01.03.1965
Efri deild: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

3. mál, launaskattur

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér inn í þær umr., sem hér hafa farið fram, enda hafa þessum málum verið gerð glögg skil af þeim hv. 12. þm. Reykv. og hv. frsm. n., 4. þm. Vestf., en báðir hafa þessir menn miklu víðfeðmari þekkingu til að bera á þessum málum almennt en ég. Tilefni þess, að ég stóð hér upp og vildi gera örstutta athugasemd, var reikningsskekkja að mínu áliti, sem fram kom þegar í fyrstu ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. og var endurtekin nú í síðustu ræðu hans. Nú tel ég víst, að hv. 1. þm. Norðurl. e. sé glöggur reikningsmaður og standi mér sízt að baki í þeim efnum. Það er í þessum efnum eins og fleirum sá ljóður á ráði hv. þm., að hann tekur allt of alvarlega og án gagnrýni það, sem stendur í Tímanum. En Tíminn hefur einmitt um langt skeið að undanförnu hamrað á því, að sönnunin fyrir því, að nú væri miklu verr gert til húsbyggjenda en áður hefði verið, — sönnunin sé sú, að dýrtíðin hafi aukizt svo mikið, að sú hækkun lánanna, sem orðið hefur, vegi ekki upp á móti dýrtíðaraukningunni. Þessi hugsunarháttur er að mínu áliti algerlega rangur, svo sem ég ætla að sýna fram á í örstuttu máli, því að það er alveg rétt og kjarni þessa máls, sem fram kom hjá hv. 4. þm. Vestf., að það, sem skiptir í þessu sambandi máli, er sú prósenta af byggingarkostnaðinum, sem lánuð er, ekki hækkunin í krónutölu. Ég held, að það, sem ég vildi segja, komi bezt fram, ef við tökum örlítið töludæmi, þar sem ég tek fram, að tölurnar eru valdar algerlega af handahófi.

Segjum, að byggingarkostnaður á meðalíbúð hafi fyrir 1960 verið 300 þús. kr., en lánin hafi verið 150 þús. kr. eða helmingur byggingarkostnaðar. Segjum, að í dag sé byggingarkostnaður á meðalíbúð 600 þús. kr. eða hafi tvöfaldazt frá 1960, en lánin hafi einnig tvöfaldazt, þannig að nú fáist lánað út á íbúðina 300 þús. kr. í stað 150 þús. kr. áður. Eins og fram kom í ræðu hv. 4. þm. Vestf. og rétt er, þá standa húsbyggjendur nákvæmlega jafnt að vígi. Þeir fá 50% af byggingarkostnaðinum í báðum tilfellum. Hagur þeirra hefur hvorki batnað né versnað. En Tíminn, og það tók hv. 1. þm. Norðurl. e. tvisvar fram, ályktar sem

svo: Hækkun byggingarkostnaðar er 300 þús. kr., en hækkun lánanna er ekki nema 150 þús. kr. Þess vegna er hagur þeirra verri, sem nemur þessum mismun eða 150 þús. kr. Þetta er út af fyrir sig rétt, ef reiknað er í krónum. En það, sem sést yfir í þessu sambandi, er, að krónan í dag er allt önnur króna en var fyrir 5 árum eða á hvaða tíma sem við miðum við. Húsbyggjendur vantar nú 300 þús. kr., en vantaði áður 150 þús. En 300 þús. kr. eru bara að verðgildi nákvæmlega það sama og 150 þús. voru áður. Hér gera þeir hv. framsóknarmenn sig, a.m.k. þeir, sem halda þessu fram, seka um svipaða villu og ef maður legði saman desimetra, sentimetra og metra og ályktaði á þeim grundvelli, að þetta væri allt saman jafnt. Nú hafa lengdareiningarnar að vísu mismunandi heiti, sem gera það að verkum, að slík villa er ekki framin. En í verðlagsmálunum heitir mælikvarðinn alltaf króna, þó að hún hafi mismunandi gildi, en samt sem áður er að mínu álíti ekki nokkur eðlismunur hér á.