09.11.1964
Efri deild: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

58. mál, innlent lán

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mér dettur ekki í hug að rengja, að það sé rétt, sem hæstv. fjmrh, segir, að sá háttur hafi jafnan verið á hafður eða með einni undantekningu, að ríkisstj. úthlutaði lánum ein, þessum svokölluðu vörukaupalánum, án atbeina Alþingis.

En ég verð að telja þetta fordæmi, sem ekki sé gott að fara eftir: Ég held, að við ættum að sameinast um það að hverfa frá því fyrirkomulagi, af því að áreiðanlega er það ekki í samræmi við anda okkar stjórnarskrár, sem einmitt leggur mjög ríkt á um það, að fjárveitingavaldið sé í höndum Alþingis. Og ég geri ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. sé mér sammála um það, að þetta séu í raun og veru ekki æskilegir stjórnarhættir, að ríkisstj. hafi þannig óbundnar hendur um lánveitingar, og ég man eftir því einmitt í sambandi við brezka lánið svokallaða, að þá var einmitt af hálfu stjórnarandstöðunnar gerð aths. við það fyrirkomulag, að ríkisstj. ætti að hafa á hendi úthlutun þess. Og það gefur auga leið, að af stjórnarandstöðu hálfu hlýtur það alltaf og ævinlega að verða tortryggilegt, að ríkisstj. hafi slíkt vald í hendi sér, jafnvel þó að í samráði við fjvn. sé.

Þessa aths. vil ég aðeins gera og í annan stað þakka hæstv. fjmrh. fyrir þá nánari grg., sem hann gaf hér í sinni síðari ræðu um það, til hverra framkvæmda láni þessu ætti að verja, og þegar það er nú svona ákveðið eins og hann gat um, þá sé ég ekki, að það væri neinn skaði skeður, þótt það væri berlega tekið fram í sjálfri lagagreininni.