19.10.1964
Neðri deild: 3. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

3. mál, launaskattur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðh. drap á, er þetta frv. flutt til staðfestingar á brbl. og einn liður í samkomulagi um kjaramálin eða launamálin í landinu o.fl., sem varð í samningum á milli atvinnurekenda og verkalýðsfélaganna á öðru leitinu og ríkisstj. á hinu leitinu.

Það er ekki langt síðan mjög var haft á oddinum af hálfu þeirra, sem hafa forustuna núna í ríkisstj. landsins, að það væri ósvinna, ef ríkisstj. ættu þátt í því að semja eða gera samkomulag við félagssamtök í landinu um löggjafaratriði. Slíkir samningar ættu ekki að eiga sér stað og væru í raun og veru brot á þingræðinu og lýðræðinu. Stjórnarvöldin ættu að fara sínu fram, gera sér grein fyrir því, hvað þau teldu hyggilegt að gera, og ekki semja um það við einn eða neinn, heldur beita sér síðan fyrir því á Alþingi. Samningar við almannasamtök í landinu varðandi löggjafarmálefni væru óhæfa, sem ekki ætti að eiga sér stað.

Ég hef fyrir mitt leyti aldrei verið samþykkur þessari gagnrýni, sem flutt var á sínum tíma af mikilli hörku af hendi Sjálfstfl. og sérstaklega var beint að Framsfl., Alþfl. og Alþb., þessum þremur flokkum, á dögum vinstri stjórnarinnar. Ég hef aldrei verið þessari gagnrýni samþykkur eða við í Framsfl., eins og oft hefur komið fram. Og það hlýtur þess vegna að vekja ánægju hjá okkur, þegar við sjáum, að forusta Sjálfstfl, hefur orðið í reyndinni að falla algerlega frá þessu óeðlilega sjónarmiði og þar með strika yfir og ámerkja alla þá miklu gagnrýni, sem hún stóð fyrir í þessa stefnu og gerði að þungu ádeiluatriði á þessa þrjá stjórnmálaflokka, sem ég nefndi, og þá stjórn, sem þeir mynduðu saman. En sú stjórn leitaðist við að ná samningum eða samkomulagi við almannasamtökin í landinu og tókst það stundum, en ekki alltaf. En nú er þessi þunga gagnrýni gerð marklaus.

Það er ástæða til að benda á, að með þessu er í raun og veru að þessu leyti til a.m.k. brotið blað í sögu þessarar hæstv. ríkisstj., því að hún taldi sig ætla að fylgja fast fram þessari stefnu Sjálfstfl., að hafa ekki samráð við almannasamtökin um það, hvað hún ætlaði sér að gera eða fyrir hverju hún vildi beita sér. Í mörg ár hefur ríkisstj. reynt að framkvæma þá stefnu að leita ekki samkomulags um höfuðúrræði, heldur fara sínu fram.

Nú ætla ég ekki að efna hér til langra umr. um þessi efni og fer því ákaflega fljótt yfir sögu. En það væri fjarstæða, ef því væri sleppt í þessu sambandi að minna á, að viðreisnarlöggjöfin 1960 var sjálf á þessu byggð. Hún var sett fram án samráðs við almannasamtökin. Hún var miðuð við að koma fram stórfelldri kjaraskerðingu í landinu án samkomulags við stéttasamtökin. Það átti að færa til stórfé, a.m.k. 1000 millj., sem fjártilfærslan var í sjálfri fyrstu viðreisnarlöggjöfinni. Þetta hlaut að koma fram að mestu leyti sem verðhækkunaráhrif í hagkerfinu, en því var lýst yfir, að þetta ætti að eiga sér stað, án þess að kaupgjald hækkaði. Menn áttu að taka þetta á sig, og þetta átti líka að eiga sér stað, án þess að tekjur bænda ykjust frá því, sem þær voru þá. Þessi löggjöf var byggð á því, að um löggjafarmálefni skyldi ekki hafa samstarf við almannasamtökin. Þar skyldi ríkisvaldið fara sínu fram og annað væri ósvinna.

Þessi löggjöf var sett. En við bentum á það ýmsir þá strax, að þessi löggjöf gæti alls ekki náð tilgangi sínum. Með henni væri gengið svo langt í því að magna dýrtíð í landinu, að af því mundi leiða stórkostleg vandræði langa hríð. Og kjaraskerðingin, sem af þessu hlyti að leiða, væri miklu meiri en svo, að hugsanlegt væri, að menn tækju hana á sig mótaðgerðalaust. Enda varð reynslan þessi, eins og kunnugt er, að 1961 urðu samningar milli atvinnurekenda og launþegasamtakanna í landinu um nokkrar kauphækkanir, sem þó voru ekki nægilegar til þess að vega upp kjaraskerðingu viðreisnarlöggjafarinnar.

Þessir samningar voru ekki gerðir í samráði við ríkisstj., því að hennar stefna var enn sú m.a. að skipta sér ekki af kjarasamningum. Það væri ekki hennar verk. En þegar búið var að ná þessu samkomulagi, sem var mjög hóflegt á alla lund og mjög auðvelt fyrir atvinnurekendur að standa undir, þá greip hæstv. ríkisstj. til sinna ráða og framkvæmdi nýja gengislækkun árið 1961, og það átti að vera til þess að sýna, að það hefði verið gengið of langt í kjarasamningunum. Það átti einnig að vera til þess að sýna, að það væri ekki heppilegt fyrir almannasamtökin í landinu að gera annað en það, sem stjórnin vildi, því að stjórnin mundi þá gera sínar gagnráðstafanir, sem í þessu falli áttu að vera gengislækkun. Með þessu átti að kenna almannasamtökunum í landinu að beygja sig fyrir vilja ríkisstj., án þess að við þau væri nokkuð samið eða við þau væri nokkuð talað yfirleitt, nema í blöðunum og svo á ræðum í Alþingi og annars staðar. Með þessu taldi ríkisstj. sig hafa sigrað, því að teknar voru til baka og vel það þær kjarabætur, sem samningarnir hljóðuðu um og menn töldu lífsnauðsynlegt að fá. Að því leyti mátti segja, að ríkisstj.. hefði sigrað í þessari orrustu árið 1961, gengislækkunarorrustu nr. 2.

En þetta var sannkallaður Pyrrhusarsigur, ef slíkt er hægt að segja um nokkuð af þessu tagi, af þeirri einföldu ástæðu, að með þessari fruntalegu, nýju gengislækkun, sem var algerlega ástæðulaus frá efnahagslegu sjónarmiði, tapaði stjórnin stórkostlega í almenningsálitinu, og það sem verra var, að menn misstu alveg trúna á, að stjórninni mundi nokkru sinni auðnast að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum, mundi nokkru sinni auðnast að ná jafnvægi í efnahagsmálum landsins með þeim aðferðum, sem hún notaði.

Traustið fór forgörðum á hinu nýja efnahagskerfi ríkisstj., að því leyti sem um slíkt var að ræða fyrstu missirin eftir viðreisnarlöggjöfina, og síðan hefur hæstv. ríkisstj., eins og kunnugt er, bókstaflega ekki ráðið við neitt, sem sé ekki síðan hún greip til þessa úrræðis í baráttunni við almannasamtökin. Það varð því sannkallaður Pyrrhusarsigur, sem stjórnin vann með gengislækkun nr. 2.

Síðan hélt hæstv. ríkisstj. stríðinu áfram við almannasamtökin til þess að reyna að halda kaupgetunni niðri með því að láta setíð dýrtíðina vaxa meira en kaupgjaldið hækkaði, og gekk þetta svo í þófi þangað til eftir kosningarnar 1963. Þá ætlaði stjórnin, sem kunnugt er, að láta til skarar skríða með frv, sínu á Alþingi um lögbindingu kaupgjaldsins. Nú taldi ríkisstj. það augljóst mál, að hún mundi ekki ráða við gang málanna eftir gömlu leiðinni, þ.e. að láta gengislækkanir koma sem hefndarráðstafanir ofan í kauphækkanir. Í málflutningi ríkisstj. var lögð á það höfuðáherzla, að í raun og veru væri ekkert að í efnahagsmálum landsins annað en það, að kaupið hefði

hækkað of mikið. Þó lá það fyrir, að kaupið hafði hækkað miklu minna en dýrtíðin, t.d. frá 1958, og kaupmáttur tímakaupsins var minni 1963 en 1958. Samt sem áður taldi ríkisstj. það í raun og veru eitt að, að kaupgjaldið hefði hækkað of mikið í landinu, og nú átti að ráða bót á þessu með lögbindingunni. Það átti að gera við lekastaðinn á viðreisninni með því að lögbinda kaupið, eins og það var þá, og setti ríkisstj. það ekki einu sinni fyrir sig, að þegar hún lagði fram frv. um lögbindinguna á kaupinu, var nýbúið að hækka mestallt hærra kaupið í landinu, án þess að lægra kaupið hefði nokkuð verið hreyft til samræmis.

Úr þessu varð stórorrusta á Alþingi og vitanlega stórorrusta við launþegasamtökin, því að þau vildu ekki láta taka af sér samningsréttinn með lögum, og endaði þessi orrusta með því, sem kunnugt er, að ríkisstj. bognaði í þessari aðför að launþegasamtökunum og hætti við að berja fram á Alþingi lögbindingarfrv. eftir langa og harða viðureign.

Komu hér vitanlega til áhrif launþegasamtakanna í þessum efnum, þar sem fólkinu auðnaðist að standa saman innan þeirra þrátt fyrir pólitískan ágreining. Og einnig auðnaðist stjórnarandstöðunni að hjálpa til með andstöðu sinni við löggjöfina á Alþingi. En niðurstaðan varð sem sagt sú, að stjórnin varð að láta undan, eins og almenningsálitið í landinu var orðið eftir rúmlega viku viðureign á Alþingi. Ríkisstj. tapaði því þessari orrustu.

Þannig stóðu málin, þegar Alþingi hætti störfum s.l. vor. Stjórnin hafði nú í nálega 5 ár haldið uppi þessari styrjöld, sem ég var að lýsa, fyrst með viðreisnarlöggjöfinni, síðan með gengislækkuninni 1961, enn fremur í smærri orrustum og loks í stórorrustunni 1963, lögbindingarorrustunni, þar sem átti að ná tökum á þessum málum í eitt skipti fyrir öll og ná þeim úr höndum stéttarfélaganna. En þeirri orrustu tapaði stjórnin, og þannig stóðu málin, þegar þingið hætti störfum s.l. vor.

En það hafði fleira komið fram hér á Alþingi varðandi þessi efni, sem ástæða er til að geta um í sambandi við frv. það, sem hér liggur fyrir, og þá — ég vil segja heppilegu breytingu, sem varð á afstöðu ríkisstj. í framhaldi af þessari stórstyrjöld, sem búið var að heyja. Það hafði verið bent á það hér á Alþingi í fyrravetur mjög greinilega og hvað eftir annað í umr. um mörg málefni, að það mundi aldrei verða mögulegt að koma saman kjarasamningum framar að óbreyttri stjórnarstefnu. Það voru tvö atriði, sem sérstaklega var lögð áherzla á í því sambandi, þótt margt annað hlyti þar að koma til greina. Annað var, að það var alveg augljóst mál, að ef ríkisstj. ætlaði að halda fast við það, sem hún hafði gert öll þessi ár, að banna vísitöluuppbót á kaupgjald, mundu aldrei nást framar frjálsir verkalýðssamningar nema þá eftir gífurleg átök. Og hvers vegna ekki? Ekki vegna þess, að menn elski í sjálfu sér ákaflega mikið vísitöluna og allt það, sem er í sambandi við hana, heldur vegna hins, að menn voru búnir að sjá það eftir margra ára reynslu, að vísitölubannið, þ.e.a.s. bannið við því að setja vísitöluákvæði inn í kjarasamninga, notfærði hæstv. ríkisstj. sér þannig, að hún lét ævinlega verðlagið hækka meira en kaupgjaldið, notaði bannið sem hagstjórnartæki til þess að draga úr kaupgetunni og reyna þannig eftir þeirri leið að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum. M.ö.o.: hún hélt alltaf áfram meginstefnunni frá 1960, að viðreisnarlöggjöfin var sett, því að stefnan hefur allan þennan tíma verið að mestu byggð á þessu, að draga úr kaupgetunni með því að láta verðlagið hækka meira en kaupgjaldið, m.ö.o. að kaupgjaldið yrði að hækka minna en verðlagið til þess að ná þannig inndrættinum á kaupmættinum.

Þetta var ríkisstj. búin að leika öll þessi ár, og það var augljóst mál, og því sást, að það mundi ekki verða mögulegt að ná samkomulagi um launamálin öðruvísi en brotið yrði í blað og samið um vísitöluhreyfingar á kaupgjaldinu. M.ö.o.: það mundu aldrei nást samningar, nema stjórnin léti það vopn úr sinni hendi, sem í vísitölubanninu fólst. Þetta var bent á hér mjög skörulega af mörgum þm. úr stjórnarandstöðunni í allan fyrravetur, og hér voru frv. í þinginu, sem gerðu ráð fyrir því, að þetta vísitölubann yrði afnumið. En þeim frv. vildi hæstv. ríkisstj. ekkert sinna, vegna þess að hún var vafalaust ekki búin að gera það upp við sig þá, hvort hún yrði að beygja sig í þessu máli eða ekki. Hún var vafalaust ekki búin að gera það upp við sig þá, hvort hún væri nógu sterk til þess að beygja verkalýðssamtökin, og þess vegna vildi hún ekki í fyrravetur gera neitt í þessu máli á hv. Alþingi.

Hitt meginatriðið, sem ég sé ástæðu til að minnast á einmitt í sambandi við þetta frv. um launaskattinn, voru húsnæðismálin. Á undanförnum árum hefur verið minnt á þau rækilega hér á hv. Alþingi og ekki sízt í fyrravetur, og hæstv. stjórn hefur verið beðin að gera grein fyrir því, hvernig hún hugsaði sér, að hægt væri að leysa kjaramálin, eins og búið væri að koma húsnæðismálunum á hennar vegum, — hvernig hún gæti hugsað sér að leysa þau, þegar litil íbúð kostaði orðið 600–700 þús. kr. og menn ættu að taka lán til þess að byggja íbúðirnar með 8—10% vöxtum, þannig að vextirnir af slíki íbúð einni saman næmu orðið bróðurpartinum af verkamannslaunum, — hvernig þeir gætu hugsað sér, að það væri mögulegt að leysa kjaramálin að óbreyttri stefnu í húsnæðismálum.

Við þessu var alltaf steinhljóð í allan fyrravetur, nema að því leyti að einstöku sinnum komu hér upp ráðherrar og einhverjir úr stjórnarliðinu til þess að lýsa yfir, að þessar aðvaranir væru ábyrgðarlaust tal stjórnarandstöðunnar, og allar till. um að lækka vexti t.d. til þess að reyna að leysa þennan hnút voru taldar bera vott um ábyrgðarleysi. Slíkt væri ekki með nokkru hugsanlegu móti mögulegt. Vaxtapólitíkin yrði að vera óbreytt, því að hún væri sjálfur meginkjarni í stjórnarstefnunni. Á hitt var aldrei minnzt, hvernig í ósköpunum ætti að leysa kjaramálin, þegar svona væri komið. Á það var aldrei minnzt, aðeins haldið fram, að till. stjórnarandstæðinga um vaxtalækkanir og aðrar ráðstafanir í húsnæðismálum væru óábyrg yfirboð.

Um þessi efni sagði ég m.a. í einum umr., sem urðu hér í fyrravetur, að „verði húsnæðismálastefnunni ekki einnig alveg gerbreytt, verða þessi mál (þ.e.a.s. kjaramálin) áfram óleysanleg með öllu.“ Ég nefni þessa setningu rétt sem dæmi. Þannig var málflutningur okkar í fyrravetur og veturinn þar áður. Við vöruðum sem sé elns greinilega og við höfðum vit á við því, að þessi mál stefndu alveg í vegginn, stefndu í alveg óleysanlegan hnút.

Það hefur svo nú skeð, eftir að Alþingi hætti störfum í vor, þ.e. í þinghléinu, að stjórnin hefur í vissum efnum séð sitt óvænna. Hún hefur ekki treyst sér til þess að halda áfram með lögbindinguna, sem hún varð að hverfa frá í fyrravetur, og hún hefur einnig rekið sig á það, sem búið var að margsegja hér fyrir í mörg missiri, að það reyndist ekki hægt að ná nokkrum samningum um kjaramálin nema breyta stefnunni í þessum tveim atriðum, varðandi vísitöluna og íbúðalánavextina og íbúðalánin. Vísitölubannið hlaut að verða að fara vegna þess, hvernig stjórnin hafði notfært sér það, gert það að hagstjórnartæki á þá lund, sem ég var að lýsa. Og einnig varð að breyta til í húsnæðismálunum. Og þá varð það þannig, að það varð að lækka vextina úr 8% niður í 4% til þess að ná saman endunum í kjarasamningunum.

Það hefði áreiðanlega verið skemmtilegra fyrir hæstv. ríkisstj. að taka til greina skynsamlegar till. og vinsamlegar ábendingar um þessi efni á sjálfri löggjafarsamkomunni á undanförnum missirum og sérstaklega í fyrravetur en að halda á þessum málum eins og hún hefur gert, eða a.m.k. heppilegra fyrir hana, því að nú liggja þessi mál þannig fyrir, að það, sem ríkisstj. var búin að kalla hið versta ábyrgðarleysi hér á hv. Alþingi, eins og það t.d. að lækka vextina, reyndist allt í einu hægt að gera, þegar stjórnin stóð frammi fyrir verkfalli að öðrum kosti. Þá reyndist þetta allt í einu framkvæmanlegt, að lækka vextina úr 8% niður í 4%. Þá reyndist þetta framkvæmanlegt í einu vetfangi, og þá líklega meðfram fyrir það, að stjórninni hefur fundizt vera farið að hrikta í ráðherrastólunum og óvænlegt að halda áfram sem horfði. Skal ég ekki fara lengra út í þetta núna, vegna þess að þau mál öll koma hér vafalaust til umr. oftar en einu sinni og sérstaklega þegar lagður verður fram sá þáttur af samkomulaginu frá í vor, sem beinlínis fjallar um breyt. á löggjöfinni um íbúðalánakerfið.

Hitt er svo annað mál, að það er augljóst og þarf ég ekki heldur að fara lengra út í það hér, að þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert ráð fyrir í húsnæðismálunum og hún var knúin til að fallast á, þessar ráðstafanir munu alls ekki verða nægilegar til þess að leysa húsnæðismálin, miðað við það ástand, sem þar er nú orðið. En í rétta átt gengur þetta, sem ákveðið var í vor, og er ástæða til að fagna þeim árangri, sem orðið hefur þar af langri baráttu.

Sérstök ástæða er til að fagna því, að þetta er fyrsta verulega látið, sem á hæstv. ríkisstj. hefur orðið í vaxtamálinu, í því að breyta þeirri vaxtapólitík, sem er óframkvæmanleg miðað við okkar þjóðfélagsástæður. Og nú er ekki hugsanlegt, að hæstv. ríkisstj. geti komizt hjá því að lækka vexti á stofnlánum til landbúnaðarins og fleiri stofnlánum í kjölfar þess, sem nú hefur verið ákveðið. Og ég er alveg sannfærður um, að það kemur að því, að það verður líka að breyta almennu stefnunni í vaxtamálum. Þarna hefur verið höggvið skarð í þann múr, sem vaxtapólitíkin hefur hlaðið, og mun þetta verða aðeins byrjunin. Menn munu eiga eftir að reka sig á, að það er ekki aðeins í sambandi við húsnæðismálin og kjarasamningana, sem hinir háu vextir gera erfitt fyrir, heldur er því einnig til að dreifa í nálega hverri grein þjóðarbúskaparins. Við gætum tekið landbúnaðinn, við gætum tekið sjávarútveginn, við gætum tekið iðnaðinn. En það mun ég ekki gera í sambandi við þetta frv.

Ég fagna því, að þetta skarð hefur verið höggvið í múrinn. Það þurfti verkalýðsfélögin, það þurfti launþegasamtökin með verkfallsmöguleikann í baksýn til þess að reka á þetta smiðshöggið. Það er gott, að það var gert. En það sýndi sig þá líka, að þegar þetta lá fyrir, þá var hægt að gera þetta, enda þótt okkur væri sagt annað hér árum saman á hv. Alþingi.

Um skattinn sjálfan, launaskattinn, vil ég segja: Hann er, eins og kemur fram í frv. mjög greinilega, skattur á fyrirtækin, en ekki skattur á launþega. Það eru fyrirtækin, sem eiga að greiða þennan skatt, enda þótt hann sé miðaður við heildarlaunagreiðslur í fyrirtækjunum. Það er gert til þess að fá einhvern mælikvarða fyrir því, hvað fyrirtækin eiga að borga. Og þetta kemur að sjálfsögðu eins og hver annar kostnaðarliður í rekstri fyrirtækjanna, eins og launagreiðslur og skattgreiðslur þeirra og annað fleira. Og þar af leiðandi kemur þetta vitanlega smátt og smátt inn í verðlagið. Inn í verðlagið kemur þetta á einhverja lund, annaðhvort í hækkuðu verði eða þá að verðið verður minna lækkað hjá fyrirtækjunum í framleiðslu þeirra en ella væri hægt. Og við þessu er ekkert að segja. Þetta er eðlilegt, að um þetta fari að þessu leyti eins og hvern annan kostnaðarlið.

En þegar við íhugum þetta, þá get ég ekki stillt mig um að benda á, hversu allt öðruvísi er búið að bændum landsins í þessu tilliti. Það er lagður á þá skattur fyrir lánasjóði þeirra, og skatturinn á að renna í lánasjóðina, en þeim er ætlað að borga þennan skatt af kaupi sínu. Það er kirfilega tekið fram, að það megi ekki taka þetta inn í verðlagið, heldur skuli bændur borga þetta af kaupi því, sem þeim er ætlað fyrir sína vinnu. Kemur hér enn ein ástæða fyrir því, að það misrétti, sem bændur búa við í þessu tilliti, verður að leiðrétta með því að afnema þennan skatt á þá, því að hann er hliðstæður því, eins og hann er settur í löggjöfina, að launþegunum væri ætlað að borga skatt í íbúðalánasjóðina af sínu kaupi. Það er þeim ekki ætlað að gera samkv. þessu frv., og er það vel, heldur er hér um skatt á fyrirtækin að ræða.

Ég vil svo segja, að ég tel, eins og ástatt er um þörfina í húsnæðismálum og allar aðstæður eru varðandi ríkisbúskapinn, rétt að mæla með þessu frv. Ég hef bent á, að ég tel, að í þeim ráðstöfunum, sem samið var um varðandi húsnæðismálin, sé ekki fullnægjandi lausn á þeim. En eins og ástatt er um þörfina í húsnæðismálunum og allar aðstæður eru varðandi ríkisbúskapinn, þá álít ég hyggilegt að samþykkja þetta frv. hæstv. ríkisstj.

Að lokum vil ég aðeins minna á og tel gott, að það komi líka fram, að því var lýst yfir af núv. hæstv. ríkisstj., að hún vildi beita sér fyrir því ötullega að gera skattakerfið í landinu einfaldara en það hefði verið og viðaminna. En það er eins og fleira hjá hæstv. ríkisstj., sem gengið hefur alveg öfugt við það, sem lýst var yfir að ætti að verða. Skattakerfið í landinu er sífellt að verða flóknara og flóknara með ofsahraða. Það er alltaf verið að finna út nýjar og nýjar leiðir til þess að ná inn nýjum og nýjum sköttum, og væri það langur listi, ef upp væri talið, sem komið hefur þar til greina á síðustu missirum. Þessi launaskattur eða launagreiðsluskattur ú atvinnurekendur er nú það nýjasta af nálinni, nýtt kerfi til viðbótar við það, sam áður var. Nýtt kerfi var sett upp til þess að innheimta af bændum fé til lánasjóðanna. Það hefur verið innleiddur ríkisábyrgðaskattur, nýr, og fjöldamargir aðrir skattar hafa verið samþykktir, þannig að kerfið er að verða flóknara og flóknara. í stað þess að það átti að verða einfaldara.

Afstaða mín til málsins er sú, að ég tel skynsamlegt, eins og allt er í pottinn búið, að þetta frv. verði samþykkt, og mun fylgja því.