08.02.1965
Neðri deild: 39. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

3. mál, launaskattur

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls varð nokkuð tíðrætt um það, hvernig launaskattur yrði greiddur fyrir vinnu sjálfseignarvörubilstjóra. Samkv. orðanna hljóðan í þeim bráðabirgðareglum, sem settar voru 20. ágúst s.l. um greiðslu launaskatts, þegar um er að ræða ákvæðisvinnu og verktakasamninga, segir í niðurlagi 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Í þeim tilfellum, þar sem vafi kann að leika á, hvort um væri að ræða verksamning eða vinnusamning, skal sá aðilinn, sem á að greiða tryggingaiðgjöld vegna launþega samkvæmt 28. og 40. gr. 1. nr. 40 1963, standa skil á launaskatti af launum þeirra manna, sem hann greiðir tryggingaiðgjöld fyrir.“

Þetta var sá grundvöllur, sem miðað var við, þegar rn. var þeirrar skoðunar, að vörubílstjórunum sjálfum bæri að greiða skattinn. Nú hefur, eins og lofað var líka við þessa 2. umr., þetta mál verið athugað á ný, og þá hefur m.a. komið í ljós, að þessi stétt manna hefur samninga við atvinnurekendur mjög hliðstæða því, sem önnur launþegasamtök hafa. Og þetta hefur orðið til þess, að rn. hefur talið, að rétt væri að gera þarna undanþágu fyrir sjálfseignarvörubílstjórana, þó að þeir selji meira en vinnu sína, þ.e.a.s. afnot af þeim tækjum, sem þeir stjórna, þá verði þetta skoðað sem launþegasamningur og atvinnurekandinn greiði launaskattinn. Það hefur þess vegna verið talið eðlilegt að bæta aftan við þessa grein, sem ég las, ákvæði, sem orðað yrði eitthvað á þessa leið:

„Þó skal launaskattur vegna launa sjálfseignarvörubifreiðastjóra lagður á þá, sem greiða fyrir afnot bifreiðanna.“

Þessi lausn mála hefur verið borin undir bæði vörubifreiðastjórana sjálfa, Alþýðusamband Íslands og nokkra aðra aðila, sem hafa verið riðnir við málið, og held ég, að ég megi segja, að um þetta sé orðið samkomulag við þá.

Um brtt. á þskj. 238 þarf ég ekki að vera margorður. Ég lýsti því einnig við fyrri umr., hvers vegna það væri ekki hægt fyrir mig og fyrir rn. að leggja til, að hún yrði samþ. Það væri vegna þess, að hún bryti í bága við júnísamkomulagið svokallaða. Út af fyrir sig skal ég ekki bera brigður á, að það væri kannske æskilegt að geta losað þessa menn við eða létta á þeim skattinum, en samkv. þeim samningum, sem gerðir voru, tel ég ekki, að hún samrýmist því samkomulagi, og legg þess vegna til, að hún verði felld.