09.11.1964
Efri deild: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

4. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hv. síðasti ræðumaður tók það fram, að hann teldi það út af fyrir sig eðlilegt, að þetta nýstofnaða félag, Kaupfélagið Höfn, fengi eftir atvikum slátrunarleyfi, sem byggist þá vitanlega aðallega á því, að það hefur tekið við af öðrum aðila, sem hafði slátrunarleyfi áður. Annars væri ekkert eðlilegra, að það hefði slátrunarleyfi, heldur en t.d. Kaupfélag Árnesinga og Kaupfélagið Þór eða Kaupfélag Rangæinga. Það er aðeins vegna þess, að þarna var slátrun áður og aðstaða til slátrunar og þetta nýstofnaða félag hefur keypt þessar byggingar.

Það er út af fyrir sig ekki nema eðlilegt, að þetta frv. verði athugað nánar, hvort það form eða orðalag, sem á því er, er það hentugasta eða það bezta, og ég teldi eðlilegt, að þetta frv. væri sent framleiðsluráði landbúnaðarins til umsagnar, hvort framleiðsluráðið vildi benda á einhverja aðra leið til að ná þessum tilgangi, sem við erum sammála um að eigi eftir atvikum að ná. Það er þetta, sem ég hef sízt af öllu á móti.

En það er eitt, sem ég held að ég viti, og það er það, að framleiðsluráð landbúnaðarins mælir ekki með því, að slátrunarstöðum verði fjölgað. Það mælir gegn því, og þetta frv. undirstrikar það, ati slátrunarstöðum skuli ekki fjölgað. En út í það tel ég ekki ástæðu til að fara nánar. Ég tel eðlilegt, að hv. landbn., sem fær þetta mál, sendi það til umsagnar framleiðsluráðsins. Ef framleiðsluráð hefði einhverjar till. fram að færa til þess að koma málinu í betra eða hentugra form, þá skal ekki standa á mér að samþykkja það út af fyrir sig.

Um það, að það sé vitnað hér til skakkrar greinar í l., það má vel vera, að það sé um prentvillu að ræða, en síðustu lög eru frá árinu 1959, og það getur vel verið, að þarna sé um prentvillu að ræða, og þá vitanlega verður að leiðrétta það. Ég hef ekki lögin hér hjá mér, og það er ekki nema gott, að á það hefur verið bent, ef hér er um skekkju að ræða. Annars tel ég ekki ástæðu til að segja meira um þetta, en vænti þess, að frv. nái fram að ganga, annaðhvort óbreytt eða þá með orðalagsbreytingum, sem mættu teljast vera til bóta að athuguðu máli.