09.11.1964
Efri deild: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

4. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það eru aðeins örlitlar aths. í sambandi við þetta mál. — Forsaga málsins er sú, eins og hæstv. landbrh. gerði grein fyrir. að nýstofnað samvinnufélag í Árnessýslu hafði keypt sláturhús á Selfossi án þess að gá að því, að samkv. gildandi l. gat það ekki fengið leyfi til að nota það, eða eins og hæstv. landbrh. orðaði það sjálfur, það keypti í góðri trú, sem verður nú varla skilið, þar sem lögin eru alveg ljós um þetta efni. En hæstv. landbrh. fannst af þessum ástæðum rétt að gefa út brbl. til að veita þessu nýstofnaða félagi slátrunarleyfi, og eins og þessi mál öli hafa þróazt á undanförnum árum, hef ég ekki neitt við það að athuga, að sá tilgangur náist og þetta félag fái slátrunarleyfi. En mér virðist, að málsmeðferðin og sá háttur, sem hér hefur verið á hafður, gefi tilefni til nokkurra aths. Og mér virðist einnig, að sú hv. nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, mætti gjarnan athuga, hvort ekki er hægt með einhverjum öðrum hætti að ná þeim tilgangi, sem hæstv. landbrh. hefur gert grein fyrir að sé með þessu máli.

Í forsendum brbl., sem gefin voru út í haust, stendur, að forseti Íslands geri kunnugt: „Landbrh. hefur tjáð mér, að framleiðsluráð landbúnaðarins hafi synjað nýstofnuðu samvinnufélagi, sem eignazt hefur og tekið við rekstri sláturhúss, um leyfi til slátrunar, þó að fyrri eigandi hafi haft leyfi til slíkrar starfsemi. Að þessu leyti,“ stendur svo, „nýtur samvinnufélag ekki sama réttar og kaupmaður í sömu aðstöðu, jafnvel þótt félagsmenn þess skipti hundruðum.“

Í þessari setningu virðist mér vera fólgin forsenda útgáfu brbl. En þegar svo greinin sjálf er lesin, þá kemur í ljós, að í henni eru ekki fólgin aukin réttindi til handa samvinnufélögum sérstaklega, heldur segir þar, að veita skuli slátrunarleyfi þeim félögum og einstaklingum, sem hafi haft slátrunarleyfi haustið 1963, svo og þeim, sem höfðu eignazt sláturhús þessara aðila eða tekið við rekstri þeirra, enda fullnægi húsin kröfum um búnað, sem gerðar eru í l. Hér er í rauninni þess vegna ekki verið að skapa jafnrétti til handa samvinnufélögunum í þessu efni, því að eftir sem áður gildir það ákvæði l., að aðeins eitt samvinnufélag skuli fá slátrunarleyfi á hverju svæði. Það gildir eftir sem áður, nema nýtt samvinnufélag sé svo heppið að geta fengið til kaups sláturhús, sem hafi verið notuð á haustinu 1963. Mér virðist þess vegna, að hér sé frekar verið að tryggja rétt þeirra, sem hafa sláturhús, sem störfuðu á árinu 1963, heldur en samvinnufélaga eða kaupfélaga yfirleitt. Enda kom það fram í ræðu hæstv. landbrh., þegar hann sagði, að með þeim hætti, sem framleiðsluráð hafði á samkv. ákvæðum gildandi laga að neita um slátrunarleyfi, væri verið að gera eign þessa verðlausa. Mér virðist þess vegna, að það sé ástæða til að kanna, hvort ekki má ná yfirlýstum tilgangi þessara laga með öðrum hætti en þeim, sem hér er gert ráð fyrir, og í samræmi við þær forsendur, sem eru fyrir brbl. og ég vísaði til áðan, nefnilega þeim að skapa samvinnufélögum fullkomið jafnrétti við aðra í þessum efnum og afnema þá hreinlega þá takmörkun sem hefur verið á um það, að aðeins eitt samvinnufélag megi starfa á hverju svæði. Þetta virðist vera mjög til athugunar, þegar svo er komið málum eins og þeim er komið. Sannleikurinn er nefnilega sá, að tilgangur þessara ákvæða hefur ekki náðst. Tilgangur þeirra mun upprunalega hafa verið sá að takmarka fjölda slátrunaraðila í landinu, og á því virtist mönnum vera mikil nauðsyn til þess að geta haft fullkomnari aðstöðu á hverjum stað.

Nú eru, eins og fram kom hjá hæstv. ráðh., slátrunarstaðir á landinu afar margir, svo margir, að aðeins lítill hluti þeirra fullnægir í raun og veru þeim kröfum, sem til þessara staða eru gerðar. Þess vegna virðist mér, að þetta ákvæði, sem samvinnumenn sjálfir áttu þátt í að setja á sinum tíma, settu það sem einhvers konar fórn í þessum tilgangi, það hafi ekki náð tilgangi sínum og megi þess vegna athuga, hvort það megi ekki ná tilgangi þessara laga með því hreinlega að endurskoða það atriði.

Ég vil í þessu sambandi minna á það, að fyrir nokkrum árum flutti hv. 2. þm. Norðurl. v. frv. til breyt. á l. um framleiðsluráð, frv., sem var flutt í sama tilgangi og sagt er hér, til þess að tryggja jafnrétti samvinnufélaganna. Með því frv. var afnumið ákvæðið um, að aðeins eitt samvinnufélag skyldi slátra í hverju héraði. Bæði framleiðsluráð landbúnaðarins og eins yfirdýralæknir mæltu gegn því þá, að það frv. yrði samþykkt, af því að þeir lögðu enn áherzlu á það, að slátrunarstöðunum mætti ekki fjölga, eða óæskilegt væri, að þeim fjölgaði um of, og var talið nóg af slíku komið. Þetta frv. var þess vegna á sínum tíma ekki útrætt, en dagaði uppi hér á hv. Alþingi.

Mér virðist, að þetta mál sé þess eðlis, að það gefi fullt tilefni til þess, að sú hv. nefnd, sem fær það til meðferðar, athugi, hvernig þessum málum öllum er háttað, hún geri sér grein fyrir því, hvort henni virðist, að þau ákvæði, sem hér er verið að reyna að halda, nefnilega ákvæðin um það að leyfa ekki slátrun nema einu samvinnufélagi á hverju félagssvæði, nema því aðeins að þau geti fengið keypt sláturhús af öðrum, hafi náð tilgangi sínum og hvort beri að halda áfram að hafa það í lögum eða á hvern hátt annan megi koma þessu fyrir á viðunandi hátt.

En ég skal taka það fram aftur, sem, ég tók fram í upphafi, að mér virðist það ekki í sjálfu sér óeðlilegt, að kaupfélagið Höfn á Selfossi eftir öllum atvikum hafi slátrunarleyfi. Það er aðeins formið á þessu, eins og ég hef hér gert að umræðuefni, sem ég á erfitt með að sætta mig við, og finnst að full ástæða væri til að gera á þessu ýtarlegri skoðun.

Ég vil svo að lokum benda hv. nefnd á eitt atriði, sem mér virðist hafa farið fram hjá hv. neðrideildarmönnum. Mér virðist vera annaðhvort prentvilla eða nokkur galli á í þessu frv., þar sem gert er ráð fyrir, að efnisgrein þess sé viðbót við 14. gr. l. um framleiðsluráð landbúnaðarins, vegna þess að sú grein fjallar um óskyld efni. Það er 10. gr. þessara laga, sem fjallar um leyfi til slátrunar, ef ég hef tekið rétt eftir, og ég vildi vekja athygli hv. n. á að athuga þetta.