19.10.1964
Neðri deild: 3. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

3. mál, launaskattur

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal ekki halda langa ræðu hér. Þetta er eitt af þessum leiðinlegu skattafrv. Það er alltaf verið að fjölga þessum sköttum, gera þá flóknari í framkvæmd, öðru hverju a.m.k. Þennan skatt á að borga fjórum sinnum á ári. Þetta er nýr skattur. Þessi skattur er í raun og veru afleiðing af vaxtahækkuninni 1960. Þá voru vextirnir stórhækkaðir, verðlagið einnig með óþarflega mikilli gengislækkun. Ég hélt því þá fram, að það væri rétt að borga sparifjáreigendum lægri vexti og fella verðgildi krónunnar þeim mun minna. Ég er ekki á móti því og tel það í raun og veru nauðsynlegt og hefði átt að vera búið að gera það fyrr að lækka vexti af því fé, sem lánað er til húsbygginga, og skipuleggja þau mál miklu betur en gert hefur verið. Ég er ekki heldur á móti því, að lánin séu hækkuð, því að það er nauðsynlegt, eins og verðlagi er háttað í landinu. En ég er ekki hrifinn af þeirri aðferð, sem er notuð til þess að afla þessa fjár, og ég vildi nota þetta tækifæri við 1. umr. til að benda á það, að eins og frv. er nú, er innheimtan óframkvæmanleg að heita má.

Það á að innheimta þetta ársfjórðungslega, og það eru lagðar sektir við, ef það er ekki greitt 15 dögum eftir að ársfjórðungurinn er liðinn. Og nú vildi ég leyfa mér að benda hv. þm. á það, að t.d. í útgerðinni er greiðsludagur í lok marz, þ.e. á miðri vertíð. Mér skilst, að það eigi að greiða þetta af öllum hlutum. Næsti gjalddagi er í júnílok. Það er á síldarvertíðinni miðri. Hvernig í ósköpunum eiga menn að gera þetta upp? Þetta er nefnilega hliðstætt og kvígufrv. Jónasar Péturssonar, að það er óframkvæmanlegt eins og það er. Það yrði að miða við vertíðarlok.

Ég vil enn fremur leyfa mér að benda á það í þessu sambandi, að það er í raun og veru furðulegt að ætla að skattleggja hlutinn. Það er komið fram frv. um að hækka orlofsféð um 1%. Það er tekið af hlutum. Við skulum bara athuga, hvernig þetta verkar. Nú er það viðurkennt, að bátar, sem eru keyptir fyrir svona 12 millj. kr., þurfa að hafa 10 millj. kr. brúttótekjur. Þá hefur skipstjórinn 800 þús. kr. Svo á hann að fá orlof, 7% á allt saman, eða 56 þús. kr. ofan á þessa smáupphæð. Og hvaðan er þetta tekið? Þetta er tekið af útgerðinni. Nú vitum við það allir, að margir skipstjórar hafa það há laun, að þeir þurfa að taka sér frí og ferðast til útlanda til að eyða einhverju af þessu og vilja ekki vinna allt árið. Þeir segja, að það sé allt tekið af sér í útgjöldum. Svo rís útgerðin ekki undir þessum útgjöldum, sem á henni hvíla. Væri nú ekki gáfulegra að hafa skattana á þessum mönnum í hófi, það er sjálfsagt að borga þeim vel, en stilla kaupi þeirra eitthvað í hóf, en þrautpína ekki útgerðina með þessum vitleysislegu útgjöldum? Það er engin smáupphæð fyrir bát, sem aflar fyrir 10 millj. kr. Hann greiðir 5 millj. kr. í vinnulaun og 7% orlof á allt saman. Þetta er engin smáupphæð. Upphaflega var það svo, að orlof var miðað við dagkaup. Víð skulum láta vera, þótt orlof sé greitt af eftirvinnukaupi. En að taka hlut sjómanna, hvað hár sem hann er, það er vitleysa að skylda útgerðarmenn til að greiða af honum orlof. Þetta kemur þeim að litlum notum, þetta fer mestallt í skatta aftur. Þá verður þetta hringrás. Svo eru hér um bil öll ríkisútgjöldin tekin af almenningi. Það verður hringrás. Útgerðin þarf að fá styrk frá ríkinu,, eins og þurfti s.l. ár, styrk eða ekki styrk, hvað sem það er kallað. Það var lagður söluskattur á vegna átgerðarinnar og frystihúsanna, og þetta er svo tekið af neyzluvörum almennings. Þetta er nefnilega dálítið skopleg hringrás.

Ég held því fram, að það hefði verið hægt að fara aðrar leiðir en þessa til þess að lækka vexti af lánum til húsabygginga. Meira að segja væri það skaplegra og skárra að leggja einhverja vissa upphæð beint fram úr ríkissjóði til þess að styrkja þennan sjóð og gera honum kleift að lækka vextina. Önnur leið er til, — það er sópað stórum upphæðum árlega af bæjarfélögum og fyrirtækjum í atvinnuleysistryggingasjóð, — að láta t.d. vextina af þessum sjóði ganga til þess að lækka vexti af lánum til húsbyggjenda. Ég er ekki hrifinn af því að skella þessu á atvinnufyrirtæki, sem sum eru að sligast af rekstrarfjárskorti og þurfa að fá aðstoð til að geta starfað.

Ég vildi leyfa mér að benda á þessi atriði, áður en þetta frv. fer til nefndar, því að þótt ég sé ekki hrifinn af þeirri leið, sem notuð er til að lækka þessa vexti og bæta kjör húsbyggjenda, sem var full þörf, þá vildi ég leyfa mér að benda á, að eins og frv. er, er það óframkvæmanlegt gagnvart t.d. útgerðinni.

Ráðh. sá, sem hefur með þessi mál að gera, benti á það, að í raun og veru væri þarna um 1 1/2% vaxtalækkun að ræða, því að það kæmi vísitala nú á öll lánin, en hefði verið bara á hluta þeirra áður. Ég skal ekki mótmæla þessu. En ég vildi þá benda á, að það er ekki lítil kvöð, sem lögð er á þessa lántakendur, vísitöluáhættan, og satt að segja, ef ég væri að byggja hús og þyrfti að taka lán, þá held ég, að ég vildi heldur borga 2% hærri vexti og hafa ekki þessa vísitöluáhættu, heldur en fá vextina fyrir 4% og taka vísitöluáhættuna. Þessi vísitölukvöð, sem fylgir nú öllum lánunum, er áhættusöm fyrir þann, sem lánið tekur, vægast sagt, og má vera, að það verði engar kjarabætur fyrir þá, sem lánin taka, einmitt vegna þess að vísitöluáhætta fylgir. En það er nýr skattur lagður á atvinnurekendur, því er ekki að neita, og ég er sannfærður um það, að margir þeirra hafa engin ráð með að borga hana öðruvísi en vanrækja þá einhverjar aðrar greiðslur, sem mun þá eftir einhverjum leiðum verða jafnað niður á aðra landsmenn.