02.02.1965
Neðri deild: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

3. mál, launaskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal engu við það bæta, sem hv. frsm. n. sagði hér um þetta mál. Hann skýrði þar rétt frá því, sem gerzt hafði í n. í sambandi við það. Og allir þm. vita, að þetta frv. er til fullnægju á samningsákvæðum frá því í vor og launaskatturinn á lagður til þess að afla fjár til húsnæðismálanna. Ég mun því alls ekki hafa neina tilhneigingu til þess að draga úr hinum umsömdu tekjumöguleikum í þarfir húsnæðismálanna, sem í þessu frv. felast, því að samkomulagið var gert til þess að leysa þann vanda, að svo miklu leyti sem þessi tekjuöflunarleið hrykki til.

En eins og hv. frsm. gat um, þá er kominn þarna upp ágreiningur í einu sérstöku tilfelli, um það, hverjum beri að greiða launaskattinn, hvort það eigi að vera eigandi vörubifreiðar eða sá, sem kaupir vinnu bilstjórans og leigir tæki hans, bifreiðina. Félmrn. virðist hafa byrjað framkvæmd á þessu atriði á þann veg, að það væri vörubílstjórinn, sem þarna ætti að greiða launaskattinn, og hefur lagt til grundvallar þeim skilningi, að það yrðu þeir aðilar að gera, sem tryggingariðgjöld greiddu.

Ég er sammála þeim rökstuðningi, sem fram kemur í erindi Landssambands vörubifreiðastjóra og er á þá lund, að vörubílstjórinn geti á engan hátt talizt atvinnurekandi. Hann hefur engan mann í sinni þjónustu, hann borgar ekki laun, hann selur vinnu sína öðrum vinnukaupanda, atvinnurekanda, og það eru samkv. samkomulaginu atvinnurekendur, sem eiga að borga skattinn. Sé t.d. vörubifreiðastjóri í þjónustu vegagerðar ríkisins, þá er ekki vörubilstjórinn atvinnurekandi, hann kaupir ekkert vinnuafl. Hann er launþegi, því að hann selur sína vinnu, og atvinnurekandi er auðvitað sá, sem kaupir vinnu hans í þessu tilfelli, vegamálastjórnin. Ég held því, að sá, sem hefur vörubifreið í þjónustu sinni og er þar með að kaupa vinnu bílstjórans og gjalda leigu fyrir tæki hans, verði í þessu tilfelli að greiða 1% launaskatt af kaupi mannsins, ekki af heildarupphæðinni, heldur af kaupi mannsins. Ef þessi skilningur fær ekki staðizt, þá er þarna tekinn einn hópur starfsmanna út úr og hann látinn borga af sínum launum 1% launaskatt, en það var ekki formið, sem um var samið, þó að um annað væri rætt á vissum stigum málsins. Ég sé því ekki annað en að þessi hópur manna yrði nokkuð misrétti beittur samanborið við aðra, sem selja sína vinnu, ef bílstjórarnir væru látnir borga sinn launaskatt.

Ég hef ekki enn þá gengið frá brtt. í sambandi við þessa skoðun mína, en áskil mér rétt til að gera það á síðara stigi málsins, einmitt í samræmi við þá skoðun, sem ég nú hef túlkað, en vil þó áður heyra rök, sem hv. félmrh. kann að hafa fyrir þeim skilningi, sem rn. hefur lagt í þetta atriði og byggir sinn úrskurð á eða sína framkvæmd á reglugerð. Hv. ráðuneytisstjóri Hjálmar Vilhjálmsson mætti hjá n. og skýrði okkur frá, hvernig þetta hefði verið skilið af rn., en hann sannfærði mig ekki um það, að þarna væri alveg rétt að farið gagnvart þessum hópi manna.