21.12.1964
Sameinað þing: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

1. mál, fjárlög 1965

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 217 tvær brtt. Önnur er við Handritastofnunina, þ.e. 14, gr., að í staðinn fyrir 925 þús. kr. sé veitt til hennar 1 millj. og 400 þús., en til vara till. um 1 millj. og 200 þús. Ég gerði við 2. umr. þessa máls nokkra grein fyrir nauðsyn okkar á því að efla Handritastofnunina meira en orðið er. Það er nauðsynlegt fyrir okkur, ekki sízt eins og nú stendur á í þeirri baráttu, sem við eigum um handritin, að við verjum meira fé til þess að gera okkar fræðimönnum mögulegt að vinna úr þessum handritum og skrifa um þau bækur, enn fremur að gefa þau út og annað slíkt. Að þessu er of litið unnið nú sem stendur, m.a. vegna þess, að það vantar þarna fé.

Það hefur stundum verið sagt, þegar um þetta hefur verið rætt, að það vanti sérfræðinga. Það er ekki rétt. Það vantar ekki sérfræðinga, hvorki í þetta né það, sem snertir norrænudeildina við háskólann. Það, sem vantar, er af hálfu stjórnarvaldanna á Íslandi víðsýni í sambandi við að ráða sérfræðinga til þessara hluta. Ástandið er þannig nú í sambandi við rannsóknir bæði á okkar sögu, bókmenntum og handritum, að þeir menn, sem eru jafnvel manna færastir til þess að rannsaka þetta og vinna úr þessum hlutum, eru látnir þræla sér út við alls konar skólakennslu í skólunum hér í Reykjavík, en þeirra kraftar ekki notaðir á því sviði, þar sem þeir eru sérfræðingar. Og sama gildir hvað snertir Handritastofnunina, að menn, sem hafa áður unnið við Árna Magnússonar safn í Kaupmannahöfn, þeir eru hér nú kennarar jafnvel í íslenzku, dönsku og öðru slíku og vinna fyrir sér þannig að verða jafnvel að fara af landi burt til að fá starf við sitt hæfi. Þetta má ekki svo til ganga. Ég veit, að það er kvartað yfir því á þeim teknísku sviðum, að stórgáfaðir menn, sem við Íslendingar eigum, eru hraktir af landi burt, vegna þess að menn tíma ekki að sjá eftir lélegum prófessorslaunum handa þeim. Þótt það sé hættulegt í sambandi við okkar tæknilegu fræði, þá er hitt enn þá hættulegra, þegar við erum að heyja baráttu eins og nú viðvíkjandi handritunum, að svona skuli til ganga. Ég veit, að þeir menn, sem standa fyrir ýmsum svona stofnunum hjá okkur, þeir eru ekki eins aðgangsfrekir og margir aðrir, svo að ég nefni t.d. einhverja af ekki lélegu tagi, við skulum segja kirkjuhöfðingjarnir. Þessir fræðimenn okkar, sem vanastir eru því að vinna í sínum innilokuðu stofum og sínum söfnum að merkum fræðilegum verkum, þeir eru ekki innstilltir á það að ganga hér til fjvn. og ætla að heimta af henni peninga. Það eru aðrir, sem temja sér það. Þess vegna á Alþingi að sýna þá reisn, að það bjóði þessum mönnum að gera betur við þeirra stofnanir, og segja um leið: Þið getið ráðið fleiri sérfræðinga til ykkar til þess að vinna það. Það er sama með rannsóknarstyrkina. Það á að veita rannsóknarstyrkina þannig, að mennirnir, sem eru að vinna við þetta, geti lifað af þeim, á meðan þeir eru að vinna þarna. Það þýðir, að launin, sem þeir þurfa að fá, eru yfir 100 þús. kr. á ári, en ekki undir 100 þús. Þess vegna vil ég eindregið vonast til þess, að hv. þm. samþykki annaðhvort aðal- eða varatillöguna og sýni þar með skilning á nauðsyninni á því að efla Handritastofnunina.

Ég skal líka geta annars í þessu sambandi. Ég veit ekki betur en það sé eins konar samkomulag á milli Þjóðminjasafnsins og Handritastofnunarinnar, að um leið og Þjóðminjasafnið reynir að koma sér upp þjóðháttadeild, verklegri þjóðháttadeild, til þess að bjarga ýmsu af okkar tæknilegu menningu, gömlu tæknilegu bændamenningunni, áður en þau tæki, sem bændurnir unnu með, eru algerlega horfin, og þó er reynslan sú, að sum þeirra voru horfin, svo að það var ekki hægt að drífa upp eitt einasta á landinu af því tagi og varð að smíða það eftir fyrirsögn manna, sem höfðu notað það áður, — en á sama tíma sem Þjóðminjasafnið kemur sér upp slíkri verklegri þjóðháttadeild, þá skilst mér, að Handritastofnunin sé að koma sér upp eins konar andlegri þjóðháttadeild. Þar er verið að reyna að safna, við skulum segja rímnastemmum, kvæðalögum, taka upp á segulband frásagnir gamalla kvenna, þegar þær segja börnum eða barnabörnum sínum ævintýri eða þjóðsögur. Það, sem enn þá er til á Íslandi og er að deyja út með þeirri kynslóð, sem nú er 70—80 ára gömul, það er verið að reyna að taka þetta upp, þannig að þessar raddir og þessar aðferðir, þessi háttur að segja frá, hvort heldur það er í bundnu máli eða óbundnu, það varðveitist og varðveitist eins og alþýða manna hefur sagt það, eins og gömlu ömmurnar hafa sagt barnabörnunum það. Þetta er enn þá til, og það hafa verið menn að fara í sínum fríum út um þær dreifðu byggðir landsins með nýtízkutæki til þess að taka þetta upp. En með hverju árinu sem líður fækkar því fólki, sem enn þá kann þessa hluti, að segja þetta, og segja það á þann hátt, sem þjóðsögurnar hafa lifað á vörum þjóðarinnar, og við eigum ekki að láta þetta vera frístundastarf nokkurra manna, sem til þess fást. Við eigum að láta menn vinna að þessu, á meðan enn þá er tími til. Menn mundu vilja borga fyrir þetta miklu, miklu meira en þær 100 þús., sem þarna er lagt til, þegar þetta er horfið. En tíminn til þess að borga það er nú.

Það er Alþingi sjálft, sem á að hjálpa til með svona hluti. Ég man eftir því hér um árið, meðan Davíð Stefánsson lifði, þá lagði ég til að taka hans rödd og hans upplestur á hljómplötu, og það var auðvitað fellt. Einn framtakssamur maður, sem auðsjáanlega hefur skilning á okkar menningu og okkar arfleifð, hér í Reykjavík, hann gerði það svo nokkru seinna, að hann lét Davíð lesa inn á plötu, og sú plata er til og er vinsæl nú. En ég man eftir, að Davíð sagði við mig, þegar ég minntist á þetta við hann: „Ja, það var nú bara of seint gert, mín rödd var ekki eins góð lengur og hún var áður.“ Og svona er þetta. Við erum alltaf að tína niður og glata þessum hlutum, um leið og við erum að miklast af því, hvað við höfum varðveitt mikið. Þess vegna álít ég, að við eigum líka á þennan hátt að styðja Handritastofnunina til þess að reyna að bjarga þessum andlegu þjóðháttum, sem eru með hverju árinu sem liður að fara í glatkistuna hjá okkur.

Mér þykir hins vegar vænt um, að ég veit, að bæði af hálfu Ríkisútvarpsins og Handritastofnunarinnar er reynt að vinna að þessu. En Alþingi á að segja við þessar stofnanir: Við viljum ýta undir ykkur með þetta. Og við eigum kannske því frekar að gera það sem ekki er verið að koma til okkar og alltaf verið að kvabba á fjvn. um að gera þessa hluti, þannig að einhvern tíma sýnum við þó, að við höfum skilning á þessum hlutum og það þurfi ekki bara að koma hingað til Alþingis til þess að reyta út úr því peninga í það, sem gott er.

Síðari brtt., sem ég er með, er, að sá liður, sem nú er varið í sambandi við Þjóðminjasafnið til rannsókna, 40 þús., hann verði 200 þús. og orðist svo: „Til rannsókna á Íslandi og Grænlandi.“ Við vitum, að það eru mjög merkar fornminjar, sem eru að finnast og menn gera sér vonir um að komi til með að finnast á næstunni í enn ríkara mæli í Grænlandi, og það er jafnþýðingarmikið fyrir okkur að rannsaka það eins og okkar eigið land í þessum efnum. Vafalaust verður ekkert því til fyrirstöðu. En strax og um slíkt er að ræða, þá verður náttúrlega kostnaðurinn meiri. Þið sjáið það sjálfir, hvað eru 40 þús. kr. til allra rannsókna á fornminjum á Íslandi? Og hvernig er þetta rekið núna? Þetta er rekið þannig, að ef bóndi rekst á fornminjar, þegar hann er að grafa fyrir einhverju nýju, og ef sá bóndi eða annar aðili, sem er að vinna að þessu, er verulega hugsandi í þessu, þá gerir hann fornminjaverði viðvart. Það hefur hins vegar líka komið fyrir, að sumir og það jafnvel stórbændur hafa kannske eyðilagt svo og svo stórar rústir, eldgamlar, sem voru hjá þeim, þegar verið var að jafna þetta allt saman og slétta með þeim stóru nýtízkutækjum.

Ég held þess vegna, að við þurfum að ýta undir þjóðminjavörð og þá með því að segja: Alþingi vill veita meira fé í þetta. Og í sambandi við þær samþykktir, sem hér er nú verið að gera um að ráðstafa fjármunum til hinna og þessara hluta, þá er þetta bókstaflega ekki neitt. Og ég verð að segja það, að ég er satt að segja hissa á fjvn. að fást ekki sjálf til þess að taka upp eitthvað af þessu. Við tölum um það öll ósköp, ef okkur finnst, að einhverjir séu að ganga á okkur í þessum efnum, við skulum segja t. d., ef Norðmenn fara að tileinka sér Leif Eiríksson, þá verður fótur og fit uppi á Íslandi. En hvað gerum við svo við þær fornminjar, sem kunna að finnast enn þá eftir Leif Eiríksson í Grænlandi, Íslendingabyggðum Grænlands? Hvaða áhuga sýnum við á þessu? Norðmenn voru duglegri en við að leita að þeim í Vínlandi, en er þó styttra fyrir okkur. Það er þjóðrembingur hjá okkur, og við bara tölum og tölum ósköp hátt, þegar um þetta er að ræða, en sýnum okkur svo ekki verulega í því að gera hlutina, vinna það þrotlausa og sífellda starf, sem þarf að vinna að því að koma þessum fornleifarannsóknum á réttan kjöl.

Það gildir sama um þetta og það, sem ég sagði um Handritastofnunina. Ég veit ósköp vel, að þeir menn, sem standa fyrir þessu, þeir fræðimenn, sem vinna sín góðu störf í kyrrþey fyrir okkar land og okkar þjóð og okkar menningu, þeir eru ekki duglegir fjármálamenn í að koma til fjvn. En við eigum ekki að láta þá eða það starf, sem þeir hafa, gjalda þess. Við eigum að segja héðan frá Alþingi: Við viljum, að það sé unnið meira að þessu, og við viljum láta ykkur hafa meira fé til þessa og segja okkur bara til. Þegar fjárl. eru komin upp í 3 milljarða og 600 millj., þá á ekki að spara á svona liðum. Þess vegna vil ég vonast til, að hv. þm. verði við því að samþ. þessar brtt.