09.02.1965
Efri deild: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

3. mál, launaskattur

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er hingað komið frá hv. Nd., þar sem það hefur hlotið afgreiðslu. Það er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 30. júní s.l., um launaskatt. Í þessu frv. er farið fram á, að launagreiðendum skuli gert að greiða skatt eða álag á greidd laun, sem nemi 1% af greiddum vinnulaunum, og hvers konar atvinnutekjur aðrar, að undanskildum þó tekjum af landbúnaði, eins og nánar er gerð grein fyrir í frv.

Þetta fé er ætlað til þess að efla byggingarsjóð húsnæðismálastjórnar, sem hefur verið löngum að undanförnu fjárvana og ekki getað sinnt sínu verkefni eins og vert væri vegna fjárskorts. Þetta frv. er flutt til viðbótar öðrum ráðstöfunum, sem gerðar voru á síðasta þingi til þess að efla sjóðinn, þ.e.a.s. hækkun skyldusparnaðarins, sem á síðasta þingi var hækkaður úr 6 og upp í 15%, og enn fremur var þá flutt frv. og staðfest lög um, að vátryggingafélög skyldu lána 1/4 hluta af ráðstöfunarfé sínu í þessu skyni. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er flutt í framhaldi af þessum ráðstöfunum og til þess, eins og ég sagði í upphafi, að gera sjóðinn megnugri en hann áður var til þess að sinna sínu verkefni.

Í 1. gr. frv. felst meginkjarni þess, þ.e.a.s. ákvæðið um, að þessi 1% skattur skuli lagður á. Í 2. gr. er svo nánar tiltekið, hverjir skuli greiða skattinn og hverjir vera undanþegnir. Í 3. gr. er svo ákvæði um það, hvernig skatturinn skuli greiddur, þ.e.a.s. ársfjórðungslega eftir á, og ýmis ákvæði í því sambandi, sem snerta innheimtuna. Í síðari greinum frv. er svo nánar kveðið á um, hvernig innheimtan skuli fara fram, hvernig skattstjóri tryggi það, að rétt séu talin fram launin og skatturinn þar af leiðandi, og hverjir skuli taka á móti þessum skatti og hvernig með hann skuli fara að öðru leyti.

Þetta frv. hefur nú verið allmikið á dagskrá að undanförnu, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara ýtarlega út í það grein fyrir grein. En ég vil aðeins segja, að það er fram komið m.a. vegna samkomulagsins, sem gert var í júnímánuði s.l. milli ríkisstj. og atvinnurekendasamtakanna í landinu og Alþýðusambands Íslands. Í því samkomulagi segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Lagður verð; á launagreiðendur almennur launaskattur að upphæð 1% af greiddum vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum öðrum en tekjum af landbúnaði. Renni skatturinn til byggingarsjóðs ríkisins sem stofnfjárframlag.“

Þetta er sá viðmiðunargrundvöllur, sem l. eru miðuð við, og er það ætlun mín og annarra, sem um málið hafa fjallað, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, fylgi trúlega þeim fyrirmælum, sem í þessu samkomulagi felast. Það er gert ráð fyrir, að þessi skattur muni nema a.m.k. 50 millj. kr. á ársgrundvelli, þó vitaskuld minna fyrir árið 1964, því að hann kom ekki til framkvæmda nema fyrir hálft árið, en til að byrja. með árið 1965 um 50 millj. kr. og síðan heldur vaxandi.

Landbúnaður og landbúnaðarvinna er undanskilin þessum skatti vegna þess fyrst og fremst, að þeir, sem þá atvinnu stunda, eiga ekki kost á að fá lán úr byggingarsjóði ríkisins, heldur er þeim ætlaður annar sjóður til lánveitinga til bygginga. Hins vegar kom það nokkuð til umr. í hv. Nd., hvort þessi skattur skyldi lagður á vinnslu landbúnaðarafurða, en þar sem hún fer venjulegast fram í þéttbýli og þeir, sem þann atvinnuveg stunda þar, eiga kost á að fá lán úr byggingarsjóðnum, þótti ekki rétt, að þeir væru undanþegnir.

Nokkuð kom einnig til umr. í hv. Nd., hvort sjávarútvegurinn og þá fyrst og fremst bátaútvegsmenn skyldu greiða þennan skatt og þá hve mikinn, en það var talið brjóta í bága við samkomulagið að undanþiggja þá að nokkru leyti þessari skattheimtu, og þess vegna voru þær brtt. og raunar aðrar, sem fram komu í d. í þá átt að draga úr skattgjaldinu, felldar.

Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég þarf að taka fram að svo stöddu. Ég vildi leyfa mér aðeins að leggja til, að frv. yrði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.