02.02.1965
Neðri deild: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

3. mál, launaskattur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hefði ekki blandað mér í þessar umr., ef ekki hefði komið hér fram alveg furðulegur skilningur á því, hvort á að telja sjálfseignarbilstjóra atvinnurekendur eða launþega. Ég hélt, að þetta væri svo ljóst mál, að um það þyrfti ekki að deila. Ég held, að öllum ætti að vera nokkurn veginn ljós sá munur, sem er á atvinnurekanda og launþega. Atvinnurekandi er að sjálfsögðu fyrst og fremst sá maður, sem kaupir vinnu af öðrum. Launþegi er sá, sem selur vinnu sína. Og ég held, að það liggi alveg ljóst fyrir í þessu tilfelli um sjálfseignarbílstjórana, að þeir eru ekki að kaupa vinnu, þeir eru að selja vinnu. Þar af leiðandi liggur það alveg í augum uppi, að þeir eru launþegar, en ekki atvinnurekendur. Þeir eru að selja vinnu sína, og það eru aðrir, sem kaupa. Og það er alveg augljóst samkv. þessum l., að það er sá aðili, sem kaupir launaskattinn. Þess vegna finnst mér, að slík deila eins og sú, sem hér hefur risið, ætti alls ekki að þurfa að eiga sér stað.

Nú hefur það komið fram hjá hæstv. félmrh., að þetta frv. byggist fyrst og fremst á sam. komulagi, sem gert var á s.l. vori milli atvinnurekenda og launþegasamtakanna og ríkisstj. var einnig nokkur aðili að, eða júnísamkomulaginu svokallaða. Þess vegna vildi ég beina þeirri fsp. til þeirra manna, sem hér eru og sérstaklega stóðu að þessum samningum, eins og t.d. forseti Alþýðusambands Íslands, hvort það sé ekki alveg hiklaust skilningur hans samkv. júnísamkomulaginu, að sjálfseignarbilstjórar eigi ekki að greiða þennan skatt, og ef þeir verði látnir greiða hann, sé það brot á júnísamkomulaginu. Ég hef skilið júnísamkomulagið þannig, að það ætti alls ekki að ná til þeirra aðila, sem væru innan Alþýðusamband Íslands og slíkra launþegasamtaka, eins og t.d. sjálfseignarbílstjórar eru og leigubílstjórar. Er kannske hægt að lita þannig á samkv. þeim skilningi, sem hæstv. ríkisstj. virðist hafa, að ekki aðeins sjálfseignarvörubílstjórar, heldur t.d. leigubílstjórar hér í bænum á bifreiðastöðvum, er eiga, sína bíla sjálfir, eigi að greiða launaskatt? Ég hef skilið lögin þannig, að þessi launaskattur ætti alls ekki að ná til þeirra, og mér virðist, að það þurfi að liggja alveg ljóst fyrir, áður en þetta mál er endanlega afgreitt hér frá þinginu og frá þessari d., hvert sé hið raunverulega samkomulag í þessum efnum og hvort samningarnir hafi veríð svo óhreinir, að það sé ekki hægt að átta sig á því í mörgum tilfellum, hverjir eiga að greiða skattinn og hverjir ekki. Mér virðist, að það blási ekki byrlega um slíka samninga í framtíðinni, ef eftir eiga að rísa upp fleiri eða færri deilur um það, hvort þessi stéttin eða hin á að greiða slíka skatta eins og þessa eða ekki. Þess vegna á þetta að liggja alveg ljóst fyrir, og ég vænti þess vegna, að það komi alveg skýr svör fram hér nú af hálfu þeirra aðila, sem að þessu samkomulagi stóðu, hvernig á að skilja samningana í þessu tilliti, en eftir því sem hér hefur fram komið, virðist það vera mjög óglöggt og menn alls ekki vera sammála um það, hvað séu atvinnurekendur og hvað launþegar.

Ég vil sem sagt beina þeirri fsp. til hæstv. ríkisstj. og forseta Alþýðusambandsins, hvort það geti virkilega verið í samræmi við júnísamkomulagið, að sjálfseignarbílstjórar, sem selja vinnu sína, eða leigubílstjórar séu látnir greiða launaskatt.