það ekkert annað en hina furðulegustu ósvífni að ætla að fara að skera þessi litlu framlög, sem voru í fyrra, svo gersamlega niður.