01.03.1965
Efri deild: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

3. mál, launaskattur

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessar umr. mikið, en ég get samt ekki orða bundizt í þessu sambandi, því að mér þykir þessar umr. hafa verið næsta óvenjulegar og elnkennilegar. Þegar hv. 1 þm. Norðurl. e. í fyrstu ræðu sinni í dag hirti réttilega hv. 4. þm. Vestf. fyrir þá ræðu, sem hann flutti fyrir nál. um launaskattinn við 2. umr. hér á fimmtudag, var ljóst, að komið var við kaunin á hv. stjórnarliðum. Ég minnist þess ekki, enda hef ég ekki setið svo lengi hér á hv. Alþingi, en ég minnist þess ekki, að stjórnarliðar hafi dregið fram slíkt stórskotalið eins og nú hefur verið gert hér í umr. í dag. Ég þykist hafa tekið eftir þessu áður, að þeim finnst alvarlega komið við auman blett, þegar farið er að ræða um húsnæðismálin, og sannast að segja skil ég þetta ekki fyllilega, vegna þess að þótt hæstv. ríkisstj. hafi staðið sig illa í húsnæðismálunum, hefur hún þó staðið sig ólíku verr í mörgum öðrum málum.

Ég skal í sambandi við ræðu hv. síðasta ræðumanns leyfa mér að benda á það, að hann fer með blekkingar, þegar hann heldur því fram, að íbúðalánin hafi hækkað verulega meira en byggingarkostnaðurinn. Ég skal ekki vefengja þá tölu. sem hann hefur um hækkun byggingarkostnaðarins, sem hann segir vera 64%, en hitt vitum við báðir, að í tíð núv. ríkisstj. hafa húsnæðislánin a.m.k. ekki enn þá, hvað sem verður úr loforðinu frá því í júní í vor, hækkað um nema 50%, úr 100 þús. og í 150 þús.

Það hefur verið sýnt fram á það í þessum umr., að á 4 ára tímabilinu frá 1960 til 1965 hafa verið byggðar 800 færri íbúðir eða um það bil en á 4 ára tímabilinu næst á undan. Varðandi tilburði hv. 12. þm. Reykv. til þess að gera lítið úr þessari staðreynd með því að tala um langan byggingartíma og halda því fram, að á þeim byggingum, sem kláraðar hefðu verið á árabilinu 1960—63, hefði verið byrjað miklu fyrr, þá er það þó a.m.k. ljóst, að byggingartíminn verður þó ekki talinn nema svona 2 1/2 ár, svo að þær byggingar, sem klárast á árinu 1960, eru þá væntanlega ekki hafnar fyrr en á árinu 1958 eða kannske seint á árinu 1957, svo að með þessu móti getur hv. 12. þm. Reykv. ekki fengið 4 ára tilfærslu í dæmið, enda mundi sama eða svipað koma út úr því, þó að miðað væri við íbúðir, sem byrjað er á, eins og ef miðað er við tilbúnar íbúðir. Það mundi ekki breyta neinu verulegu í þessu dæmi. Enda sjáum við það, sem mér skilst að sé ekki umdeilt og jafnvel ekki hv. 4, þm. Vestf. leyfir sér að mótmæla, að núna um þessar mundir er mjög alvarleg húsnæðisekla á öllum helztu þéttbýlissvæðum landsins, svo alvarleg húsnæðisekla, að hún hefur kannske ekki í annan tíma verið öllu verri.

Það kom fram í ræðu hv. 4, þm. Vestf. hér áðan atriði, sem ég tel rétt að minna á til skýringar því, af hverju hér er alvarleg húsnæðisekla. Hv. þm. gerði grein fyrir því, að ég tók rétt eftir, að á 10 ára tímabili hefði verið byggt yfir 24 þús. Íslendinga umfram fólksfjölgunina. Með þessu áframhaldi tekur það nærri 80 ár að endurnýja húsnæði landsmanna, því að auðvitað dugir ekki hv. 4. þm. Vestf. að byggja yfir fólksfjölgunina eina. Ef þeir hv. stjórnarliðar sætta sig við það markmið, er ekki von, að vel takist í þessum málum. En þá er ekki heldur nóg að hugsa sér, að nægilegt sé að byggja yfir 24 þús. Íslendinga á 10 ára tímabili umfram fólksfjölgunina.

Nú er þetta þannig, að allt hér í veröldinni er á fleygiferð, jafnvel hér á Íslandi á viðreisnartímum. Ég minnist þess, að ég sá í blaði sagt frá kosningabaráttunni í Danmörku á s.l. hausti og sá það haft eftir forsrh. Dana, að hann viðurkenndi, að það þyrfti meiri og vaxandi átök í húsnæðismálum þeirra. En hann hafði það sér til afsökunar, að stjórn hans hafði þó tekizt á tiltölulega stuttu árabili að fjölga árlega byggðum íbúðum úr 25 þús. í 40 þús., ef ég man tölurnar rétt, það er a.m.k. ekki fjarri lagi, að þessar hafi verið tölurnar. En hér eru hv. stjórnarliðar harla ánægðir, að það skuli ekki hafa vantað nema 800 íbúðir á, að seinustu 4 ár hafi náð næstu 4 árum á undan. Þó hefur á þessu tímabili, á hverju 4 ára tímabili, þjóðinni fjölgað um næstum 10%. Á hverju 4 ára tímabili mun þjóðarframleiðslan aukast um yfir 20% og sennilega meira á þessum seinustu aflaárum. En samt virðast menn ætla að gera sig ánægða með það, ef menn bara gætu fundið einhvern flöt á því að geta borið sig saman við vinstri stjórnina, sem fór frá völdum fyrir 7 árum. Og hver veit, ef þessi hæstv. ríkisstj., sem nú situr, á einhverja framtíð fyrir höndum, sem maður hlýtur stórlega að efa raunar, nema einhvern tíma reki að því að svo langt sé liðið, svo mikið hafi fólkinu fjölgað, svo mikið hafi framleiðslan vaxið, að þeir geti raunverulega borið sig saman við vinstri stjórnina í þessu efni?