01.03.1965
Efri deild: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

3. mál, launaskattur

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tek undir þau orð, sem hv. 12. þm. Reykv. (EggÞ) mælti í lok ræðu sinnar, að menn ættu að leggjast á eitt til að efla starfsemi húsnæðismálastofnunarinnar. Starfsemi hennar er svo þýðingarmikil, að það ætti að vera skylda allra að leggjast á eitt til að reyna að efla þá stofnun, og það, sem ég segi hér og kann að finna að, er miðað við það, að mér finnst, að það hafi ekki tekizt sem skyldi að efla þessa stofnun.

Ég hef aldrei haldið því fram, að allt hafi verið í lagi á dögum vinstri stjórnarinnar í þessum efnum, en ég held því fram hiklaust, að umbætur í þessum efnum hjá viðreisnarstjórninni hafi ekki verið í samræmi við þá möguleika, sem hún hefur haft í batnandi afkomu, að því er snertir tekjuöflun þjóðarinnar. Og ég held því fram, að á tímabili hennar hafi dýrtíðin vaxið svo, að meira nemi en þeim hækkunum, sem hún hefur tekið upp í sambandi við lánveitingar, og þess vegna séu lánveitingarnar nú orðnar rýrari í sjálfu sér til að mæta þörfum heldur en þær voru þó á tímum vinstri stjórnarinnar. Ég játa, að það er margt, sem þarf að taka til greina, þegar samanburður á þessu er gerður. Ég játa, að það er margt, og það verður ekki allur sannleikur sagður með því að bera saman vissa liði talna. Hv. þm., sem talað hafa í þessu máli á þessum fundi, eru báðir stjórnarmenn húsnæðismálastofnunarinnar, og þeim er vitanlega mjög auðvelt að mála „Sterling í þoku“.

Hv. 12. þm. Reykv. bað mig að taka dæmi úr tíð vinstri stjórnarinnar, sem sannaði það, að hér hefði ekki stórlega áunnizt, eins og hann vildi halda fram. Hann vildi halda því fram, að hér hefði stórlega áunnizt. Ég hef nú ekki hér víð höndina víðtækar tölur til samanburðar, en ég hef þó hér tölur, sem á vissan hátt tala nokkuð greinilegu máli. Öllum kemur saman um það, að húsbyggingarþörfin sé mikil, og öllum kemur saman um það vitanlega, að eftir því sem þjóðinni fjölgar og eftir því sem tekjur hennar vaxa, þá muni áhuginn og þörfin fyrir húsbyggingar líka fara vaxandi. Hér komu þær tölur, sem ég hef fram að leggja og vil sýna lit á að nota til að verða við ósk hv. 12. þm. Reykv. að sýna dæmi úr tíð vinstri stjórnarinnar og tíð viðreisnarstjórnarinnar, sem væru nokkuð talandi í þessum málum. Á árunum 1956—1959, — ég held það sé rétt að taka 4 ár til samanburðar, — þá voru fullbyggðar íbúðir í landinu samtals 6077. Á þessum 4 árum samanlögðum eru íbúðarhúsabyggingar 6077 í landinu. Þörfin fyrir byggingarnar hefur alls ekki tæmzt. Áhuginn á að koma húsi upp yfir höfuðið á sér má telja að hafi vaxið síðan, en ekki minnkað, enda hefur þjóðinni fjölgað. Og á árunum 1960—1963 eru fullgerðar íbúðir samtals 5268. Það munar þarna á þessum 4 árum þannig, að síðara tímabilið hefur 200 íbúðum minna verið byggt á ári. Hvaða ályktanir er rétt að draga af þessu? Ég held, að í stórum dráttum sýni þetta, að menn hafa talið sig eiga við meiri örðugleika að etja í þessum efnum síðara tímabilið en hið fyrra.

4. þm. Vestf. talaði um það réttilega, að þó að þau lán, sem veitt eru til íbúðarhúsabygginga, hrykkju ekki til að mæta dýrtíðaraukningu, því að hann mótmælti því ekki, væri á fleira að líta í þessu sambandi, ef ætti að meta möguleika manna til þess að byggja, og þ. á m. vitanlega þær breytingar, sem orðið hafa á almennu kaupgjaldi í landinu á þessum tíma. Ég hygg, að það sé viðurkennt, að breytingarnar, sem orðið hafa á kaupgjaldinu, séu ekki vinnustéttunum eða kauptakendunum til ávinnings í þessum efnum, þ.e.a.s. þær benda ekki í þá átt, að þeir hafi meira úr að spila hlutfallslega til íbúðarbygginga nú en áður. Sannleikurinn er sá, að þó að viðreisnarstjórnin hafi kannske haft að ýmsu leyti góðan vilja í þessu efni, þá hefur hún verið í óvinnandi kapphlaupi, kapphlaupi við skuggann sinn, eins og ég sagði áðan. Skuggann kalla ég í þessum efnum dýrtíðaraukninguna. Það eru þess vegna ekki nein rök hjá hv. 4. þm. Vestf. að fara út fyrir dæmið í þessa átt.

Hv. 4. þm. Vestf. minntist á till. þá, sem við hv. 1. þm. Vesturl. flytjum hér, og hann vildi halda því fram, að t.d. vinna við sláturhúsin kæmi ekki bændastéttinni beinlínis til útgjalda. En hann veit það vitanlega, hv. þm., að sláturlaun dragast frá verði því, sem bændurnir fá. Hann veit það líka, hygg ég, að í haust var þessi kostnaður alls ekki tekinn inn, þegar reiknaður var út verðlagsgrundvöllur og ákveðið búvöruverð.

Það kom fram í hv. Nd., ég hlýddi á það, að formaður Stéttarsambands bænda hefði sagt, að þessi dreifingarkostnaður, þessi kostnaður við framleiðsluna hjá bændunum, hefði ekki fengizt tekinn til greina við verðlagsákvörðunina, og annar þm., Eðvarð Sigurðsson, ég man ekki númer hans, formaður Dagsbrúnar, upplýsti, að hann kannaðist ekki við það, að þetta hefði eiginlega komið nokkuð til umræðu. En þetta samanlagt fannst mér fullkomin sönnun fyrir því, að þessir liðir hafi ekki verið teknir með í reikninginn. Ég sagði áðan, að það skipti miklu máli, hvort það væri gert eða ekki. En ef hv. þm. meiri hl. fella till. okkar, þá lít ég svo á, að þeir skuldbindi sig til að sjá um það eftirleiðis, að þessi kostnaður verði tekinn til greina hjá bændastéttinni við ákvörðun búvöruverðs.

Hv. 4. þm. Vestf. sagði, að uppáhaldsmál okkar framsóknarmanna væri ádeila á skatt þann, sem bændurnir eru látnir greiða til stofnlánadeildarinnar, það væri uppáhaldsmál okkar. Það er málefni fleiri en framsóknarmanna. Nálega öll búnaðarsambönd landsins standa að þeim málarekstri, sem nú er gerður út af skattinum, og þar eru hv. sjálfstæðismenn á oddinum. Meira að segja maðurinn, sem prófmálið er flutt fyrir, er einn af helztu mönnum Sjálfstfl. í mínu héraði. Ég er ekki að segja þetta vegna þess, að mér þyki vanvirða að því fyrir framsóknarmenn að hafa þessa afstöðu til þessa máls, heldur af því, að hitt er rétt og satt.

Ég tók það fram, þegar ég byrjaði þessa ræðu mína, að ég vildi taka undir orð hv. 12. þm. Reykv. um, að menn ættu að sameinast um það að leggjast á eitt að efla starfsemi húsnæðismálastofnunarinnar. Ég get lokið máli mínu með því að endurtaka það, því að ég álít, að þess sé full þörf, ég álít, að ástandið sé þannig, að það hafi í raun og veru aldrei verið erfiðara í þessum málum fyrir almenning en nú er, miðað við þær kröfur, sem menn gera eðlilega til húsnæðis. Og ég vil færa fram vitnisburð um, að ég fari þar með rétt mál, að ástandið sé alvarlegt.

Hv. Alþfl. hefur nú fengið orð fyrir það um skeið að vera í þeirri afstöðu til hv. Sjálfstfl., sem móðirin hafði, sem sagt var um að allt kynni að fyrirgefa. Þess vegna mundi, held ég, vera óhætt að leiða fram til vitnis þennan móðurlega flokk, móðurlega hugsandi flokk, og í Alþýðublaðinu í gær er vitnisburður frá þessari góðu móður, sem finnur til, þó að hún fyrirgefi. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta, í grein um húsnæðismálin, að vísu aðallega um verkamannabústaðina, en húsnæðismálin almennt um leið, — þar stendur:

„En því miður hefur ekki tekizt að hreinsa húsnæðismálin af óhóflegri gróðastarfsemi, og virðist t.d. lóðaúthlutun í Reykjavík beinlínis vera við það miðuð að hjálpa þeim aðilum, sem hafa húsnæðisskortinn að féþúfu. Það er á almannavitorði, að braskarar græði 100—200 þús. á hverri meðalíbúð, sem þeir koma upp og selja hálfgerða. Engin tilraun virðist gerð af bæjaryfirvöldum til að stöðva þessa svívirðu, jafnframt því sem íbúðaverð er skrúfað upp. M.a. vegna þessarar okurstarfsemi hækkar leiga íbúða svo, að meðalfjölskylda kemst varla í húsaskjól fyrir minna en 5—7 þús. kr. á mánuði.“

Þannig farast móðurinni orð. Hver er það, sem ræður úthlutun lóða hér? Vitanlega meirihlutaflokkurinn.

Nei, ástandið í húsnæðismálunum er ekki betra, þrátt fyrir þann góðvilja, sem ég er viss um að hv. 12. þm. Reykv. hefur í þessu máli og einnig hv. 4. þm. Vestf., — ástandið er ekki betra en það, að þetta gerist, sem Alþýðublaðið sagði í gær. Þetta gerist, og það gerist af því, að hér hefur ekki verið nógu vel að unnið. Það hefur ekki heppnazt að vinna þannig að þessum málum, að það sé nokkur ástæða til að státa af frammistöðunni, og það er einmitt það, sem ég er að víta, að státa af henni, státa af því, sem er til vanvirðu þeim, sem hafa fengið slíka aðstöðu vegna góðæris og heildartekjuöflunar eins og hæstv. núv. ríkisstj., viðreisnarstjórnin.