09.11.1964
Efri deild: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

58. mál, innlent lán

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég er því meðmæltur, að þessi tilraun, sem hér er um að ræða, verði gerð, þ.e.a.s. að það verði gerð tilraun með útgáfu verðtryggðra ríkisskuldabréfa. Það er mjög eðlilegt, að það sé reynt að bæta úr lánsfjárþörf hins opinbera og reynt sé að afla fjár til opinberra framkvæmda með lántökum hér innanlands, og í því sambandi er verðbréfasala eðlileg leið. En eins og kunnugt er og vikið er að í grg. fyrir þessu frv, og kom fram áðan hjá hæstv. fjmrh., þá hefur ástandið í fjármálum og peningamálum hér innanlands verið með þeim hætti undanfarin ár, að venjuleg verðbréf mega heita óseljanleg á frjálsum markaði nema þá með mjög miklum afföllum, og stafar þetta af þeirri alkunnu verðbólguþróun, sem átt hefur sér stað og verið í algleymingi að undanförnu og síður en svo er nokkur bilbugur á að því er virðist nú.

Hér er farið inn á þá braut, eins og frv. ber með sér, að verðtryggja það sparifé, sem menn verja til kaupa á þessum ríkisskuldabréfum. Það er að mínu áliti rétt braut og að mínum dómi spor í rétta átt. Og það er ef til vill sú leið, sem fara verður inn á, ef það á að verða unnt að stöðva verðbólguþróunina, ef það á að verða unnt að kippa fótunum undan þeirri óheillaþróun.

En í sambandi við þessa leið og þessa spurningu um verðtryggingu sparifjár vildi ég leyfa mér að minna á, að við framsóknarmenn höfum flutt till. oftar en einu sinni um það, að athugað yrði, hvort ekki væri unnt að koma við verðtryggingu sparifjár, og þá einnig, í hve ríkum mæli það væri unnt. Slík till. liggur fyrir þessu þingi. Slík till. lá fyrir þinginu í fyrra, en fékkst þá ekki afgreidd. Þvílíka till. bar ég fram á sumarþinginu 1959, fékkst þá ekki afgreidd. Enn var sú till. borin fram á þinginu 1960 og fékkst enn ekki afgreidd. Áður höfðu framsóknarmenn, ef ég man rétt, á þinginu 1953 borið fram till. í svipaða átt. Og enn má geta þess, að á Alþingi 1962 var samþ. þál. á Alþingi frá hv. 10. þm. Reykv., þess efnis, að skorað var á ríkisstj. að láta fara fram rannsókn á því, með hverjum hætti unnt væri að framkvæma verðtryggingu á lífeyrissjóðum. Og raunar var það líka ákveðið í þeirri þál., að niðurstöður þeirrar rannsóknar skyldu, jafnskjótt eg þær lægju fyrir, lagðar fyrir hv. Alþingi.

Ég verð að segja það, að ég hefði talið æskilegra, að þessar till. okkar framsóknarmanna að undanförnu hefðu verið samþ., þær hefðu verið afgreiddar og það hefði þegar farið fram sú athugun, sem gert var ráð fyrir í þessum þáltill. Ég held, að það hefði verið gagnlegt fyrir þetta mál, að slík athugun hefði legið fyrir, því að sannleikurinn er sá, að þegar maður fer að athuga þetta frv., þá er býsna margt í því nokkuð óákveðið, enda viðurkenndi hæstv. fjmrh. það hér áðan, en bætti að nokkru leyti úr því með skýringum frá eigin brjósti, hvað ráðgert væri í þessum efnum. Það má t.d. benda á það, að í þessu frv. er ekkert kveðið á um lánstímann, ekkert kveðið á um lánskjörin, eins og t.d. vextina, ekkert kveðið á um það, hvaða vísitölu eigi að nota, en auðvitað koma hér margar vísitölur til greina eða geta komið til greina. Og eins og hæstv. fjmrh. nefndi dæmi um, þá hefur í þeim tilfellum, sem farið hefur verið inn á verðtryggingu, verið miðað við mismunandi vísitölu

Sogsvirkjunarlánin voru t.d., ef ég man rétt, miðuð við eins konar rafmagnsverðsvísitölu. Og þannig mætti í raun og veru fleiri dæmi nefna um vöntun á nánari fyrirmælum í þessu frv. En það er aðeins hér um að ræða í raun og veru heimildina til útgáfu þessara bréfa, en gert ráð fyrir því, að öll nánari ákvæði varðandi þessi höfuðatriði verði sett í reglugerð.

Að sjálfsögðu er það til bóta, að hæstv. fjmrh. gerði, eins og ég áðan sagði, nokkru skýrari grein fyrir því, hvað ráðgert er í þessu efni, í sinni framsöguræðu áðan, þar sem hann m.a. gat þess, að hugsað hefði verið til þess að miða þetta helzt við vísitölu byggingarkostnaðar. En vitaskuld er sú vísitala ekki nema ein af þeim vísitölum, sem hér geta komið til greina, og það þarf auðvitað að athuga, hvað réttast er í því efni. Að sjálfsögðu væri eðlilegast að taka það fram í sjálfum l., við hvaða vísitölu ætti að miða, því að það er slíkt höfuðatriði í þessu sambandi, að allt annað er óeðlilegt að mínum dómi.

Þá er það líka um lánstímann, að hann er óákveðinn í þessu frv. Hæstv. ráðh. gat þess, að hámarkslánstími hefði verið hugsaður 10 ár, en þó með nokkuð sérstökum hætti, þannig að það hefði verið hugsað um það, að menn gætu átt þess kost eftir svo sem 3 ár eða lengri tíma að fá innleyst bréfin, ef þeir óskuðu þess eða stæði eitthvað sérstaklega á fyrir þeim, að mér skildist. Nú kann það vel að vera, að það eigi við og sé heppileg leið, um það skal ég ekkert segja. En ég verð að telja það tryggara að taka fram lánstímann —hámarkslánstímann — í þessu frv. og l., enda hygg ég, að það sé venjan að gera það, þegar um hefur verið að ræða heimild til lánsútboða eða heimild til útgáfu skuldabréfa fyrir ríkissjóð. Sama máli gegnir auðvitað um vextina.

Ég held sem sagt, að þessi dæmi, sem ég hef aðeins nefnt hér, sýni það, að þetta mál þarf nokkurrar athugunar við og það hefði verið æskilegra, að það hefði verið kveðið á um þessi atriði að nokkru leyti í l. sjálfum, og ég vænti þess, að sú n., sem fær frv. til meðferðar, taki þessi atriði, sem ég hef hér lítillega vikið að, til athugunar. En að sjálfsögðu eru því aðeins líkur fyrir því, að þessi leið heppnist og menn verði fúsir til þess að leggja sparifé sitt í kaup á þessum bréfum, að þeir viti fyrir fram nokkurn veginn, að hverju þeir ganga í þessu efni, en allt verði ekki í lausu lofti og háð reglugerðum, sem breyta má með auðveldari hætti en l., og því er að mínum dómi eðlilegt að binda höfuðatriði málsins í sjálfum lögunum.

Viðvíkjandi þeirri heimild, sem er í 5. gr., þá verð ég að segja það, að mér þykir sú heimild nokkuð víðtæk, a.m.k. eftir orðanna hljóðan, því að þar virðist vera um nokkuð óákveðna heimild, áframhaldandi heimild til handa ráðh. til útgáfu þessara bréfa að ræða. Það má vera, að það sé ekki meiningin, heldur sé ætlunin að takmarka þetta með þeim hætti, sem hæstv. ráðh, vék að, en þá finnst mér, að það væri æskilegt að orða þá hugsun í sjálfum l., svo að það væri nokkuð ákveðið, því að ég held, að það muni vera mjög fátítt, að ráðh. eða ríkisstj. hafi fengið jafnvíðtæka lántökuheimild og þetta í raun og veru er, vegna þess að þarna er um tefla heimild til lántöku, þar sem upphæðin getur orðið algerlega óákveðin, og ekki heldur kveðið á um það, til hve langs tíma þessi heimild eigi að standa. Og loks er svo það, sem ég vildi víkja að, og það er um ráðstöfun á því fé, sem safnast kann eða saman kann að nást með þessum hætti, en um það eru fyrirmæli í 4. gr.

En áður en ég vík að því, er þó kannske aðeins rétt fyrst að benda á 3. gr., þar sem svo er fyrir mælt, að þessi skuldabréf og vextir af þeim og verðbætur skuli undanþegin framtalsskyldu og skattlagningu á sama hátt og sparifé. Nú býst ég við, að það megi kannske til sanns vegar færa, að þetta sé eðlilegt, að láta þessa fjársöfnun njóta þessa hagræðis. En hins vegar verð ég að segja, að mér finnst athugandi, hvort það sé rétt, eins og þarna er ráð fyrir gert, að þessi eign, sem þarna er um að tefla, sé undanþegin erfðafjárskatti. Það er fyrir hv. n., sem fær frv. til meðferðar, að athuga. Ég hef litið svo á, að undanþága á skattskyldu sparifjár hafi byggzt á því, að menn hafi talið, að vextirnir, sem menn hafi fengið eftir sparifé, hafi verið það lágir, að þeir hafi á engan hátt samsvarað réttmætu endurgjaldi fyrir og vegið á móti verðfalli því, sem orðið hefur á peningunum, enda er það kunnara en frá þurfi að segja, að stöðugt verðfall hefur átt sér stað á peningum og þeir vextir, sem hafa verið greiddir á hverjum tíma, hafa ekki verið nema brot og eru ekki nema brot af því verðfalli, sem samtímis hefur átt sér stað á peningunum, og það gefur að skilja, að þegar ástandið er þannig, hvetur það menn ekki til sparnaðar, og þá hlýtur líka af því að leiða, að það verður lánsfjárskortur og menn fara að keppast aftur á móti við að leggja í framkvæmdir, og þetta verður með þeim hætti til þess að ýta undir þá spennu, sem er gróðrarstía fyrir verðbólguna í landinu. Ég hef litið svo á, að með skattfrelsi sparifjár hafi menn, þótt í litlum stíl væri, viljað vega upp á móti þessum óheillafylgjum. En mér finnst það a.m.k. athugandi, hvort annað viðhorf kemur ekki til greina, þegar á að fara að greiða verðuppbætur á spariféð og halda því þar með í sínu raunverulega gildi og koma í veg fyrir verðfall peninganna. En eins og ég sagði áðan, þá minni ég aðeins á þetta til athugunar fyrir þá n., sem frv. fær til meðferðar.

Þá er að lokum það ákvæði í 4, gr., þar sem fjallað er um ráðstöfun á því fé, sem fæst fyrir þessi verðbréf. En það er ekki í frv. að finna nein fyrirmæli um það, til hvers þessu skuli varið, að því fráskildu, að það er kveðið á um, að það skuli notað til framkvæmda á vegum ríkisins eða til greiðslu á skuldum ríkissjóðs og ríkisábyrgðasjóðs. En það eru engin fyrirmæli um það þarna, til hverra framkvæmda fyrst og fremst það skuli notað né til greiðslu á hvers konar skuldum ríkissjóðs eða ríkisábyrgðasjóðs þessu fé skuli varið. Það vantar öll nánari ákvæði um þetta. Og ríkisstj. fær með þessu frv., ef að lögum verður, óbundnar hendur um ráðstöfun á þessu fé.

Hæstv. fjmrh. gaf að vísu nokkra skýringu á þessu áðan í sinni framsöguræðu, þar sem hann sagði, að það væri helzt til þess hugsað að verja fé þessu til sjúkrahúsbygginga og rafveituframkvæmda. Þær framkvæmdir eru auðvitað góðra gjalda verðar. En þó að hæstv. fjmrh. segði, að þetta væri það, sem aðallega hefði verið haft í huga, þá er það vitaskuld á engan hátt bindandi né tæmandi, til hvers fénu megi verja. Ég býst við því, að það geti enginn ætlazt til þess með sanngirni, að stjórnarandstaða beri það traust til hæstv, ríkisstj., að hún vilji fela henni svona alveg fullt og óskorað sjálfdæmi um ráðstöfun þessa fjár. Þó að það sé ekki um óskaplega miklar fjárfúlgur að ræða þarna, þá er náttúrlega eftirleikurinn auðveldari, og ef á annað borð er farið inn á þessa leið, þá er hægt að fara þannig með stærri fjárfúlgur síðar. Ég held þess vegna, að þarna sé um að tefla allt of víðtækan ráðstöfunarrétt og hömlulausan fyrir ríkisstj., því að þótt hún eigi að gera þetta í samráði við fjvn., þá felst náttúrlega ekki nægileg trygging í því og ekki nægilegt öryggi fyrir því, að fjvn. hafi í raun og veru áhrif á það, hvernig þessu fé er varið. Auðvitað er til bóta, að fjvn. fái að fylgjast með þessu og fái að láta uppi álít sitt um það, en eftir sem áður er fullkomið og óskorað ákvörðunarvald um þessi efni í höndum ríkisstj. Ég held þess vegna, að það þurfi að setja inn í þetta frv. fyllri og nákvæmari og skýrari ákvæði um lánveitingarnar, um útlánin á þessu fé. Ríkisstj. er ekki ætlað að fást við lánveitingastarfsemi, það veit hver maður, og allra sízt lánveitingastarfsemi, þar sem henni er það að miklu leyti í sjálfsvald sett, hverjum hún veitir lánin. Það væri a.m.k. lágmark, að það væru settar í frv. einhverjar almennar reglur um þetta efni.

Ég skal svo ekki, herra forseti, orðlengja meir um þetta frv. Eins og ég hef þegar sagt, er ég að stefnu til eða að „prinsipinu“ meðmæltur því, að þessi tilraun sé gerð, en tel hins vegar, að einstök ákvæði þessa frv. þurfi við athugunar og nokkurra breytinga til bóta.