08.02.1965
Neðri deild: 39. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

3. mál, launaskattur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengi þræta um það við hæstv. ráðh., hvort ríkisstj. hefur túlkað rétt framkvæmd samkomulagsins um launaskattinn eða ekki, heldur aðeins visa til þess, að það er upplýst, að gagnvart vörubílstjórunum var skatturinn eða samkomulagið upphaflega túlkað þannig, að þar væri um atvinnurekendur að ræða, en nú hefur hæstv. ríkisstj. eftir þær umr., sem hafa farið fram hér í deildinni, fallizt á, að þeir væru launþegar, eins og líka rétt er. Og ég held, að þetta sýni það alveg nægilega, að hæstv. ríkisstj. er búin að viðurkenna það sjálf í verki, að hér hafi hún haft rangt fyrir sér.

Ég á hins vegar ómögulegt með að skilja þann mismun, sem hæstv. ríkisstj. gerir hér á bifreiðastjórum eftir því, hvort þeir eiga vörubíl eða fólksbíl og selja sína vinnu. Mér skilst, að það sé nákvæmlega sama aðstaðan hjá báðum: Og ef það er rétt að túlka vörubilstjórann launþega, vegna þess að hann selur sína vinnu, sem er rétt, þá á nákvæmlega það sama einnig að gilda um fólksbifreiðastjórann. Það er enginn munur á þessu tvennu. En eftir því sem hæstv. ríkisstj. ætlar að framkvæma samkomulagið, verður þetta með þeim hætti, að t.d. vörubilstjórinn sleppur alveg við launaskatt, sem ég álít líka að sé rétt, hins vegar verður fólksbifreiðastjórinn að greiða launaskatt af sínum tekjum. Við skulum segja, að hann hafi 150 eða 200 þús. kr. tekjur, honum sé áætlað það sem laun, og þá verður hann að greiða 1500 eða 2000 kr. í skatt, sem vörubílstjórinn þarf ekki að greiða, án þess að það sé hægt að finna nokkurn mun á stöðu þessara tveggja manna sem launþega. Og ég held, að þetta hljóti að vera röng túlkun á júnísamkomulaginu, þar sem það er beint tekið fram, að skatturinn skuli greiddur af launagreiðendum eingöngu, en fólksbifreiðastjórinn er í þessu tilfelli ekkert frekar launagreiðandi en t.d. vörubifreiðastjórinn. Ég held, að hæstv. ríkisstj. muni hljóta að komast að raun um þetta við nánari athugun málsins. Hún á að láta hið sama gilda um fólksbifreiðastjóra og vörubifreiðastjóra í þessu tilfelli.

Hitt er svo annað mál, eins og kom fram í svari hæstv. ráðh., að þetta skiptir kannske ekki svo miklu máli. Ef fólksbifreiðastjórum verður leyft að taka launaskattinn inn í verðlagið og hækka greiðsluna fyrir sína þjónustu sem skattinum nemur, þá skiptir þetta kannske ekki miklu máli, hvað snertir þessar tvær stéttir, þannig að þær standi á nokkuð líkum grundvelli. En ef farið er inn á þá braut, er þessi skattur orðinn allt annar en menn héldu að hann væri í upphafi. Ég tel það alveg víst, og það eru fleiri en ég, sem litu þannig á þennan skatt upphaflega, að hann yrði greiddur af atvinnurekendum og yrði ekki látinn koma inn í verðlagið. Nú skilst mér á því, sem hæstv. félmrh. sagði hér áðan, að það væri alveg frjálst þeim, sem ekki eru t.d. háðir verðlagsreglum, að láta launaskattinn koma inn í verðlagið, og að öðru leyti væri það matsatriði verðlagsnefndar, hvort launaskatturinn ætti að koma inn í verðlagið eða ekki. En ef þessi skattur er framkvæmdur þannig í stórum stíl, sem mér virðist á þessum ummælum hæstv. ráðh., að hann sé látinn koma inn í verðlagið, þá er með öllu rangt að halda því fram, að hann sé greiddur af atvinnurekendum, öðrum en þeim, sem framleiða útflutningsvörur, þeir gætu ekki látið hann koma inn í verðlagið, allir hinir geta það. Og þá er þetta ekki orðinn skattur, sem atvinnurekendur greiða, aðrir en framleiðendur útflutningsvara, heldur er þetta orðinn skattur, sem neytendur greiða, og þá er þetta raunverulega orðinn skattur, sem er mjög svipaðs eðlis og söluskatturinn, — skattur, sem hækkar verðlagið, skattur, sem launþegar verða raunverulega að borga. Og ég trúi því ekki, að launþegar hafi litið þannig á þennan skatt, þegar þeir samþykktu hann í sambandi. við júnísamkomulagið, að hann ætti raunverulega að greiðast af þeim gegnum hækkað vöruverð og þjónustu, en ekki af atvinnurekendum, eða m.ö.o. væri hér ekki skattur, sem atvinnurekendur greiddu, heldur dulbúinn söluskattur. En það er hann í raun og veru, ef hann verður framkvæmdur þannig að miklu leyti, að hann verður tekinn inn í verðlagið.

Það er svo þeirra, sem stóðu að júnísamkomulaginu gagnvart atvinnurekendum og ríkisstj., að segja til um það, hvort þeir álíti það réttan skilning á júnísamkomulaginu, að þennan skatt eigi að taka inn í verðlagið og hann eigi raunverulega að greiðast af launþegum. En þá lízt mér ekki vel á þennan skatt, ef atvinnurekendur halda því annars vegar fram, að þeir greiði hann, og með tilliti til hans neiti þeir að fallast á kauphækkanir sem honum svara, en í raun og veru sé framkvæmdin sú, að hann sé ekki greiddur af þeim, heldur sé honum velt inn í verðlagið og neytendur og launþegar séu látnir greiða hann á þann hátt.

Annars vil ég segja það að lokum í sambandi við þennan skatt, að mér virðist, að viðhorfið til hans sé orðið allt annað en það var, þegar málið lá hér fyrir fyrr á þinginu, og þegar málið lá fyrir í vor, því að síðan júnísamkomulagið var gert og síðan málið var rætt hér á Alþingi fyrir jólin, þá hefur sá stóri atburður gerzt, að ríkisstj. hefur lagt á stórfelldan söluskatt, og frá mínu sjónarmiði er það mikil spurning, hvort það hefur ekki verið kippt grundvellinum undan samkomulaginu um þennan skatt með söluskattshækkuninni. Ég dreg það mjög í efa t.d., hvort launþegasamtökin hefðu fallizt á þennan skatt á sínum tíma, ef það hefði legið fyrir, að innan fárra mánaða yrði söluskatturinn stórkostlega hækkaður og það rökstutt með því, að það væri nauðsynlegt vegna júnísamkomulagsins. Auk þess kippir hin stórfellda hækkun söluskattsins grundvellinum undan þessum skatti með tilliti til þess, að ríkissjóði er með hækkun söluskattsins aflað stórfelldra umframtekna, sem eðlilegt væri að gengju að verulegu leyti til byggingarsjóðs, og þar af leiðandi er þessa skatts miklu minni þörf en áður var með tilliti til íbúðabygginga, vegna þess að ríkisstj. hefur tök á annarri fjáröflun, sem hún getur látið ganga í byggingarsjóðinn.