01.03.1965
Efri deild: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

3. mál, launaskattur

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal taka undir lokaorð hv. síðasta ræðumanns, 1. þm. Norðurl. e., og ég hygg, að enginn okkar, sem þátt hefur tekið í þessum umræðum, hafi haldið því fram, að þær breytingar, sem átt hafa sér stað undanfarin ár, og það, sem upplýst hefur verið að sé á næstu grösum í húsnæðismálum, sé nein endanleg lausn í húsnæðismálum. Ég hef átt þess kost að ræða þessi mál við menn úr nágrannalöndum okkar, og þar eru þessi mál með allra erfiðustu málum til úrlausnar, hafa verið og eru, rétt eins og hjá okkur. Og það atriði, sem hann minntist á undir lok ræðu sinnar, að nú hefðu menn óhóflegan gróða af sölu íbúða vegna skorts á íbúðum, það er ekki komið til með valdatöku þessarar ríkisstj. Þessir aðilar virtust lifa góðu lífi í tíð þeirrar margnefndu vinstri stjórnar, sem við hv. þm. studdum þó báðir og höfðum áreiðanlega góðan vilja til að hlúa að lausn þessara mála. Eigi að síður stendur sú staðreynd eftir, að öryggi um fastar tekjur þessarar stofnunar, húsnæðismálastofnunarinnar, er ekkert svipað því, sem var á þessum ágætu vinstristjórnarárum, þegar stofnuninni var fleytt áfram ár eftir ár á lausum lánum til skamms tíma, sem stofnunin átti síðan að lána út til 25 ára. Það var starfsgrundvöllur, sem allir sáu og hlutu að viðurkenna að gat ekki verið til frambúðar. En um þetta höfum við þegar rætt, og ég hygg, að það sé öllum ljóst, að samanburður í þessum efnum sé sízt af öllu hæstv. núv. ríkisstj. óhagstæður.

Ástæðan til þess, að ég stóð hér upp, er fyrst og fremst eitt atriði úr ræðu hv. þm., sem hann vildi meina að væri sérstakt svar til mín um samanburð á starfinu nú í þessum málum og í tíð vinstri stjórnarinnar. Svarið var samanburður á fullbyggðum íbúðum á 4 árum, þar af 3 úr starfi vinstri stjórnarinnar og síðan 4 síðustu árum.

Nú vil ég, áður en ég ræði frekar þennan samanburð hv. þm., minna á það, að eitt alvarlegasta vandamál íslenzks byggingariðnaðar í dag er það, hve langur byggingartíminn er. Og þar skerum við okkur frá flestum öðrum þjóðum í þessum þætti byggingarmálanna. Meðalbyggingartíminn er sem sagt hér frá 2 1/2 til 3 ár. Það að taka viðmiðunina við fullbyggðar íbúðir sýnir því, að það er algerlega rangt og sýnir ekki, hvað mikið fer af stað af byggingum á hverjum tíma. Ég hygg t. d., að á því 4 ára tímabili, sem hann vill eigna vinstri stjórninni, þá sé arfleifð frá samstarfi Sjálfstfl. og Framsfl. meginhlutinn af þeim íbúðum, svo langur sem byggingartíminn er, en það, sem hv. þm. vill eigna viðreisnarstjórninni, sé arfleifð frá tímum vinstri stjórnarinnar, þegar hliðsjón er höfð af því, að meðalbyggingartíminn er hér frá 2 1/2 til 3 ár. Ég hygg, að það verði ekki heldur hægt að fá út nákvæman samanburð í þessu efni, þó að við værum sammála um að miða við þær íbúðir, sem fóru af stað, þær íbúðir, sem byrjað var á á þessum árum, því að það er mjög sveiflukennt. Sannleikurinn er sá, að vegna öryggisleysisins í lánamálunum, óvissunnar um það, hvenær að mönnum komi, hefur fjöldi manna lagt af stað, án þess að hafa nokkkuð öryggi um það að koma íbúð sinni upp. Bið eftir lánum allt fram undir 2 síðustu ár, eins og ég sagði, komst upp í það að verða á fimmta ár. Hún lengdi byggingartímann og skapaði þar með þá óraunhæfni, sem yrði í því að bera þessar tölur saman. Þeir, sem beztum árangri hafa náð í þessum efnum, eins og t.d. Norðmenn, hafa þann hátt á, að sá, sem fær ekki lánsloforð, áður en hann hefur byggingu, fær það ekki síðar, hann fær ekki lánið síðar. Þar með er það tryggt, að byggingartíminn verður styttur og að lánið fæst örugglega út á þær íbúðir, sem fara á stað, en ekki er skapaður stór fjöldi hálfbyggðra húsa, sem enginn getur notað, húsa eða íbúða, sem verða með allra dýrasta móti, vegna þess að vextir og afborganir af byggingunni, sem er í smíðum, eru greidd, án þess að nokkur not séu af íbúðinni, auk þess sem þarf að standa undir kostnaði annarrar íbúðar, sem búið er í, meðan á byggingartímanum stendur.

Þetta hefur verið einn alvarlegasti ágalli okkar byggingarhátta í dag, og verður að ætla, að með auknu fé í þessari útlánastarfsemi verði hægt að koma í veg fyrir það, að fjöldi manna, sem ekki hefur neina tryggingu fyrir fram, leggi af stað í algjörri óvissu um það, hvenær hægt sé að taka íbúðina í notkun. Það er á sama hátt mjög óæskileg þróun fyrir þá, sem byggja afkomu sína á því að vinna við íbúðarhúsabyggingar, að hafa þær svo sveiflukenndar sem þær hafa verið og kemur glögglega fram í því, að þó að hundruð íbúða væru t.d. í smíðum hér, þar sem þéttust er byggðin, gæti vel komið fyrir stórfellt atvinnuleysi í byggingariðnaðinum, vegna þess að það væru margar íbúðir, sem ekki væri búið að gera fokheldar, þannig að hægt væri að vinna í þeim yfir vetrartímann.

Þessi ágalli er því ekki bara einkamál þeirra, sem eru að byggja, heldur stórfellt þjóðhagslegt vandamál, sem verður að ætla, að megi færa til betra horfs með auknum fjárráðum í þessum efnum. Og þá lendum við aftur á þeim sama stað, sem við ræddum um í fyrri ræðum okkar, að að sjálfsögðu er hér eins og víða annars staðar fjáröflunin grundvöllurinn að því, að hægt sé að setja skilyrði fyrir lánum og hægt sé að haga lánveitingunum á þann veg að tryggja sem jafnastar byggingar yfir allt árið, en ekki svo sveiflukenndar sem þær hafa verið, með hagsmuni beggja fyrir augum, þeirra, sem íbúðanna eiga að njóta, og þeirra, sem afla sér lífsviðurværis á því að byggja.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. vitnaði klökkur í forustugrein Alþýðublaðsins frá því í gær, þar sem fjallað er um verkamannabústaðina, og ég hefði nú óskað þess, að hann hefði eytt svo sem 1—2 mínútum lengur, gert ræðu sína 1—2 mínútum lengri til þess að lesa þessa grein alla, því að afskipti einstakra stjórnmálaflokka af lögunum um verkamannabústaði eru bæði lærdómsrík og það kynni að verða til upplýsingar hv. þdm., hvenær eftir þeim lögum hafi verið starfað með mestum blóma. En væntanlega gefst tækifæri til að ræða það, þegar húsnæðismálalöggjöfin í heild kemur hér til umr., og efast ég þá ekki um, að á því standi að gera grein fyrir afstöðu t.d. hv. framsóknarmanna til þess máls frá öndverðu.