12.10.1964
Sameinað þing: 0. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Aldursforseti (Ólafur Thors):

Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf:

„Björn Fr. Björnsson, 4. þm. Sunnl., hefur tilkynnt mér, að vegna dvalar erlendis geti hann ekki sótt fundi Alþingis fyrst um sinn. Samkv. beiðni hans er þess hér með óskað, að hv. 1. varaþm. Framsfl. í Suðurlandskjördæmi, Óskar Jónsson, Selfossi, verði kvaddur til að taka sæti á þinginu í forföllum hans.

Virðingarfyllst,

Eysteinn Jónsson.“

Enn fremur hefur mér borizt eftirfarandi bréf:

„Samkv. beiðni Björns Jónssonar, 4. þm. Norðurl. e., sem vegna anna heima fyrir getur ekki sinnt þingstörfum næstu vikur, leyfi ég mér, með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþingis, að óska þess, að 1. varamaður Alþb. í Norðurl. e., Arnór Sigurjónsson, taki á meðan sæti hans á Alþingi.

Lúðvík Jósefsson.“

Óskar Jónsson fulltrúi hefur tekið sæti hér á Alþingi áður og kjörbréf hans og kosning hefur þegar verið samþykkt. Tekur hann því sæti á þingi, ef enginn mælir því í gegn.

Síðara bréfinu fylgir kjörbréf Arnórs Sigurjónssonar ritstjóra, sem ekki hefur áður setið á þingi. Ber því að skipa þm. í kjördeildir, og ef enginn mælir því í gegn, mun ég hafa þann hátt á að lesa upp nöfn þm. í stafrófsröð og biðja skrifstofustjóra Alþingis að draga miða fyrir hönd þm., um leið og nöfn þeirra eru nefnd.

Aldursforseti kvaddi sér til aðstoðar sem fundarskrifara þá Ólaf Björnsson, 10. þm. Reykv., og Skúla Guðmundsson, 1. þm. Norðurl. v.

Þessu næst skiptust þm. í kjördeildir, og urðu í

1. kjördeild:

ÁÞ, BF, ÓskJ, DÓ, EÁ, EmJ, GilsG, GÍG, GÞG, HV, IngJ, JÁ, JP, LJÓs, MB, PÞ, RA, SI, SÓÓ, ÞÞ.

2. kjördeild:

AuA, BGr, BGuðm, BP, EggÞ, EOl, GeirG, GuðlG, GTh, HS, HermJ, JóhH, JÞ, KK, MÁM, ÓlJ, PS, SB, SE, SvJ.

3. kjördeild:

AG, ÁB, BBen, AS, EðS, EI, EystJ, GíslG, GunnG, HÁ, HB, IG, JSk, JR, MJ, ÓB, ÓTh, SÁ, SkG, ÞK.

Fyrir lá að rannsaka kjörbréf Arnórs Sigurjónssonar, 4. (vara)þm. Norðurl. e., og fékk 1. kjördeild það til athugunar, svo sem þingsköp mæla fyrir.

Var fundi frestað, meðan kjördeildin rannsakaði kjörbréfið, en að rannsókn þess lokinni var fundinum fram haldið.