21.12.1964
Sameinað þing: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

1. mál, fjárlög 1965

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég á á þskj. 208 tvær brtt. við fjárl. Önnur till. er viðkomandi framlagi til Drangsneshafnar, að því verði breytt, það verði hækkað úr 100 þús. í 700 þús. Ég flyt þessa till. ásamt þeirri. sem ég síðar mæli fyrir, vegna þess, að það er aðkallandi nauðsyn, að framkvæmt verði það,. sem gert er ráð fyrir að framkvæmt verði, ef tillögurnar verða samþ., og mér er það ljóst, að ef ég fæ ekki samþ. þessar tvær brtt., sem eru jafnmikið réttlætismál og þær eru, þá er þýðingarlaust að bera fram aðrar.

Það, sem mælir með því að samþ. tillögurnar, er fyrst og fremst það, að því er snertir Drangsnes, að atvinnulífinu á Drangsnesi er þannig háttað, að það er sjávarþorp, eins og alþm. vita, og menn lifa þar á sjávarútvegi. Það eru gerðir þar út nokkrir bátar, og þar er hraðfrystihús. Það hefur verið aflabrestur við Húnaflóa undanfarin ár, og afkoman á Drangsnesi er mjög léleg, eins og yfirleitt við Húnaflóa og raunar norðanlands. Það steðja því tvenns konar erfiðleikar að frystihúsinu og atvinnulífinu á Drangsnesi, sem er eitt og hið sama. Það er hráefnisskortur vegna aflaleysis, og tapið á frystihúsinu hefur skipt nokkrum hundruðum þúsunda ár eftir ár. En það, sem háir þessum atvinnurekstri þó ekki minna og hefur verið varanlegt, er það, að hafnlaust er á staðnum til útskipunar í millilandaskip. Það verður þess vegna að aka klukkutímaakstur í bifreið með hráefnið til Hólmavíkur til þess að koma því í skip til útflutnings, og þessi kostnaður skiptir hundruðum þúsunda á ári og ríður baggamuninn um það, að ef ekkert verður að gert, þá verði frystihúsinu lokað. En alþm. ættu að geta gert sér grein fyrir því, hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir plássið, þegar þess er gætt, að bátarnir og frystihúsið eru einu atvinnutækin á staðnum, og það er ekki um annað að gera fyrir fólkið á Drangsnesi, ef lagfæring fæst ekki og ef frystihúsinu verður lokað þar af leiðandi, en að flytja burt af staðnum; og flutningar verða mjög örir þaðan núna í seinni tíð. Það verður þess vegna að horfast í augu við það, að annaðhvort er að leggja staðinn niður sem pláss ellegar gera þessar aðgerðir sem allra fyrst.

Hin till., sem ég flyt, er í sambandi við till. til þál., sem var flutt hér á Alþingi 1962—1963. Till. gerði ráð fyrir að rannsaka, hvað hægt væri að gera til að fyrirbyggja fólksflótta frá Vesturlandi, og það var gert ráð fyrir því, að rannsókninni yrði lokið í lok ársins 1963. En henni er ekki lokið enn, eins og komið er fram í þessum umr. Hins vegar er sennilegt og gert ráð fyrir því, að rannsókninni verði lokið á næsta ári. En þá þarf fjármuni til þess að hefjast handa, og auðn vofir svo víða yfir á Vestfjörðum af mörgum ástæðum, að málið þolir enga bið. Það verður ekkert gert á næsta ári, ef ekki eru ætlaðir fjármunir til þess að gera þær framkvæmdir, sem að rannsókn lokinni verður álítið nauðsynlegt að gera og rétt að gera.

Þess vegna legg ég til, að ríkisstj. verði heimilað að taka 12 millj. kr. lán til þessara framkvæmda. Það, sem er gallinn á aðgerðum til þess að fyrirbyggja fólksflótta frá Vestfjörðum og annars staðar á landinu, er það, að það er alltaf gert of seint. Það er of smátt í sníðum og gert of seint. Og þegar flótti er brostinn í liðið, þegar fólksflótti er hafinn, snýr fólkið ekki við, þegar vonlaust er orðið um það vegna aðgerðaleysis ár eftir ár, að því verði rétt hjálparhönd. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa þessa heimild fyrir ríkisstj. til staðar, þegar rannsókninni er loks lokið og komin niðurstaða um það, hvað hagkvæmast verði að gera fyrir atvinnulífið á Vestfjörðum og annað fyrir fólkið, þannig að hægt sé að halda byggð þar áfram, svo sem verið hefur.

Við fluttum enga till., þm. Vestf., við heimildagr. um lánsheimild til vegaframkvæmda á Vestfjörðum. Sannast að segja bjuggumst við við, eins og tekið hefur verið fram í þessum umr., ákveðnari yfirlýsingum frá hæstv. samgmrh. um vegamál Vestfjarða en raun ber vitni. Ég vil enn vona, að það mál upplýsist þannig í þessum umr., og komi fram svo ákveðnar yfirlýsingar um aðgerðir í vegamálum Vestfjarða, eins og ég hef ástæðu til að vænta, að hægt verði að draga þá till. til baka, sem við þrír þm. Vestfjarða flytjum. En ég bíð þess. Við sjáum hvað setur.