21.12.1964
Sameinað þing: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

1. mál, fjárlög 1965

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil byrja mái mitt á því að lýsa yfir fylgi við þá till., sem tveir hv. alþm. hafa flutt á þskj. 208, XII. um heimild til þess að ábyrgjast lán til samtaka síldarverksmiðja og síldarsöltunarstöðva á Norðurlandi, er stofnuð kunna að verða til rekstrar síldarflutningaskipa, sem nemi allt að 80% af kostnaðarverði skipanna, gegn tryggingum, sem hún metur gildar. Ég sé ekki annað en eftir að flutt hefur verið till. af hálfu ríkisstj., að sér skilst, um heimild til að veita slíka ábyrgð vegna fyrirtækis hér syðra, hljóti að þykja eðlilegt að samþykkja þessa till. En hér er um hið mesta nauðsynjamál að ræða fyrir Norðurland, þar sem mjög hefur skort hráefni, bæði til norðlenzkra síldarverksmiðja, a.m.k. á hluta af Norðurlandi, og einnig til norðlenzkra söltunarstöðva. Hvernig svo sem fer um þessa till., fær þetta mál að sjálfsögðu nánari athugun síðar hér á þingi.

Á þingskjölum eru nokkrar brtt., sem mér ber að mæla fyrir, en sumar þeirra voru fluttar við 2. umr. og teknar aftur þá í þeirri von, að þær hlytu nánari athugun í hv. fjvn., en eru nú endurfluttar við þessa umr.

Ég vil byrja á því að minnast á brtt. við 13. gr., sem ég hef flutt einn. Hún er um fjárveitingu til ferjubryggju í Heiðarhöfn á Langanesi, 20 þús. kr. og til vara 15 þús. kr. Hv. Alþingi hefur nú þegar samþ. nokkrar fjárveitingar til þess að koma upp ferjubryggjum svonefndum, flestum á Vestfjörðum, en einnig annars staðar, og virðist mér, að það væri mjög í samræmi við þær aðgerðir, að þessi litla upphæð yrði veitt til ferjubryggju í Heiðarhöfn. Sauðaneshreppur á Langanesi er ein af þeim sveitum hér á landi, þar sem byggð stendur nú mjög völtum fótum. Fjöldi jarða hefur þar farið í eyði á síðustu áratugum af ýmsum ástæðum, sem hér verða ekki raktar, m.a. vegna erfiðs árferðis af náttúrunnar völdum um tíma. Ein af þessum jörðum er jörðin Heiði á Langanesi, sem fyrrum var tvíbýli og mikill búskapur til lands og sjávar, og var þar þá reyndar vísir að þorpi. Nú hefur verið byggt nýbýli í Heiðarhöfn, og framtíð jarðarinnar veltur nokkuð á því, hvernig fer um þetta nýbýli. Þangað er nú kominn maður, sem fer mjög vel af stað með búskap sinn, atorkusamur maður, og á s.l. sumri var lítils háttar hafizt handa um að gera smábryggju í Heiðarhöfninni. Heiðarhöfnin er skjólgóð. Hins vegar er þar mjög aðgrunnt og ákaflega erfið aðstaða þar af þeim ástæðum til að lenda báti. Þarna þyrfti að koma upp ofurlitlum bryggjustúf, og það fé, sem var fyrir hendi í sumar sem leið til þeirra hluta, nægði ekki. Það þyrfti lítils háttar upphæð til að koma til viðbótar a.m.k. Þess vegna er þessi till. flutt.

Þá vil ég nefna brtt. við 14. gr. á þskj. 217, sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Norðurl. e., samþm. mínum. Þessa till. fluttum við við 2. umr. málsins, en fjvn. hefur því miður ekki tekið hana upp enn sem komið er, og höfum við því flutt hana aftur. Ég vil nú leyfa mér að gera nokkra grein fyrir málinu. Stjórn Rímnafélagsins ritaði Alþingi hinn 18. nóv. s.l. á þessa leið:

„Frá því á árinu 1965 hefur Rímnafélagið ár hvert notið 20 þús. kr. styrks úr ríkissjóði til útgáfu rímna, og færir stjórn félagsins Alþingi alúðarþakkir fyrir veittan stuðning. Síðan félagið var stofnað, hefur það gefið út 9 rímnaflokka, frá 11—31 örk hvert rit, og 3 aukarit um rímur. 10. rímnaflokkurinn, Brávallarímur í útgáfu dr. Björns K. Þórólfssonar, kemur út í janúarmánuði næsta ár. Er verið að vinna að Blómsturvallarímum eftir Jón Eggertsson klausturhaldara í útgáfu Gríms M. Helgasonar cand. mag. Auk þess gaf félagið út ljóðmæli Símonar Dalaskálds, úrval og sýnishorn úr rímum hans og ljóðum. Nálgast þetta að vera eitt rit á ári, síðan félagið var stofnað. Stjórn Rímnafélagsins hverju sinni hefur lagt kapp á að vanda til útgáfu rímna og ráðið færustu menn, sem völ hefur verið á, til að sjá um útgáfurnar, enda hefur verið unnið að þeim að hætti vísindamanna. Í sambandi við það, sem að framan segir, má benda á, að í viðtalstíma í Ríkisútvarpinu fyrir nokkrum dögum um íslenzku handritin nefndi forstöðumaður Handritastofnunarinnar, prófessor Einar Ól. Sveinsson, Rímnafélagið sem einn aðila að útgáfu íslenzkra handrita. Rímnafélaginu hefur verið mikill stuðningur að styrk þeim, sem Alþingi hefur veitt félaginu til útgáfu rímna, sérstaklega fyrstu árin, þegar útgáfukostnaði var frekar í hóf stillt en nú er. Hin síðari ár hefur prentun, pappír og annar útgáfukostnaður hækkað svo gífurlega, að stjórn félagsins sér fram á, að með slíkum fjárráðum sem félagið hefur haft hingað til verður útgáfustarfsemi þess svo hægfara, að ekki er viðunandi og nálægt stöðvun, enda hefur fjárþröng hamlað mjög starfsemi félagsins í seinni tíð. Hins vegar bíður félagsins mikið starf. Í handritasöfnum heima og erlendis liggja hátt á 2. þúsund rímnaflokkar í handritum og bíða birtingar. Virðist liggja nærri, að félag, sem til þess hefur verið stofnað að gefa handrit út í vísindalegum útgáfum og þykist hingað til hafa rækt það starf eins vel og efni hafa staðið til, fái aðstöðu til að gera rímnahandrit okkar almenningi aðgengilegri. Af því, sem að framan segir, leyfir undirrituð stjórn Rímnafélagsins sér að fara þess á leit, að hið háa Alþingi hækki á fjárl. fyrir næsta ár styrk til útgáfustarfsemi Rímnafélagsins úr 20 þús. kr. upp í 40 þús. kr.“

Við flm. höfum ekki farið fram á svo mikið, heldur aðeins að styrkurinn verði hækkaður úr 20 þús. kr. upp í 30 þús. kr., sem mundi víst ekki gera meira en að samsvara verðlagsbreytingum, sem orðið hafa á þessum tíma, og þykir mér raunar undarlegt, ef hv. Alþingi neitar þessari hækkun, þegar fram á svo lítið er farið, enda geri ég ráð fyrir því, að þegar til kemur, muni það ekki verða. Ég vil geta þess, að nokkrir alþm. hafa verið formenn þessa félagsskapar, og meðal þeirra skal ég nefna fyrrv. þm. Borgf., Pétur Ottesen, og fyrrv. þm. Árna Jörund Brynjólfsson, sem báðir voru meðal þeirra, sem unnu að stofnun þessa félagsskapar, enda áhugamenn um þjóðleg fræði. En þess má geta, að ástæðan til þess, að við hv. 1. þm. Norðurl. e. flytjum þessa till., er sú, að við höfum undanfarið haft þessa formennsku með höndum. Till. er sem sé engan veginn pólitísk, þó að svo vilji til, að hún sé flutt af tveim stjórnarandstöðu-þm. Mér þykir leitt, að hv. formaður fjvn. skuli ekki vera hér viðstaddur, — nú, er hann hér, — til þess að leggja eyrun við þessu, sem ég nú sagði. Ég efast ekki um, að hann hafi góðan vilja til að sinna þessu máli.

Þá vil ég næst minnast á brtt. við 22. gr. Þær eru þrjár, brtt., sem mér ber að mæla fyrir, við þá gr., á þskj. 208 og 221.

Ég vil þá fyrst minnast á það, að ég flyt ásamt hv. 2. þm. Austf. till. um að breyta nokkuð orðalagi 9. liðar í þessari gr., eins og hann er nú orðaður í frv., eins og það fyrir liggur, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Að heimila Ríkisútvarpinu að verja allt að 1.1 millj. kr. af tekjuafgangi sínum til að bæta hlustunarskilyrði á Austfjörðum og Norðurlandi.“ Brtt. okkar er um það, að takmörkunarákvæðið, allt að 1.1 millj., verði fellt niður og þá að sjálfsögðu einnig orðið endurveiting og að útvarpinu verði heimilt að verja tekjuafgangi sínum öllum til að bæta hlustunarskilyrði í þessum landshlutum.

En auk þess flytjum við aðra brtt. um nýjan lið á þessari grein, að heimilt sé að verja enn fremur til að bæta hlustunarskilyrði allt að 5 millj. kr. úr ríkissjóði, auk þess tekjuafgangs, sem kynni að verða hjá Ríkisútvarpinu. Þessum tveimur upphæðum er heimilt að verja til að bæta hlustunarskilyrðin. Það er víst óhætt að segja, að útvarpið, sem nú hefur starfað í rúmlega 3 áratugi, sé mjög vinsælt með þjóðinni. Og það er líka óhætt að segja það, að útbreiðsla útvarps er orðin mjög mikil. Flest heimili á landinu munu nú eiga útvarpsviðtæki. En það er ekki nóg að eiga viðtæki, því að sums staðar á landinu og að ég hygg einkum á Norður- og Norðausturlandi hefur það komið í ljós, ekki sízt nú í seinni tíð, að hlustunarskilyrði og þá sérstaklega á vissum tímum árs eru mjög slæm. Ég hef sjálfur verið vottur að því oftar en einu sinni, hvernig hlustunarskilyrðin geta verið á Norðausturlandi, og alveg sérstaklega nú í sumar og haust fékk ég reynslu af þessu þar á heimili mínu. Nú hefur nokkuð verið gert af hálfu Ríkisútvarpsins til þess að bæta skilyrðin undanfarin ár og varið til þess einhverju af tekjuafgangi útvarpsins samkv. heimild Alþingis. En samt sem áður er það svo, að s.l. sumar og haust var ástandið ekki betra en þetta, sem ég var að lýsa áðan, þar sem ég heyrði til útvarps, og er mér sagt, að svo sé allvíða á þessum slóðum enn þrátt fyrir þá viðleitni, sem uppi hefur verið til þess að bæta skilyrðin. Ég hef rætt þetta mál nokkuð við fróðan mann um þessi efni, og hann segir mér, að enn hafi útvarpið í hyggju frekari ráðstafanir á þessu sviði, og ef verði úr þeim áformum, sem nú séu fyrirhuguð, sé trúlegt, að mun meira fé þurfi til þess á næsta ári heldur en sú heimild, sem nú er í fjárlagafrv., gerir ráð fyrir. Ég hef enn fremur fengið þær upplýsingar og við flm., sem ég hafði ekki haft áður, að á þann hátt, sem reynt hefur verið að bæta hlustunarskilyrðin, næst ekki viðunandi árangur. Það verður ekki tryggt á þann hátt. En til er aðferð, sem mundi tryggja það, að alls staðar á landinu gætu verið viðunandi hlustunarskilyrði fyrir útvarp, og það er að koma upp sérstökum stöðvum, svokölluðum FM-stöðvum með sérstakri bylgjulengd, sem engin vandkvæði eru á að fá. En það er alldýrt að koma upp slíkum FM-stöðvum, sem mundu tryggja örugg hlustunarskilyrði útvarps, mundi kosta nokkrar, kannske margar millj. kr., og það er sér í lagi þess vegna, sem við flytjum till. um nýjan lið á 22. gr.

Í þessu sambandi langar mig að lokum til að segja þetta: Það mun mega heita afráðið, að nú á næstunni verði varið mörg hundruð millj. kr. af þjóðartekjum til að koma upp hér á landi sjónvarpsstöð og sjónvarpsviðtækjum á íslenzkum heimilum og þá sérstaklega, a.m.k. fyrst um sinn, í þéttbýlasta hluta landsins. Þarna er á ferðinni einn tízkuskatturinn enn, sem leggst á þessa lítilsmegandi þjóð, á sama tíma og henni liggur lifið á að byggja upp land sitt og treysta framtíð sína. Sumir halda þetta menningarauka. Aðrir gera sér í hugarlund, að þetta sé ráðið til að koma í veg fyrir afnot hins hvimleiða erlenda sjónvarps. Á árangur af þessu eru menn að vísu misjafnlega bjartsýnir, en við skulum vona, að hann verði eins og menn vonast eftir. En með sérstöku tilliti til þessa má varla minna vera en að þeim landshlutum, sem fjarlægastir eru höfuðstöðvum og lítið munu hafa af sjónvarpi að segja fyrst um sinn, verði tryggð viðunandi afnot af því útvarpi, sem nú er í landinu og fáir vilja án vera.

Nú er aðeins eftir að mæla fyrir einni brtt. við 22. gr., sem ég flyt ásamt hv. samþm. mínum, hv. 1. og hv. 5. þm. Norðurl. e., en það er till. um heimild til að taka lán, allt að 3 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar upphæðar í erlendri mynt, vegna Hálsavegar í Norður-Þingeyjarsýslu. Þessi till. var flutt við 2. umr., og ég mælti fyrir henni þá. Ég ætla ekki að bæta neinu við það, sem ég sagði þá um nauðsyn þeirrar vegagerðar, sem þarna er um að ræða, og viljum við flm. nú vænta þess, að þó að hv. fjvn. hafi enn ekkert um till. sagt, fái hún byr hér á hinu háa Alþingi.