09.11.1964
Efri deild: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

4. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar í brbl. um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum, en brbl. þessi voru gefin út 10. sept. s.l. Frv. hefur farið gegnum hv. Nd. shlj. Ástæðan til þess, að þessi brbl. voru gefin út, er sú, að nýstofnað kaupfélag á Selfossi hafði keypt sláturhús ásamt frystihúsi uf S. Ó. Ólafsson & Co. og sótti um slátrunarleyfi til framleiðsluráðs, en var synjað á þeim forsendum, að það væri ekki heimilt að veita tveimur samvinnufélögum slátrunarleyfi á sama stað.

Nú var það svo, að fyrirtækið S. Ó. Ólafsson & Co. fékk alltaf slátrunarleyfi umyrðalaust hjá framleiðsluráðinu, enda hafði fyrirtækið nýlega byggt sláturhús, sem uppfyllti allar kröfur heilbrigðisyfirvalda, og var engin aths. við það gerð. En fram hjá þessari lagagrein taldi framleiðsluráð, að ekki væri létt að komast, og taldi, að nóg hefði verið að slíku gert áður og mál væri til þess komið að halda sig við bókstaf l., og get ég út af fyrir sig alveg á það fallizt, að það sé eðlilegt að halda sig við bókstaf laganna í þessu tilfelli eins og öðrum, þegar um framkvæmd laga er að ræða. En til þess að framleiðsluráð standi ekki í neinum vandræðum út af slíku sem þessu, er hér lagt til, að aftan við 14. gr. 1. komi ný mgr., svo hljóðandi:

„Leyfi til slátrunar skal veita öllum félögum og einstaklingum, sem slátrunarleyfi höfðu haustið 1963, svo og þeim, sem eignazt hafa sláturhús þessara aðila og tekið við rekstri þeirra, enda fullnægi húsin þeim kröfum um búnað, sem gerðar eru í lögum.“

Það er gert ráð fyrir því, að þeir, sem höfðu slátrunarleyfi 1963 og uppfylla öll skilyrði, geti fengið slátrunarleyfi áfram, og hygg ég, að það sé alveg í samræmi við starfshætti og vilja framleiðsluráðsins, enda hefði framleiðsluráði aldrei dottið í hug að taka slátrunarleyfi af fyrri eiganda þessa sláturhúss á Selfossi. En með því að meina hinum nýja eiganda, sem hafði keypt sláturhúsið í góðri trú, um slátrunarleyfi, var verið að gera þessa eign verðlitla og mjög óeðlilegt að hindra það, að samvinnufélag, sem var stofnað með 300 félagsmönnum í héraðinu, fengi minni rétt en kaupmannsverzlunin. Og þannig hefur hv. Nd. litið á málið, að lagasetning þessi væri eðlileg og þá ekki sízt vegna þess, að þetta sláturhús, sem um ræðir, uppfyllir allar kröfur, sem gerðar eru til sláturhúsa. En því miður verður að segja það eins og er, að ákaflega mörg sláturhús víðs vegar um land gera það ekki og eru starfrækt með undanþágu af illri nauðsyn. En að því er vitanlega unnið, að sláturhúsin verði bætt, þannig að þau uppfylli fyllstu kröfur.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., en legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.