19.10.1964
Neðri deild: 3. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

3. mál, launaskattur

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. S.l. vetur voru til athugunar í félmrn. ýmsar leiðir til fjáröflunar fyrir húsnæðismálastjórn. Þá var leitað umsagnar og ábendingar húsnæðismálastjórnar í þessu sambandi. En þær till. og ábendingar bárust það seint, að ekki var unnt að leggja þær fyrir síðasta þing. Tveir nýir tekjustofnar voru þó áður ákveðnir af rn. og lagðir fyrir Alþingi og hlutu þar staðfestingu, þ.e.a.s. hækkun skyldusparnaðar úr 6% í 15% og 25% framlag vátryggingarfélaga af ráðstöfunarfé þeirra. Ábendingar húsnæðismálastjórnar um viðbótarfjáröflun voru þó síðar til athugunar og þar á meðal þessi leið, sem hér er nú hugsað að fara um launaskatt. Þegar ríkisstj. síðar, í apríl og maí s.l., átti viðræður við fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands um leiðir til stöðvunar verðbólgu og kjarabætur fyrir verkafólk, komu húsnæðismálin mjög til umr., og varð niðurstaðan af þeim viðræðum m.a. sú, að tekin voru upp í samkomulagið eftirfarandi ákvæði, með leyfi hæstv. forseta:

„Lagður verði á launagreiðendur almennur launaskattur að upphæð 1% af greiddum vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum öðrum en tekjum af landbúnaði. Renni skatturinn til byggingarsjóðs ríkisins sem stofnfjárframlag.“

Í beinu framhaldi af þessu samkomulagi voru svo gefin út brbl. í lok júnímánaðar, þar sem ákveðið var að leggja þennan skatt á. M.a. var sú leið farin að gera þetta með brbl. vegna þess, að það var talið æskilegt, að hægt væri að ná tekjum af hálfu árinu 1964 á þennan hátt, enda gengu l. í gildi 30. júní s.l. Þetta frv., sem hér liggur fyrir nú, er því borið fram til staðfestingar á þessum brbl.

Aðrar leiðir til tekjuöflunar, sem hafa verið til athugunar, eru. ekki alveg tilbúnar frá hendi rn., en frv. í þá átt verður væntanlega lagt fram hér innan tíðar og sömuleiðis frv, um breytingu á húsnæðismálastjórnarl., sem er afleiðing af þessum nýju tekjuöflunarleiðum, og nokkrar breytingar aðrar, sem á þeim l. er hugsað að gera. Ég skal því leiða hjá mér að ræða þau mál almennt, fyrr en frv. um húsnæðismálastjórn verður lagt hér fyrir, en eingöngu í þessum fáu orðum, sem ég segi hér nú, ræða um launaskattinn. Ég skal þá rekja frv. lítillega grein fyrir grein.

Í 1. gr. frv. er falinn meginkjarni þessa máls, þ.e. að leggja skuli á launagreiðendur almennan launaskatt að fjárhæð 1% af greiddum vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum, öðrum en teljum af landbúnaði, svo sem ákveðið er í l. Skattur þessi rennur til byggingarsjóðs ríkisins sem stofnfjárframlag.

Í 2. gr. er svo nánar skilgreint, hverjir skuli skattskyldir samkv. l., en það eru allir launagreiðendur, einstaklingar, félög, sjóðir, stofnanir, sveitarfélög og stofnanir þeirra, ríkissjóður og ríkisstofnanir, erlendir verktakar og aðrir þeir aðilar, sem greiða laun eða hvers konar þóknun fyrir starf. Skattskyldan nær til allra tegunda launa, hverju nafni sem nefnast, hvort sem þau eru goldin í peningum eða í öðru formi. Undanþegin skattskyldu eru laun eða þóknun fyrir störf við landbúnað, jafnt vinna bóndans sjálfs og þeirra, sem hann greiðir laun, enn fremur vinnulaun vegna jarðræktarframkvæmda og byggingarframkvæmda á jörðum. Þar sem byggingarsjóðurinn nær ekki til sveitabýla eða bygginga þar, þótti ekki rétt að taka landbúnaðarstarfsemina að þessu leyti eða þau laun, sem bændur greiða sjálfum sér og öðrum, með í þessu sambandi.

Þá er í 3. gr. ákvæði um, hvernig skatturinn skuli greiddur. Það er hugsað að greiða hann ársfjórðungslega innan 15 daga eftir lok hvers ársfjórðungs af þeim launum, sem hafa verið greidd á ársfjórðungnum. Síðar er svo aftur gert ráð fyrir, að árlega verði þessar greiðslur gerðar upp og skattstjóri tekinn með í það starf. Hann gerir upp í fyrsta lagi launaskatt af launum þeirra, sem hafa atvinnu af eigin atvinnurekstri, launaskatt af launum, sem greidd eru í öðru en peningum, og launaskatt þeirra gjaldenda, sem ekki greiða samtals hærri laun til annarra en sjálfs sín en nemi 1/2 millj. kr. Innheimtumenn ríkisins skulu taka við þessum skatti, en skattstjórar skulu rannsaka, hvort framtalinn skattur aðila sé við hæfi eftir skattframtölum þeirra og öðrum upplýsingum, sem þeir kunna að hafa fengið í hendur.

Frekar er raunar ekki ástæða til að taka fram um efni sjálfs frv. Það er ofur einfalt, eins og hv. þdm. sjá, en nokkur framkvæmdaatriði eru tekin með í síðustu greinum frv. Launaskatturinn er frádráttarbær sem rekstrarútgjöld, að því leyti sem hann er ákvarðaður af launum, sem teljast frádráttarbær víð ákvörðun tekjuskatts og tekjuútsvars. Síðar er gert ráð fyrir að setja nánari ákvæði um framkvæmd málsins í reglugerð.

Það er gert ráð fyrir því, að þessi skattur gefi húsnæðismálastjórn um það bil 50 millj. kr. tekjur á ári á ársgrundvelli, vitaskuld allmiklu minna þann helming ársins 1964, sem þau gilda fyrir, en síðan nokkuð hækkandi á árunum 1966 og 1967, eftir því sem gert er ráð fyrir, að greidd laun vaxi á þessum árum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál miklu frekar. Þetta er einn liðurinn í því samkomulagi, sem gert var við Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands s.l. vor, og einn liðurinn í því að afla húsnæðismálastjórn þeirra tekna, sem nauðsynlegar eru til að standa við það samkomulag.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.