14.12.1964
Sameinað þing: 19. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

1. mál, fjárlög 1965

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að byrja á því að óska þess, að hæstv. forseti athugi, hvort fjmrh. og samgmrh. eru ekki hér í húsinu. Ég sé, að hæstv. fjmrh. er nú kominn, en gott væri einnig að fá samgmrh., hann var hér nýlega. Ég hef hér mál að flytja, sem ég kysi, að þeir hlýddu á. (Forseti: Hæstv. samgmrh. mun nú líklega vera farinn úr húsinu, hann var hér fyrir skammri stundu.) Ég verð þá líklega að láta mér nægja að hafa hæstv. fjmrh. sem áheyranda.

Eftir þeim skýrslum, sem fram hafa komið frá vegagerð ríkisins, hafa verið tekin ríkislán á þessu ári, sem nú er að líða, til vegagerða, líklega fullar 50 millj. kr. Og mér virðist, að ríkisstj. hafi ekki verið búin að afla sér heimildar fyrir þessum lántökum. Ég hygg, að það sé enginn ágreiningur um það hér á þingi, að það hafi verið rétt að taka þessi lán til vegaframkvæmdanna, því að menn munu allir vera sammála um, að það væri nauðsynlegt að hrinda þessum framkvæmdum áfram og þá fyrir lánsfé, úr því að ekki var fé í ríkissjóði til að kosta þær þegar. En ég held, að þarna vanti ábyrgðarheimildir, eins og ég sagði, fyrir röskum :50 millj. kr., aðallega fyrir lántöku til Reykjanesbrautar einnig nokkuð til Ólafsvíkurvegar og Ólafsfjarðarvegar. Þetta hefði hæstv. ríkisstj. vafalaust getað fengið hér á þingi, þegar fjárlög voru afgreidd í fyrra, en henni hefur láðst að fara fram á slíkt. En það er sagt, að betra sé seint en aldrei, og ég vil því benda hæstv. stjórn á, að hún ætti að afla sér þessara heimilda, t.d. nú í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, og þá þyrfti sennilega að veita meiri heimildir til lántöku vegna vegagerða, því að samkv. því, sem fram kemur í þeirri till., sem nýlega var lögð hér fram frá vegagerð ríkisins um framkvæmdir á árinu 1965, er gert ráð fyrir lántökum á næsta ári til nokkurra vega, t.d. til Siglufjarðarvegar ca. 11 millj. kr., einnig til Ólafsfjarðarvegar 4 millj., og vafalaust má telja, að enn þurfi að taka lán vegna Reykjanesbrautar, því að það mun mikið óunnið við þann veg enn. Þessu vildi ég beina til hæstv. fjmrh., að hann tæki þetta til athugunar, áður en afgreiðslu fjárlagafrv. lýkur, því að það sýnist vera hentugt fyrir stjórnina að fá þessar heimildir inn í fjárlög.

Ég flyt ekki við þessa umr. fjárlagafrv. neina till. um fjárveitingar úr ríkissjóði. Ekki er það vegna þess, að ekki sé brýn þörf fyrir meiri fjárframlög í mitt kjördæmi. Þar eru margar nauðsynjaframkvæmdir, sem fé skortir til, ekki síður en annars staðar á landinu. En ég geri ráð fyrir því, að ég og aðrir þm. úr því kjördæmi athugum þetta mál fyrir 3. umr. og munum þá bera fram till., ef okkur sýnist að athuguðu máli einhver von um, að það muni bera árangur. En ég flyt hér eina brtt. við fjárlagafrv., og hún er, eins og ég sagði, ekki um auknar fjárveitingar úr ríkissjóði, heldur um að bæta dálítið hag ríkissjóðs. Þessari till. minni ætti því að vera sérlega vel tekið, einkum af þeim, sem láta sér annt um afkomu ríkissjóðsins. Till. mín er á þskj. 166 og er sú fyrsta á því skjali. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana upp. Hún er við 3. gr. A, sundurliðun 2, Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, og hljóðar þannig:

„Við liðinn komi svo hljóðandi aths.: Óheimilt er að veita nokkrum öðrum en sendiherrum og sendifulltrúum erlendra ríkja afslátt frá hinu ákveðna útsöluverði á vörum verzlunarinnar. Þó má veita Eimskipafélagi Íslands h/f, Skipaútgerð ríkisins og Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli afslátt frá verði á vörum, enda séu þær eingöngu seldar farþegum í utanlandsferðum, en komi ekki til neyzlu innanlands.“

Till. samhljóða þessari bar ég fram á síðasta þingi sem brtt. við frv. hæstv. ríkisstj. um breytingu á áfengisl., en það mál dagaði uppi í hv. Nd., og till. mín kom aldrei undir atkvæði deildarmanna. Er málið var til meðferðar á síðasta þingi í allshn. Nd., óskuðum við tveir nm., ég og hv. 4. þm. Sunnl., eftir upplýsingum um, hvaða aðilar það væru, sem fengju áfengi hjá Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins með niðursettu verði. Við fengum svar við þessari spurningu, og þar kom fram, að þeir, sem hafa fengið áfengi keypt með lága verðinu, eru forseti Íslands, handhafar forsetavalds, meðan forsetavaldið er í þeirra höndum, ríkisstjórn, ráðherrar og ráðuneyti, Alþingi, forseti sameinaðs Alþingis og aðrir forsetar, Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, forstjóri þeirrar verzlunar, Eimskipafélag Íslands, Ríkisskip, Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli. Það var tekið fram, að áfengi það, er skipafélögin kaupa, þau er ég nefndi, sé einungis selt í siglingum milli landa og komi því ekki til neyzlu innanlands og Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli selji aðeins farþegum flugvéla við brottför þeirra úr landinu og það áfengi, sem hún fær með lága verðinu, komi því ekki heldur til neyzlu innanlands.

Þetta mál hefur verið til meðferðar nokkrum sinnum hér á þingi áður. Ég flutti fyrst tillögu um það fyrir 18 árum, á Alþingi 1946, og á næsta þingi þar á eftir flutti ég og nokkrir aðrir hv. þm. tillögu um sama efni, og ég hygg, að síðan hafi tillögur um þetta mál verið fluttar sjö sinnum á hv. Alþingi, og þær hafa stundum verið fluttar af þm. úr öllum þingflokkum, en þó ekki náð fram að ganga. Mér þykir rétt að reyna enn að koma þessu máli fram, því að nú eru komnir nýir menn á þing, sem ekki áttu hér sæti, síðast þegar slík tillaga var borin undir atkv. þm., og vel getur verið, að þeir hafi annað viðhorf til þessa máls heldur en hinir eldri.

Því er haldið fram af sumum mönnum, að þeir, sem njóta sérréttinda hjá Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, þurfi á þeim að halda vegna risnuskyldu, sem á þeim hvíli. En þetta er mesti misskilningur. Ríkið á að bera kostnað af þeim opinberu veizlum, sem óhjákvæmilegt eða rétt þykir að halda, en ekki einstakir ráðherrar eða aðrir embættismenn, enda er það ríkið, sem ber þennan kostnað. Auðvitað væri það viturlegast að fella með öllu niður vínveitingar í veizlum ríkisins og ríkísstofnana. Og það hafa oft verið fluttar tillögur á Alþingi um að gera það. Ef þetta væri gert, þá er mjög trúlegt að það gæti haft góð áhrif á aðrar stofnanir og einstaklinga í þjóðfélaginu. En jafnvel þó að haldið verði áfram enn um sinn að veita áfengi í ríkisveizlum, er það fjarri öllum sanni, að nokkur ástæða sé til að selja það áfengi með kostnaðarverði frá Áfengisverzlun ríkisins. Ríkið hefur engan hagnað af því, að áfengi og tóbak, sem notað er í veizlum, sem haldnar eru á kostnað ríkisins, sé selt með sérstaklega lágu verði. Veizlukostnaðurinn verður að vísu hærri, ef þetta er fengið með útsöluverði, en hagnaður af Áfengis- og tóbaksverzluninni þeim mun meiri, svo að útkoman er sú sama fyrir hið opinbera. En þessari reglu, sem fylgt hefur verið, fylgir sá stóri ókostur, að eftir þeirri leiðslu, sem flutt hefur vínið til veizluhalda ríkisins, hefur einnig runnið vín með sama lága verðinu til nokkurra einstakra manna til persónulegra nota fyrir þá. Þetta er að mínu álíti óhæfa, sem þarf að uppræta. Hjá verzlunum ríkisins eiga allir að búa við sömu viðskiptakjör.

Ráðherrar hér á landi höfðu lengi fremur lág laun, miðað við ýmsa aðra menn í þjóðfélaginu. En árið 1963 fengu þeir verulega bætt sín kjör, eins og aðrir opinberir starfsmenn, og nú er svo komið, að ég hygg, að þeir geti vel borgað sjálfir þær vörur, sem þeir nota á heimilum sínum, ekki síður en aðrir landsmenn, og því sé engin þörf að láta þá fá fjárstyrk til heimilishalds hjá einni ríkisverzlun. Það er einnig algerlega óþarft, að einkasala

ríkisins hlynni sérstaklega að forsetum Alþingis. Þeir hafa enga þörf fyrir slíkt.

Áfengismálið er mikið vandamál hjá þjóðinni og hefur lengi verið. Oft er talað um nauðsyn þess, að unga fólkið sneiði hjá áfengi og tóbaki, því að margir munu sammála um, að æskufólki sé óhollt að venja sig á vín og tóbak. En það eitt er ekki nóg að tala um þessi mál. Áhrifamesta bindindisboðunin meðal æskufólks væri vafalaust gott fordæmi hinna eldri. En meðan hinir eldri og þeirra á meðal ýmsir helzu ráðamenn í þjóðfélaginu hafa áfengi svo mjög um hönd sem þeir gera nú, er hætt við, að margt ungt fólk taki upp þær óhollu venjur.

Sú skoðun hefur verið ríkjandi, því miður, að vinið sé svo mikilsvert, að rétt sé að veita sumum æðstu mönnum landsins opinberan styrk til að kaupa það og nota. Þetta er eitt af því, sem hefur valdið erfiðleikum fyrir þá menn, sem leitast við að leiða unga fólkið burt frá áfenginu. Ég er að vona, að viðhorf manna hér á hv. Alþingi séu nú það breytt í þessum málum, að þessi tillaga mín á þskj. 166 verði samþykkt við atkvgr. um fjárlagafrv.