09.02.1965
Efri deild: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

3. mál, launaskattur

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði í sambandi við þetta mál, sem mig langaði til þess að minnast á, af því að hæstv. ráðh. er nú staddur hér í d. Mér skilst það, að í umr. um málið í hv. Nd. hafi verið á það minnzt, að launagreiðendur mundu að verulegu leyti geta velt þessum launaskatti af sér yfir á neytendur. Nú hygg ég, að það hafi verið hugmyndin með júnísamkomulaginu, að þessi 1% launaskattur yrði lagður á launagreiðendur, en ekki launþega. En ef það verður reyndin, að launagreiðendur hafi aðstöðu til að verulegu leyti að velta þessum skatti af sér yfir á neytendur, finnst mér grundvellinumi kippt undan málinu, þannig að það verði launþegar, sem að verulegu leyti greiða þennan skatt.

Það hefur í sambandi við þetta mál verið rætt sem hugmynd áður fyrr, að til þess að afla fjár til húsnæðismálanna í landinu kæmi til greina að leggja t.d. 1% á launagreiðendur og jafnvel 1% á launþega. Nú er sú leið valin að leggja að þessu sinni a.m.k. aðeins 1% á launagreiðendur, en ekkert á launþega. En ef launagreiðendum verður svo gert það mögulegt að velta þessu af sér yfir á neytendur, finnst mér það jafngilda því, að það séu launþegar, sem skattinn greiða, en ekki launagreiðendur, en það mun ekki hafa verið ætlunin í upphafi með þessu frv. Nú langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðh. að því, hver afstaða hans og hæstv. ríkisstj. sé um þetta atriði málsins.