21.12.1964
Sameinað þing: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

1. mál, fjárlög 1965

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til þess að ræða stuttlega till., sem hér liggja fyrir varðandi fjárstuðning ríkissjóðs við kaup á eftirlátnum eignum Davíðs Stefánssonar skálds frá Fagraskógi. Eins og kunnugt er, andaðist skáldið frá Fagraskógi 1. marz þ.á. Við lát hans varð meira en héraðsbrestur í Eyjafirði, þjóðin átti á bak að sjá einu ástsælasta og snjallasta skáldi sínu, og ljóst var, að skarð hans varð vandfyllt. Komið hefur fram mjög skýr vilji almennings um, að minning Davíðs Stefánssonar verði varðveitt á þann hátt, sem sæmir stöðu hans sem þjóðskálds. Skáldið gerði enga ráðstöfun eigna sinna eftir sinn dag, en eftirlátnar eigur hans voru miklar og mjög verðmætar. Var þar fyrst og fremst um að ræða íbúðarhús, verðmætt bókasafn, innanstokksmuni og listaverk. Söluverð allra eignanna var áætlað rúmlega 4 millj. kr., þar af var bókasafnið metið á 2.8 millj. og húsið á 1.3.

Bæjarstjórn Akureyrar sýndi strax áhuga á að gera það, sem í hennar valdi stæði, til þess að varðveizla minja Davíðs Stefánssonar mætti verða með fullum sóma, og leitaði eftir samningum við erfingja skáldsins um kaup á eignunum. Stóðu samningar yfir um alllangt skeið, og niðurstaðan varð sú að lokum, að bæjarstjórn ákvað að kaupa bókasafn Davíðs og erfingjarnir ákváðu að gefa innanstokksmuni skáldsins og skyldi bókasafninu og innanstokksmununum valinn staður í nýrri og myndarlegri bókhlöðubyggingu, sem nú er í smíðum á Akureyri. Hins vegar var algerlega horfið frá því ráði, að Akureyrarbær keypti Davíðshús við Bjarkarstíg og varðveitti það sem Davíðssafn. Var það samdóma álít bæjarfulltrúa, að til þess hefði bærinn ekki fjárhagslegt bolmagn.

Þessi ákvörðun um kaup og afhendingu bóka og innanstokksmuna Davíðs Stefánssonar var gerð heyrinkunn í byrjun nóvembermánaðar s.l. Sætti ákvörðunin mjög misjöfnun dómum í Akureyrarbæ og víðar um landið, og töldu ýmsir, að rétt hefði verið að varðveita allar eigur Davíðs, þ.e. hús og bækur og innanstokksmuni, og stofna þannig Davíðssafn í húsi skáldsins við Bjarkarstíg, þ.e. halda húsinu með öllum þeim ummerkjum sem voru, meðan Davíð lifði þar og starfaði. Af þessu hefur síðan sprottið hreyfing, sem á ítök á Akureyri og í Eyjafirði og mjög mikil raunar hér í Reykjavík og um allt land. Hreyfing þessi er í mótun, hún er enn það ung, að ekki er gott að segja, hvað úr henni kann að verða, en rétt er að gera sér grein fyrir tilgangi hennar. Tilgangur hreyfingarinnar er sá, að hús Davíðs Stefánssonar verði varðveitt með þeim ummerkjum, sem skáldið skildi við það, þegar það andaðist. Davíðssafn í Davíðshúsi, það er tilgangur hinnar nýju hreyfingar. Ég skal engu spá um það, hvað úr þessu kann að verða, en mér þykir ekki ólíklegt, að niðurstaða málsins verði í samræmi við stefnu þessarar hreyfingar, þ.e. að Davíðshús verði keypt og það varðveitt sem safn til minja um skáldið.

Mér hefur þótt rétt að rifja upp þessi atriði, vegna þess að fjvn. flytur till. um það á þskj. 201, að varið verði úr ríkissjóði 1 millj. kr. til amtsbókasafnsins á Akureyri í því skyni, að þar verði unnt að varðveita bókasafn Davíðs Stefánssonar í sérstökum salarkynnum, ef Akureyrarbær ákvæði að kaupa safnið. Ég er í sjálfu sér sammála þessari till., en eins og hún er orðuð, gefur hún ástæðu til að ætla, að ríkið muni ekki styðja annan aðila til kaupa varðveizlu eigna Davíðs Stefánssonar heldur en amtsbókasafnið og Akureyrarbæ, og í öðru lagi, að styrkurinn sé því bundinn, að bókasafnið verði geymt í amtsbókasafninu, þ.e. hinu nýja húsi, sem nú er í smíðum. Mér virðist því, að þetta orðalag geti útilokað það, að ríkið styrkti hina hugmyndina um varðveizlu Davíðseigna, þ.e. að Davíðshús verði keypt og varðveitt sem safn með öllum sínum einkennum, bókum og öðrum munum skáldsins. Þess vegna leyfi ég mér ásamt hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) og hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG) að flytja viðaukatill., sem var hugsuð til þess að tryggja, að þessi fjárupphæð gengi allt eins til Davíðssafnsins, hvort heldur Akureyrarbær væri einn aðili að kaupum minjanna og varðveitti þær í amtsbókasafninu eða önnur víðtækari samtök yrðu mynduð og Davíðshús sjálft keypt ásamt bókum og innanstokksmunum. Tilgangurinn með viðaukatill. var sem sagt að tryggja þetta. Nú hefur hæstv. menntmrh. fyrr í umræðunni látið svo um mælt, að ríkisstj. telji þetta framlag jafnt koma til greina, hvort sem Akureyrarbær einn verði aðili að Davíðssafni eða víðtækari samtök komi til með að standa að safninu og hvort sem húsið verði keypt eða ekki í trausti þess, að ríkisstj. sé fús til að styðja að því, að Davíðssafn megi rísa, með fjárframlagi sínu, á Akureyri og ef til vill í Davíðshúsi sjálfu, ef svo skyldi semjast, þá fellst ég á að taka viðaukatill. á þskj. 208 til baka, enda má segja, að tilgangi hennar sé náð.