02.02.1965
Neðri deild: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

3. mál, launaskattur

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 3, um launaskatt. N. hefur orðið sammála um að mæla með frv. með lítils háttar breytingum á 3. gr. þess. Er brtt. n. á þskj. 219 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. komi nýr málsliður, svo hljóðandi:

Launaskattur af aflahlut greiddum í peningum greiðist þó hálfsárslega innan 15 daga eftir 30. júní og 31. desember ár hvert.“

Varðandi þessa brtt. vil ég taka fram; að hér er ekki um neina grundvallarbreytingu að ræða, heldur telur n., að framkvæmd l. verði gerð auðveldari, ef till. verður samþykkt. Vitað er, að bæði á vetrarvertíð og eins við síldveiðarnar að sumrinu og haustinu til fara greiðslur til sjómanna oft fram að verulegu leyti fjarri heimahöfn bátsins eða bátanna, þar sem reikningshald þeirra er. Ef launaskattur ætti að gerast upp ársfjórðungslega af launum sjómanna, eins og 3. gr. frv. gerir ráð fyrir, yrði í mörgum tilfelaum um hreina ágizkun að ræða, af hvaða útborguðum launum skattinn ætti að greiða. Útgerð hagar svo til hér á landi, eins og kunnugt er, að um tvö veiðitímabil er að ræða, vetrarveiðar og sumar- og haustveiðar. N. telur, að t.d. 30. júní ætti sá aðilinn, sem skattinn á að greiða, að vera búinn að fá í sínar hendur öll gögn um launagreiðslur á vetrarvertíð og því geta gert skattinn upp af raunverulega greiddum launum þetta úthaldstímabil. Sama gildir um sumar- og haustveiðarnar. Um áramót ætti að liggja fyrir, hvaða laun sjómönnum hafa raunverulega verið greidd síðari hluta ársins, og skatturinn því að greiðast af þeirri upphæð, sem hann ber að greiða samkv. þessum lögum, en ekki af ágizkunarupphæð. Af þessari ástæðu er þessi brtt. flutt.

Frv. þetta er til staðfestingar brbl., sem út voru gefin hinn 30. júní s.l. og til fullnægingar einu atriði júnísamkomulagsins svonefnda. N. sendi frv. því ekki til umsagnar. En heilbr.- og félmn. barst bréf varðandi málið frá stjórn Landssambands vörubifreiðastjóra. Er bréfið dagsett 21. okt. s.l. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hinn 30. júní s.l. voru sett brbl. um launaskatt, er renna skal til byggingarsjóðs ríkisins. Skatturinn skal lagður á launagreiðslur, þ.e. atvinnurekendur. Frv. til 1. um staðfestingu brbl. þessara hefur nú verið lagt fram á Alþingi, og var frv. að lokinni 1. umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn. Nd. Nú þegar hefur risið ágreiningur um, hver greiða skuli launaskatt þennan af launum sjálfseignarvörubifreiðastjóra. Vegagerð ríkisins hefur t.d. neitað að borga skattinn af kaupi þeirra sjálfseignarvörubifreiðastjóra, er hjá henni starfa og haft mótmæli Landssambands vörubifreiðastjóra í þessu efni að engu. Telur vegagerðin, að sjálfseignarvörubifreiðastjórar eigi sjálfir að greiða skattinn. Félmn. hefur staðfest þennan skilning vegagerðarinnar og vísað þar til reglugerðarákvæðis, sem segir, að í vafatilfellum skuli eftir því fara, hver borgi slysatryggingaiðgjöld vegna vinnunnar til Tryggingastofnunar ríkisins. Landssamband vörubifreiðastjóra telur út af fyrir sig hæpið, að reglugerðarákvæði þetta eigi stoð í lögum. Ökumenn borga yfirleitt sjálfir slysatryggingaiðgjöld sín, þótt enginn vafi leiki á því, að þeir séu launþegar. Miklu eðlilegra hefði verið að miða við það, hver greiðir iðgjald til atvinnuleysistryggingasjóðs, en það gera vinnuveitendur sjálfseignarvörubifreiðastjóra.

Landssambandi vörubifreiðastjóra leyfir sér hér með að fara þess eindregið á leit við hv. heilbr.- og félmn., að hún beiti sér fyrir breytingu á 2. gr. 1. í þá átt, að skilmerkilega verði fram tekið, að þeir, sem hafa sjálfseignarvörubifreiðastjóra í þjónustu sinni og greiða þeim laun, skuli einnig borga launaskattinn.

Til frekari áréttingar skal þetta tekið fram: Sjálfseignarvörubifreiðastjórar hafa enga launþega í sinni þjónustu og kaupgjaldið er fyrir þeirra eigin vinnu, er miðað við Dagsbrúnartaxta, en að auki taka þeir leigugjald fyrir vörubifreiðina. Sjálfseignarvörubifreiðastjórar mynda stéttarfélög og gera samninga við vinnuveitendur um kaup og kjör. Þeir eru félagsbundnir innan Alþýðusambands Íslands. Þegar haft er í huga, að brbl. um launaskatt eru grundvölluð á samningi milli ríkisstj. og Alþýðusambandsins, en með þeim samningi átti m.a. að tryggja það, að skatturinn yrði ekki borinn uppi af launþegum, verður það að teljast mjög ranglátt, ef sjálfseignarvörubifreiðastjórar ættu einir launþega í landinu að greiða skatt þennan.“

Þetta var bréf Landssambands vörubifreiðastjóra. Þetta atriði var sérstaklega rætt við ráðuneytisstjóra félmrn. Hann upplýsti, að samkv. reglugerð, sem út hefði verið gefin í sambandi við framkvæmd þessara laga, væri gengið út frá því, að þeir, sem greiddu tryggingaiðgjöld til Tryggingastofnunar ríkisins, skyldu einnig greiða umræddan launaskatt. Taldi heilbr.- og félmn. ekki ástæðu til að athuguðu máli að flytja brtt. varðandi þetta atriði.

Þá kom fram í n. fsp. um, hvort ákvæði 3. mgr. 2. gr. frv. mundi einnig ná til greiðslu launa í sláturhúsum og mjólkurbúum. En þessi mgr. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Undanþegin skattskyldu eru laun eða þóknun fyrir störf við landbúnað, jafnt vinnu bóndans sjálfs og þeirra, sem hann greiðir laun, enn fremur vinnulaun vegna jarðræktarframkvæmda og byggingarframkvæmda á bújörð.“

Samkv. upplýsingum ráðuneytisstjóra félmrn. er ekki gert ráð fyrir í umræddri reglugerð, að svo sé, að laun við mjólkurbúið og sláturhúsið séu undanþegin, og taldi meiri hl. n. ekki heldur að athuguðu máli ástæðu til að flytja brtt. varðandi þetta atriði.

Eftir að n. hafði skilað álíti, sem birt er á þskj. 218, barst henni bréf, dags. 22. des. s.l. , frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Er bréf L.Í.Ú. svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Leyfum oss hér með að senda yður eftirfarandi ályktun varðandi launaskatt, er samþykkt var á aðalfundi vorum, sem haldinn var nú fyrir skömmu:

„Aðalfundur L.Í.Ú. mótmælir harðlega launaskattinum, sem lagður var á laun með brbl. s.l. sumar, þar sem hann verkar bæði til lækkunar fiskverðs og hækkar allan innlendan tilkostnað útgerðarinnar, svo og raskar hlutaskiptum útgerðarinnar um 1/2%. Felur fundurinn stjórn samtakanna að fá skattinn felldan niður eða a.m.k. að hann verði ekki reiknaður af öðru en kauptryggingarupphæðum hjá bátum og tilsvarandi upphæðum hjá togurum.“

Nú hafa samtök sjómanna sagt upp gildandi kjarasamningum við útgerðarmenn í verstöðvum á Suðvesturlandi á skipum þeim, sem veiðar stunda m.a. með línu og netum. Hafa fulltrúar sjómanna borið fram verulegar kröfur til hækkunar. Komi til einhverra hækkana á þessum samningum, þá teljum vér mjög óeðlilegt, að útvegsmenn verði látnir greiða launaskatt þann, sem samið var um í júnísamkomulaginu svonefnda, þar sem skilyrði þess samkomulags voru, að engar beinar kauphækkanir yrðu.“

Þetta var bréf Landssambands ísl. útvegsmanna. Ég vil taka fram í þessu sambandi, að einnig þetta atriði var mjög ýtarlega rætt í heilbr.- og félmn., þó ekki á þeim grundvelli að fella alveg niður launaskatt af tekjum sjómanna, heldur að miða skattinn við kauptryggingu hvers og eins skipverja. Ræddi ég þetta atriði við hæstv. heilbr.- og félmrh., sem framkvæmd þessara laga heyrir undir. Taldi hann, að slík breyting mundi verða talin brot á því samkomulagi, sem gert var 5. júní s.l. milli atvinnurekenda og ríkisstj. annars vegar og fulltrúa launþegasamtakanna hins vegar, auk þess sem það mundi skerða nokkuð tekjur útlánakerfis húsnæðismálastjórnar, en þangað á launaskatturinn að renna óskertur, eins og kunnugt er. Að fengnum þessum upplýsingum hæstv. félmrh. taldi meiri hl. n. sig ekki hafa aðstöðu til að flytja brtt. varðandi þetta atriði, sem hlýtur að skoðast sem eitt af grundvallaratriðum júnísamkomulagsins. En ég vil taka fram, að ef samkomulag getur orðið milli umræddra samningsaðila um að breyta þessu ákvæði í þá átt, að launaskattur yrði aðeins greiddur af kauptryggingu, en ekki aflahlut, hef ég ástæðu til þess að ætla, að um það geti einnig orðið samkomulag í heilbr.- og félmn.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði samþ. við þessa umr. með þeirri breytingu, sem fram kemur á þskj. 219.