02.02.1965
Neðri deild: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

3. mál, launaskattur

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki tefja tímann lengi, en það er í sambandi við ræður þeirra beggja, hæstv. landbrh. og hv. 3. landsk., sem ég hefði viljað segja örfá orð.

Landbrh. hæstv. taldi, að sú till., sem ég mælti hér fyrir, mundi vera á misskilningi byggð. Ég hef ekki sannfærzt um þetta af þeirri ræðu, sem hann hélt hér áðan. Hann hélt því fram, að launaskattur sá, sem greiddur er af launum starfsmanns í mjólkurbúum og sláturhúsum, fái bændur aftur uppborinn gegnum verðlagið. Hins vegar sagði hv. 3. landsk., að það hefði ekkert tillit verið tekið til launaskattsins í sambandi við verðlagninguna eða ákvörðun verðlagningar á s.l. hausti, svo að mér þykir þarna stangast á hjá þessum ágætu mönnum, það sem þeir segja um þetta.

Till. okkar hv. 4. þm. Reykn. er byggð á því, að við teljum, að bændur eigi ekki að bera þennan launaskatt af sínum tekjum, en það teljum við, að þeir geri, þar sem verðlagning og dreifingarkostnaður er ákvarðaður með sérstökum l. og bændur fá þess vegna ekki annað tekið inn í verðlag vara sinna heldur en það, sem þar er samþykkt, og ef þessi aukni kostnaður, sem leiðir af launaskattinum, er ekki tekinn inn í þessa verðlagningu og dreifingarkostnað, eru auðvitað engir aðrir, sem bera kostnaðinn, heldur en bændurnir sjálfir af sínum tekjum, sem þeir ættu að fá, því að vitanlega eru þeirra tekjur af afurðum sínum sá afgangur, sem eftir er, þegar búið er að borga rekstrarkostnaðinn á mjólkurbúunum og sláturhúsunum. Það er það, sem bændurnir fá í sinn hlut, hvort sem þeir ná með því verðlagsgrundvallarverðinu eða þeir ná því ekki. Stundum næst það, en stundum næst það ekki. Og ég trúi því ekki, og ég er viss um það, að löggjafinn hefur ekki ætlazt til þess, þegar brbl. voru sett á s.l. vori, að bændur ættu þannig að greiða af sínum tekjum þennan launaskatt. Það hlýtur að hafa verið ætlazt til þess, að hann gengi hjá þessum atvinnurekstri eins og öðrum atvinnurekstri inn í verðlag varanna, sem framleiddar eru og dreift er frá hinum ýmsu stöðum í landinu. Á þessum skilningi er sú brtt. borin fram, sem hér liggur fyrir og ég hef verið að mæla fyrir. Ef við hv. 4. þm. Reykn. hefðum verið vissir um það og vitað það með vissu, að þetta væri tekið inn í verðlagninguna og dreifingarkostnaðinn, þá hefðum við ekki borið brtt. fram. En ég hef ekki sannfærzt um það af ræðum þeirra hv. ræðumanna, hæstv. landbrh. og hv: 3. landsk., að þetta sé þannig, heldur þvert á móti. Ég hygg, að það sé rétt, sem formaður Stéttarsambands bænda tjáði mér, en hann sagði mér, að þetta mál hefði borið á góma, en það hefði ekki orðið samkomulag um að taka launaskattinn inn í verðlagninguna. Á þeim grundvelli er sá skilningur byggður, sem brtt. byggist á.

Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta.