19.10.1964
Neðri deild: 3. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

3. mál, launaskattur

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er raunar lítið, sem ég hef að segja um afstöðu hv. 1. þm. Austf. til frv., því að hann sagði það í lok sinnar ræðu, að hann væri frv. samþykkur og mælti með því, svo að út af fyrir sig gaf það mér ekki tilefni til að standa hér upp. En án þess að ég vilji fara út í nokkrar verulegar umr. um afstöðu ríkisstj. og þeirra flokka, sem að henni standa, til þeirra efnahagsmálaráðstafanna, sem gerðar hafa verið, þá get ég þó ekki látið vera að fara nokkrum orðum um þá kenningu hv. þm., sem mjög kom fram í hans ræðu nú.

Hann sagði eitthvað á þá leið, að ríkisstj. hefði haldið því fram, að samkomulag við launþegasamtökin væri ósvinna. Þetta er rangt. Þetta hefur ríkisstj. aldrei sagt. Hitt er annað mál, að samkomulag við launþegana getur verið með ýmsu móti. Ég tel það hiklaust rétt og sjálfsagt að hafa samráð við launþegasamtökin í landinu í mörgum tilfellum. En þegar til þess kemur að meta, hvaða ráðstafanir sé nauðsynlegt að gera í efnahagsmálum, þá er það Alþ., sem á að hafa úrslitavaldið. Það er þetta, sem ég held að sé kjarninn í málinu, og hv. þm. virtist rugla þessu tvennu saman. Efnahagslögin, sem sett voru í ársbyrjun 1960, voru ekki sett gegn almannasamtökunum í landinu, það er fjarri því. Þau voru sett af nauðsyn, vegna þess að allt var að kollsteypast og fara á hliðina. Það varð að gera þessar ráðstafanir. Alveg nákvæmlega sama gerðist 1961, þegar gjaldeyrisvarasjóðurinn var rétt að byrja að verða til, þá var ekki hægt að komast hjá því að gera þær ráðstafanir, sem gerðar voru.

Um lögbindingu kaupgjalds 1963, í árslokin, sem hv. þm. virðist telja að ríkisstj. hefði ætlað sér að setja, er það að segja, að það frv., sem borið var fram til stöðvunar, var eingöngu til mjög takmarkaðs tíma eða tveggja mánaða, til þess að ríkisstj. og allir aðilar að þessum málum fengju tækifæri til þess að ræða málin, án þess að til verkfalla þyrfti að koma. Ég held, að kenningar hv. þm. um það, að allar efnahagsráðstafanir ríkisstj. séu gerðar í blóra við almannasamtökin í landinu, séu fullkomlega rangar. Það hefur aldrei verið stefna ríkisstj. að ganga fram hjá þessum samtökum, heldur einungis að meta, hvenær nauðsynlegt væri að gera vissar efnahagsráðstafanir, og láta það mat vera á valdi ríkisstj. og Alþingis.

Um húsnæðismálin sagði hv. 1. þm. Austf., að ekkert hefði verið gert. Þetta er líka rangt. Það var á síðasta þingi borið fram frv. og meira að segja tvö í þeirri veru að útvega húsnæðismálastjórn rífari tekjur. Það voru lögin um hækkun skyldusparnaðarins, og það voru lögin um að skylda vátryggingafélögin til að leggja vissan hluta af sínu ráðstöfunarfé fram til kaupa á húsnæðismálastjórnarbréfum. Samtímis var í gangi athugun á öðrum leiðum, viðbótarleiðum, til þess að auka það fé, sem húsnæðismálastjórn gæti fengið til ráðstöfunar. Þar var m.a. til umræðu þetta frv. eða till., sem gengu í svipaða átt og þetta frv., sem hér liggur nú fyrir. Og það voru fleiri till., sem voru þá í athugun.

Hv. þm. sagði, að ríkisstj. hefði verið knúin með verkfallshótun til að gera þessar ráðstafanir, sem hér er um að ræða. Hvenær kom sú verkfallshótun fram? Ég vissi ekki betur en þessar till., sem fram koma í samningnum, sem gerður var 5. júní s.l. , væru gerðar með fullu samkomulagi vinnuveitenda, Alþýðusambands Íslands og ríkisstj., án þess að til nokkurra hótana af nokkru tagi þyrfti að koma. Þessar umr. fóru fram vegna þess, að Alþýðusamband Íslands óskaði eftir því, að það yrði freistað að rinna leið, sem kæmi í veg fyrir sífellda víxlhækkun kaupgjalds og verðlags, sem hefur hrjáð þjóðfélagið á undanförnum árum. Ríkisstj. tók strax vel undir að freista þess að ná samkomulagi um þetta, og um þetta var hin prýðilegasta samvinna, án þess að til nokkurra verkfallshótana þyrfti að koma.

Þá sagði hv. þm., að nú hefði verið hægt að lækka vextina úr 8% niður í 4 1/2 með vísitöluálagi. Vextirnir með vísitöluálagi hjá húsnæðismálastjórn voru áður ekki 8%, heldur 5 1/2, svo að það má segja, að lækkunin hafi verið úr 5 1/2% og niður í 4% á þeim hluta, sem veittur var með vísitölutryggingu. Það er það rétta í málinu. En um leið var svo ákveðið, að allir vextirnir skyldu reiknaðir á þennan hátt og lánin veitt öll með vísitölutryggingunni. Ég held þess vegna, að aðfinnslur hv. þm., sem raunar eru ekki aðfinnslur við frv., heldur gagnrýni á vinnubrögðum ríkisstj., séu meira og minna út í hött, enda kemur það greinilega fram í því, að hv. þm. mælir með frv. eins og það er.

Ég skal svo ekki fara frekar út í að ræða um efnahagsmálin almennt og það, sem gerzt hefur í þeim í tíð þessarar stjórnar. Það tilheyrir ekki þessu frv. sérstaklega, og ég skal því láta það bíða, þangað til það á við.