21.12.1964
Sameinað þing: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

1. mál, fjárlög 1965

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Skömmu áður en gengið var til lokaafgreiðslu fjárlaga, svaraði hæstv. samgmrh. fyrirspurn varðandi undirbúning undir bifreiðaferju á Hvalfirði. Veitti hann ýmsar upplýsingar, sem bentu mjög til þess, að þetta kynni að vera æskileg framkvæmd. Þó var augljóst, að enn hefur ekki farið fram sá nákvæmi undirbúningur, sem gerði Alþingi eða ríkisstj. kleift að taka ákvörðun um, hvort ráðast á í þetta á næstunni eða ekki. Það er skoðun mín, að eina leiðin til þess að fá þennan endanlega lokaundirbúning vel unninn sé nú að fá hingað erlendan, ef til vill norskan verkfræðing, sem hafi sérkunnáttu einmitt í þessari tegund mannvirkja. Og það er með það í huga að fá slíkan sérfræðing til þess að athuga þetta mál, sem flutt var till. um 100 þús. kr. fjárveitingu við 2. umr. fjárl. Till. var tekin aftur til 3. umr., en fjvn. sá ekki ástæðu til þess að taka undir hana, og er hún því flutt á nýjan leik og prentuð á þskj. 208.

Einhverjum mun hafa komið til hugar, að það væri hægt að leysa þetta mál með því að nota fé, sem ætlað er til að rannsaka hafnarstæði, þar sem hafnarnefndir eru ekki til. En þetta er að sjálfsögðu ekki hægt, því að samkvæmt vegalögunum eru bæði ferjubryggjur og ferjur vegaframkvæmdir, og er ekki hægt að nota fé, sem er ætlað til að undirbúa hafnarframkvæmdir, til þess að vinna þessa eða aðrar vegaframkvæmdir, og er till. því flutt á nýjan leik. Vil ég vænta þess, því að hér er ekki um stóra upphæð að ræða, að hún fái vinsamlegar undirtektir hjá hv. þingheimi.

Ég vildi segja örfá orð um brtt., sem 3 hv. framsóknarmenn flytja á þskj. 206. Þessi brtt, er við fjárhagsáætlun væntanlegs sjónvarps. Í staðinn fyrir það, sem í fjárlagafrv. stendur, vilja þeir, að fyrsti áfangi þessara framkvæmda verði ákveðinn á árunum 1965 —1967, eins og þarna segir, með 8 stórum sendistöðvum og fleiri tækjum og mannvirkjum. Sjónvarpsnefnd, sem starfaði snemma á þessu ári, gerði tvær framkvæmdaáætlanir, aðra til 5 ára og hina til 7 ára. Það var álít nefndarinnar og verkfræðinga, sem hún hafði samstarf við, að 5 ára áætlunin væri það allra hraðasta, sem nokkur leið væri að hugsa sér að vinna þessar framkvæmdir. Nú er hér komin till., sem gerir ráð fyrir enn þá meiri hraða en þessi 5 ára áætlun. 5 ára áætlunin mundi vera með fyrsta áfanga 1966—68, en þessi till. gerir ráð fyrir, að sami áfangi verði framkvæmdur 1965—67. Af þessu vona ég að verði ljóst, að þessi till. er algerlega óframkvæmanleg, og ég mun af þeirri ástæðu ekki treysta mér til að greiða henni atkv., en vil gjarnan, að það komi fram hér, að skoðun mín og allra annarra, sem ég þekki til, sem hafa tekið þátt í undirbúningi sjónvarpsmálsins, er, að sjálfsagt sé að reyna að koma sjónvarpinu út um landið eins hratt og mögulegt er. Þessi till. er óframkvæmanleg og í sannleika sagt ekki hægt að samþykkja hana.