01.03.1965
Efri deild: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

3. mál, launaskattur

Auður Auðuns:

Herra forseti. Vegna þess að hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur í sinni ræðu dregið lóðaúthlutun í Reykjavíkurborg inn í umræður um launaskattinn og húsnæðismálin, vil ég hér aðeins leggja örfá orð í belg. Hann vitnaði í leiðara í Alþýðublaðinu í gær, sem ég skal viðurkenna að mér hefur láðst að lesa, þar sem því sé haldið fram, að lóðaúthlutun hér miði beinlínis að því að hækka byggingarkostnað og gefa bröskurunum, — ég held, að það hafi verið þannig orðað, — tækifæri til þess að taka inn stórfé á þeim íbúðum, sem þeir byggja til að selja.

Ég vil aðeins láta það koma hér fram, að með lóðaúthlutun í þessu tilfelli getur vart verið átt við annað en úthlutun lóða fyrir fjölbýlishús, því að lóðum fyrir minni hús, einbýlis-, tvíbýlis- og raðhús, er úthlutað, ég vil segja eiginlega nærri því undantekningarlaust til einstaklinga, sem hafa þá í hyggju að byggja yfir sjálfa sig, en fjölbýlishús ein, sem úthlutað er þá þeim, sem hafa atvinnu af að byggja hús og selja í þeim íbúðir.

Ég vil upplýsa það, að allur fjöldinn af fjölbýlishúsalóðum fer til bæði byggingarsamvinnufélaga og starfshópa eða einstaklinga, sem taka sig saman og sækja um fjölbýlishúsalóðir. En nokkuð og að vísu töluvert fer einnig af fjölbýlishúsalúðum til þeirra aðila, sem hafa atvinnu af því að byggja hús og selja íbúðir. Ég vil segja, að það er ekki eingöngu í þessari leiðaragrein Alþýðublaðsins, sem talað er um, að þeir, sem þannig byggja til að selja, taki óhóflega mikið fé í sinn hlut, það hefur maður oft heyrt áður. Ég skal ekki um það fullyrða, ég hef ekki þann kunnugleika á því, að ég geti fullyrt neitt í því efni, en þó vil ég láta það í ljós, sem maður einnig hefur oft heyrt, að þær íbúðir sem t.d. byggingarsamvinnufélögin byggja og þar sem á ekki að fara óhóflegur gróði í neins vasa, nema ef það væri þá verktakanna, þær íbúðir er mér nú sagt að vilji verða allt að því eða alveg eins dýrar og þær íbúðir, sem byggðar eru af hinum aðilunum, sem hafa byggingu og sölu íbúða að atvinnu.

Ég sé ekki satt að segja, hvernig sveitarfélögin geta fyrirbyggt það eða ráðið því, hvaða verð er á seldum íbúðum. Ég geri nú ráð fyrir, að þar þyrftu aðrir aðilar að koma til og þá löggjafinn, ef það þarf eitthvað að lagfæra á því sviði og ef einhverjar hömlur þarf á það að setja. Að lóðaúthlutun hér í Reykjavík sé við það miðuð að gefa þessum aðilum, byggingarmeisturum og byggingarfélögum, sem ríflegust tækifæri til þess að taka óhóflegan gróða af sínum byggingum, því vil ég eindregið mótmæla.