01.03.1965
Efri deild: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

3. mál, launaskattur

Frsm. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 12. þm. Reykv. hefur drepið á ýmislegt, sem ég hefði viljað gera að umtalsefni, og ég skal nú leitast við að endurtaka sem minnst af því, sem hann hefur minnzt á. En mér fannst, að ég yrði að kveðja mér hljóðs með tilliti til þess, að hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) beindi orðum sínum sérstaklega til mín.

Ég vil þá fyrst víkja að þeirri brtt., sem hann og 1. þm. Vesturl. (AB) hafa borið fram við frv. það, sem hér liggur fyrir til umr. Þetta er, eins og hann tók fram, samhljóða brtt., sem borin var fram í Nd. og var þar felld, — brtt. um að undanskilja launaskatti greidd laun starfsfólks við mjólkurbú og sláturhús.

Ég held, að það þurfi ekki að hafa mörg orð um það, að það er ekki eðlilegt, miðað við tilgang og anda frv. um launaskattinn, sem á að vera almennur launaskattur, að það samrýmist ekki tilgangi laganna að undanskilja sérstaklega þetta starfsfólk. Hv. flm. vildi meina, að hér stæði sérstaklega á, hérna væri frekar um að ræða bændur sjálfa heldur en venjulegt launafólk, sem ynni á þessum stöðum. Ég held, að það sé mikill misskilningur. Þetta starf er fyrst og fremst unnið af venjulegum verkamönnum, en ekki bændum sjálfum. Auk þess verður að líta svo á, að hinn aukni kostnaður, eða þessi skattur, mundi verða innifalinn í dreifingar- og vinnslukostnaði vörunnar, þannig að hér er ekki verið að leggja óeðlilegan skatt á bændur, eins og flm. vildi vera láta.

Hann vék dálítið nánar að skattlagningu á bændur og fór að tala um uppáhaldsmál þeirra hv. framsóknarmanna, skattlagningu í sambandi við stofnlánadeild landbúnaðarins. En það fór eins fyrir þessum hv. þm. og framsóknarmönnum yfirleitt, þegar þeir minnast á þetta mál, að fullyrðingar þeirra um það, að verið sé sérstaklega að ráðast á bændastéttina með þessum aðgerðum, eru gersamlega út í hött. Ekki á þetta sízt við, þegar gerður er samanburður á aðstöðu bænda í þessu efni og neytenda, en það áttu að vera ein af rökum hv. þm. fyrir brtt. En hann gleymdi að geta þess, sem þeir framsóknarmenn gleyma alltaf í umr. um þetta mál, að jafnframt því sem lagður er skattur á bændur, 1%, er lagður 3/4% skattur á neytendur. En allt það fé, sem kemur inn fyrir þennan skatt, gengur í stofnlánadeildina til þess að leysa sérstök lánamál landbúnaðarins og bænda.

Nei, ég held, að ég þurfi ekki að fjölyrða frekar um þetta. Öll röksemdafærsla hv. flm. til stuðnings þessari brtt. fær ekki staðizt. Þess vegna er líka eðlilegt, að hún verði felld.

En hv. 1. þm. Norðurl. e. kom svo inn á húsnæðismálin nokkuð almennt, og það verður að segjast, að það, sem hann sagði um þessi mál, er mjög í samræmi við það, sem framsóknarmenn hafa sagt um húsnæðismálin, alla tíð frá því að vinstri stjórnin kom til valda, og hvað snertir samanburð milli afreka vinstri stjórnarinnar og núv. ríkisstj., eftir að núv. ríkisstj. kom til valda. Aðalatriðið í þessum málflutningi er það, að núv. ríkisstj. hafi gert harla lítið, naumast nokkuð af viti í þessum málum, með þeim afleiðingum, að ástand húsnæðismálanna sé miklu lakara en það var í tíð vinstri stjórnarinnar. En í tíð vinstri stjórnarinnar, það er annaðhvort sagt beint eða undirskilið, þá voru hlutirnir í lagi. Það má geta þess, að svo ákafir hafa framsóknarmenn verið í því að fegra hlut vinstri stjórnarinnar í þessu máli, að þeir hafa ekki sézt fyrir. Þeir hafa vanmetið algerlega það, sem gert var á næstu árum, áður en vinstri stjórnin komst til valda, sem gert var, þegar Steingrímur Steinþórsson var húsnæðismálaráðherra. En þeir telja, að það hafi orðið mjög mikil framför, eftir að Steingrímur Steinþórsson lét af þessum störfum og þegar Hannibal Valdimarsson tók við húsnæðismálunum. Þetta sýnir aðeins, hve langt framsóknarmenn ganga í þessum áróðri í þjónkun sinni við kommúnista. Þegar þeir svo fara að gera nánari samanburð á þessum málum, þá rennur þetta meira og minna út í sandinn, og það er ekkert óeðlilegt.

Nú er það náttúrlega virðingarverð tilraun hjá svo ágætum manni sem hv. 1. þm. Norðurl. e. að reyna að bjarga sér með skáldlegum tilburðum og líkingum út úr þessum vanda, sem framsóknarmenn komast alltaf í, ef þeir ætla að ræða efnislega og bera saman efnislega það, sem hefur verið gert í tíð núv. ríkisstj., við það, sem var gert í tíð vinstristjórnarinnar. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara ýtarlega út í þennan samanburð. Sannleikurinn er sá, að þessi samanburður er ákaflega ófrjór og nánar sagt tilgangslítill. Það verður samt ekki komizt hjá því, þar sem framsóknarmenn, í hvert sinn sem þessi mál ber á góma, eiga ákaflega erfitt með að ræða efnislega ýmsar aðgerðir, sem um er að ræða. Þeir fara alltaf út í fullyrðingar um það, að ástand þessara mála sé miklu lakara en það var á gósentíma vinstri stjórnarinnar.

Hv. síðasti ræðumaður, 12. þm. Reykv. (EggÞ), benti á það, eins og ég gerði einnig í minni ræðu fyrir nál. við 2. umr., hvílík umskipti hefðu orðið í þessum málum með tilliti til þess að tryggja byggingarsjóði ríkisins auknar tekjur. Skv. þeim hugmyndum, sem uppi hafa verið og er verið að framkvæma, er gert ráð fyrir því a.m.k., að tekjur byggingarsjóðs á ári muni nema a.m.k. um 225 millj. kr., miðað við árið í ár. Og beri menn svo þetta saman við það, þegar vinstri stjórnin var að vinna sín afrek í þessum málum með því, eins og á árinu 1957, að lána 45 millj. kr. til húsnæðismála, — beri menn þetta saman.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði nú reyndar, að það að setja launaskattinn á væri neyðarúrræði. En samt deildi hann á ríkisstj. fyrir að hafa ekki haft frumkvæði í þessu efni, og sagði, að henni hefði verið „tosað“ áfram til þess að gripa til þessara neyðarúrræða. Mér sýnist nú, að málflutningur sem þessi stangist nokkuð á, enda er það eðlilegt, eins og allur þessi málatilbúnaður er.

Hv. þm. minntist sérstaklega á skyldusparnaðinn og sagði, að það væri óeðlilegt, að mér skildist, fyrir sjálfstæðismenn að nefna það orð á nafn, miðað við fyrri afstöðu Sjálfstfl. til þess máls. Hér er um mikinn misskilning að ræða. Það er rétt, Sjálfstfl. var andvígur því, þegar skyldusparnaðurinn var fyrst settur. En hvers vegna var Sjálfstfl. það? Það var m.a. vegna þess, að eina úrræðið, sem vinstri stjórnin hafði í húsnæðismálunum, var að setja þennan skatt á unga fólkið. Það, sem nú hefur skeð, er það, að þegar þessi skattur var hækkaður, þá er það aðeins einn liður í víðtækum aðgerðum í þessum málum, þar sem mismunandi stéttir og starfshópar og hagsmunaaðilar verða allir að leggja eitthvað á sig til framlags í þessum málum. Vinstri stjórnin sá ekkert annað en þetta eina úrræði, og það er hennar eina afrek í húsnæðismálunum.

Þá fór hv. ræðumaður nokkuð út í hækkun byggingarkostnaðar og sagði, að sú hækkun, sem hefði orðið á lánum og mundi verða, hún mundi ekki einu sinni nægja til þess að vega upp á móti hækkuðum byggingarkostnaði. Ég skal ekki fara sérstaklega út í þessa útreikninga hv. þm., en ef hann ætlar að gera samanburð, sem hefur einhverja þýðingu í þessu efni, þá verður hann að hafa meira í huga en aðeins byggingarkostnaðinn í krónum og hækkun byggingarkostnaðarins í krónum og hækkun lánanna. Hann verður að hafa meira í huga, ef þetta á að vera raunhæfur samanburður. Þá verður hann að hafa í huga þær breytingar, sem hafa orðið á almennu verðlagi í landinu og kaupgjaldi. En hvernig eigum við að fá sem gleggsta hugmynd um það, hver þróunin hefur orðið í þessu efni? Það vill svo vel til, að það er ekki mikill vandi að styðjast þar við töluvert öruggar heimildir og við heimildir, sem ekki er hægt að rengja. Þar á ég við byggingarvísitöluna. Byggingarvísitöluna höfum við til þess að fylgjast með þessum málum. Og ég vil aðeins rifja það hér upp að gefnu tilefni af því, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði, að árið 1958, þegar vinstri stjórnin var við völd, í árslok 1958, þá var byggingarvísitalan 134 stig, en núna, eða í febrúar 1965, þá er byggingarvísitalan 220 stig. Byggingarvísitalan hefur á þessu tímabili hækkað um 64.2%. Tökum svo til samanburðar íbúðalánin: íbúðalánin voru almennt 1958 70 þús. kr. Það var undantekning, ef það voru veittar 100 þús. kr. En þau eru núna 150 þús. (Gripið fram í: Almennt núna, undantekningarlaust? ) Nú í framkvæmd orðið undantekningarlaust. Það var á tímabili 100 þús. til íbúða, sem byrjað var að byggja fyrir 1. ágúst 1961. En nú hefur verið lánað algerlega út á þessar íbúðir eða svo til, þannig að í framkvæmd er aðalreglan 150 þús. En hvað þýðir þessi hækkun á lánunum? Hún nemur 114.2%, á sama tíma og byggingarkostnaður skv. byggingarvísitölu hefur hækkað um 64.2%. Þegar íbúðalánin verða hækkuð á þessu ári upp í 280 þús., þá hafa þau hækkað um 300% frá 1958, miðað við 70 þús. kr. þá, eða ef við miðum við 100 þús. kr. þá, hafa þau hækkað um 280%, á sama tíma sem byggingarvísitalan hefur hækkað um 64.2%. Þetta eru sláandi tölur.

Mér dettur ekki í hug að halda fram, að þessar tölur segi alla hluti í þessum efnum. Það er víðs fjarri. En ég fullyrði, að ef við eigum að bera saman ástandið í þessum málum núna við það, sem var í tíð vinstri stjórnarinnar, þá verður ekki litið fram hjá þessum tölum. Það fullyrði ég.

Ég held, að þeir hv. framsóknarmenn hafi ekki af miklu að státa fyrir hönd kommúnista, þó að þeir haldi því fram, að vinstri stjórnin hafi gert meira í þessum efnum en núv. stjórn. Þeir hafa ekki af miklu að státa. Ég tek mjög vel öllum leiðbeiningum og ráðleggingum frá jafnágætum manni og hv. 1. þm. Norðurl. e. Hann var að tala um eitthvert gat. Ég skildi nú ekki alveg, hvað hann var að meina, en mér finnst, að það hafi farið núna eins fyrir honum og framsóknarmönnum svo oft, þegar þeir ræða um þessi mál, að þá gata þeir. Þeir gata, eins og var kallað á skólamáli, þegar við vorum í skóla. Þá viðurkenndu menn líka það, ef þeir götuðu, og menn tóku það, sem sannara reyndist, og urðu að gera það. Og ég vænti nú þess, að þegar hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur fengið nokkrar betri upplýsingar um þessi mál heldur en hann virtist hafa, þó að það sé ekki nema að litlu leyti, sem ég hef talið rétt að fara út í þessi mál núna, þá láti hann sér segjast, þannig að það komi ekki fyrir, að hann gati jafnherfilega í þessum málum, næst þegar hann ræðir þau, eins og hann gerði hér áðan.