16.11.1964
Neðri deild: 15. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

58. mál, innlent lán

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 11. þm. Reykv. fyrir góðar undirtektir undir meginefni þessa máls, þar sem hann lýsti stuðningi sínum við það, að ríkissjóður fengi þessa heimild til útgáfu ríkisskuldabréfa. En það voru fsp., sem hann lagði fram, og nokkrar aths., sem ég vildi gera hér að umtalsefni.

Hv. þm. ræddi fyrst um till., sem legið hafi fyrir um verðtryggingu sparifjár, og vissulega er hér um mjög merkilegt og mikilvægt málefni að ræða. Það var fyrir fáum árum, sem samþ. var á Alþingi till. til þál. um athugun á verðtryggingu lífeyris og lífeyristrygginga. Prófessor Ólafi Björnssyni var falið það mál til athugunar, og samdi hann á s.l. ári mjög ýtarlega og glögga grg. um það mál, þar sem að sjálfsögðu var komið einnig nokkuð inn á verðtryggingu sparifjár almennt. Þessari grg. skilaði hann á s.l. ári í hendur viðkomandi ráðh., sem falið hafði honum starfið. En í sambandi við athugun á verðtryggingu sparifjár vil ég taka undir það með hv. 11. þm. Reykv., að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða. Þetta hefur verið undanfarin ár og áratugi til athugunar í mörgum Evrópulöndum og sums staðar gerðar tilraunir í þessa átt. Þetta mál er hins vegar margþætt og margslungið, og spurningin verður fyrst, ef bankar og sparisjóðir eiga að veita sparifjáreigendum verðtryggingu, hvernig þá á að standa undir kostnaði við það og hvernig á að afla fjár til þess. Það má búast við því, að til þess að verðtrygging sparifjár geti komizt í framkvæmd, þurfi ekki aðeins um leið, heldur jafnvel að einhverju leyti áður að hafa verðtryggt útlán. Ég geri ráð fyrir því, að bankarnir muni ekki treysta sér til að taka að sér verðtryggingu innlána, nema þeir hafi þá heimild til þess einnig að setja tilsvarandi vísitöluákvæði í öll sín eigin skuldabréf eða varðandi öll sín útlán eða a.m.k. meginþorra þeirra.

Nú er það þannig, að mörg lán, sem þegar hafa verið veitt, eru bundin samningum og vafi, hvort hægt er með 1. að breyta slíkum lánssamningum þannig að binda þau vísitölu. Þess vegna kemur sú spurning strax upp, hvort verðtrygging sparifjár hljóti ekki að eiga sér alilangan aðdraganda, jafnvel eftir að ákveðið er að fara inn á þá braut, vegna þess að það krefjist töluverðs tíma að koma í kring vísitölubindingu útlánanna. Ég varpa þessu aðeins fram hér til athugunar, vegna þess að gera verður ráð fyrir, að hvort tveggja verði að fara saman, verðtrygging eða vísitölubinding innlánanna og útlánanna, og að alllangan tíma hljóti það að taka að koma slíku í framkvæmd. Í nokkrum löndum hafa verið gerðar tilraunir með þetta, eins og ég gat um, svo sem í Finnlandi og kannske einkum þó í Ísrael, og hafa menn þegar fengið reynslu af þessum ráðstöfunum. Ég vil sem sagt undirstrika, að ég er því alveg sammála, að þetta mál þarf mjög gaumgæfilegrar athugunar við og hefur þegar verið athugað að töluverðu leyti, þó að engar ákveðnar till. liggi enn fyrir um framkvæmd þess.

Hv. þm. spurðist fyrir um það, hvort Seðlabankinn mundi nota þá heimild, sem lögfest var á síðasta þingi um útgáfu verðtryggðra bréfa. Sú heimild gerði ráð fyrir því, að Seðlabankinn mætti gefa út bréf, sem væru með gengistryggingu. Ég hef ekki heyrt neitt um fyrirætlanir Seðlabankans í þessu efni, en ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að útgáfa slíkra bréfa mundi ekki koma til greina, meðan þau bréf eru til sölu, sem þetta frv. fjallar um.

Þá minntist hv. þm. á samninga ríkisstj. og bankanna um, að bankarnir lánuðu, eins og gert hefur verið bæði í ár og í fyrra, vissa upphæð vegna opinberra framkvæmda eða í sambandi við framkvæmdaáætlunina. Og hann spurðist fyrir um það, hvort áframhald mundi verða á því, að ríkisstj. færi fram á slíkt við bankana. Út af því vil ég taka það fram, að framkvæmdaáætlunin fyrir árið 1965 er nú í endurskoðun. En eins og kunnugt er var í aprílmánuði 1963 lögð fram þjóðhags- og framkvæmdaáætlun ríkisins fyrir árin 1963—1966, og fylgdi þáv. hæstv. forsrh. henni úr hlaði með ýtarlegri grg. Miklar breytingar hafa orðið í okkar efnahags-, verðlags- og kaupgjaldsmálum síðan, og af eðlilegum ástæðum hefur því þótt rétt að hefja nú endurskoðun á áætluninni fyrir næsta ár og í framhaldi af því fyrir árið 1966. Þegar hin endurskoðaða framkvæmdaáætlun fyrir árið 1965 liggur fyrir, verður það væntanlega ljóst, hvort á því þarf að halda að leita til bankanna eins í ár og í fyrra um lán til þessara framkvæmda. Um það get ég ekki fullyrt að þessu sinni. En ég vil taka það fram, að vitanlega stendur þetta lánsútboð, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, í nokkru sambandi við það, hvort og að hve miklu leyti þurfi að leita til bankanna. Ég geri ráð fyrir því, að við hv. þm. séum sammála um; að það væri að mörgu leyti æskilegt, að ríkissjóður þyrfti vegna sinna framkvæmda ekki að leita eftir fé frá bönkunum, heldur gæti aflað síns fjár með lánsútboði á hinum almenna markaði, þannig að viðskiptabankar og sparisjóðir gætu sinnt öðrum verkefnum, fyrst og fremst atvinnuveganna. En um þetta er ekkert hægt að fullyrða fyrr en annars vegar hin endurskoðaða framkvæmdaáætlun liggur fyrir og í annan stað séð er, hverjar undirtektir þetta lánsútboð, sem hér liggur fyrir, fær. Hv. þm. taldi æskilegra, að lánskjörin, þ.e.a.s. lánstími og vextir, væru ákveðin í frv. sjálfu. Ég rakti hér nokkuð áðan, hverjar ástæður lægju til þess, að erfiðara væri að ákveða slíkt eða binda í l., því að ef menn teldu, að breyta þyrfti lánskjörunum, eftir fyrsta áfangann, þyrfti lagabreytingu til, ef þetta væri bundið nú þegar, og m.a. af þeirri ástæðu væri þessi aðferð hentugri. En ég vil enn undirstrika það, að þessi aðferð, sem hér er höfð, að ríkisstj. ákveði lánskjörin, er í samræmi við þingvenju. Hv. þm. taldi, að það væri nokkuð öðru máli að gegna, þegar ríkið tæki lán beint frá öðrum lánastofnunum, heldur en þegar um almennt útboð væri að ræða eins og hér. En ég vil benda á það, að síðast þegar reynt var almennt lánsútboð ríkissjóðs, fyrir 15—16 árum, þá var sami háttur hafður á og nú. Í þeim l. er ekkert ákveðið um lánskjör, hvorki lánsvexti né lánstíma, heldur aðeins um lánsupphæð.

Varðandi svo loks það atriði, til hvers eigi að verja þessu láni, taldi ég hér upp áðan þá málaflokka eða framkvæmdaflokka, sem lánið á að ganga til. Ég hef ekki talið ástæðu til að ákveða hins vegar nákvæma sundurliðun í upphæðum fyrir hvern einstakan málaflokk í l., en að sjálfsögðu getur fjhn. fengið upplýsingar um það, ef óskað er. En í rauninni er það þannig, að um þessa framkvæmdaflokka flesta, ef ekki alla, liggja þegar fyrir heimildir í l. Það má nefna raforkuframkvæmdirnar, sem 10 undanfarin ár hafa verið unnar að meira eða minna leyti fyrir lánsfé. Það liggja fyrir heimildir um að taka lán til þeirra hluta. Eins er það t.d. um annað atriðið, sem ég nefndi, sem er kísilgúrverksmiðjan. Samkv. l. frá síðasta þingi er beinlínis gert ráð fyrir því, að ríkið leggi fram visst fé og hafi heimild til þess að taka það að láni.

Hv. þm. spurði svo um það, ef eitthvað yrði afgangs af lánsupphæðinni frá þessum framkvæmdum, hvort ríkissjóður mundi þá nota það til þess að greiða umsamdar skuldir, þar sem honum hafði skilizt á mér í fjárlagaræðum, að lausaskuldir væru engar hjá ríkissjóði. Ég vil þá taka það fram í fyrsta lagi, að ef meira fé kemur inn heldur en þarf til umræddra framkvæmda, geri ég ráð fyrir, að það verði fyrst og fremst notað vegna ríkisábyrgðasjóðs, en ríkisábyrgðasjóður hefur þurft að taka bráðabirgðalán til þess að geta staðið undir þeim skyldum, sem á honum hvíla, þar sem framlög í fjárl. hafa ekki nægt til þess nú að undanförnu. Ég segi: hér hefur verið um bráðabirgðalán að ræða, og horfurnar hafa verið þannig um þróun ríkisábyrgðanna, að eftir þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið undanfarin 3 ár í þeim efnum, lítur út fyrir, að byrði ríkissjóðs og ríkisábyrgðasjóðs fari heldur minnkandi af þessum ástæðum. En til þess að komast yfir vissa örðugleika hefur hann þurft að taka bráðabirgðalán, og geri ég ráð fyrir, að þessu láni eða því, sem umfram er framkvæmdaféð, yrði fyrst og fremst varið í þessu skyni.

Varðandi hins vegar ríkissjóðinn sjálfan er það rétt, að um þrenn síðustu áramót hafa lausaskuldir engar verið hjá ríkissjóði. Á þessu ári hefur hins vebar orðið breyting á af ástæðum, sem ég greindi við 1. umr. fjárlaga í októbermánuði, sem stafar af því, að tekjur umfram fjárlög verða á þessu ári ekki neitt í námunda við það, sem verið hefur undanfarin tvö ár, en hins vegar hafa hlaðizt á ríkissjóð á þessu ári mjög stórfelld útgjöld, sem ekki var reiknað með, þegar fjárlög voru afgreidd, og á ég þá fyrst við hinar stórauknu niðurgreiðslur. Af þessari ástæðu hefur viðskiptaskuld ríkissjóðs við Seðlabankann undanfarnar vikur og mánuði verið miklu hærri en tvö undanfarin ár. Hvort tekst að greiða þá viðskiptaskuld á viðskiptareikningi við Seðlabankann upp að fullu um áramót, er ómögulegt að segja á þessu stigi og engan veginn víst, að það takist.

Ég ætla, að ég hafi þá svarað aths. og fsp. hv. þm., og er að sjálfsögðu reiðubúinn til að gefa fjhn. þær upplýsingar, sem þar kynni að verða um beðið. En ég vil að lokum taka það fram út af ummælum hv. þm. um framtalsskyldu og skattskyldu sparifjár, að hv. þm. telur vafasamt að undanþiggja þessi skuldabréf framtalsskyldu. Þegar l. voru sett eða tekjuskattslögum breytt á sínum tíma, fyrir að ég ætla 10 árum, í þá átt að undanþiggja sparifé skattskyldu og framtalsskyldu í því skyni að örva sparifjármyndun í landinu, þá var það náttúrlega mjög umdeilt og umrætt mál, hvort ætti að undanþiggja spariféð eingöngu skattskyldu eða einnig framtalsskyldu. Ýmsir hafa bent á það, að eftirlit með skattaframtölum sé gert erfiðara með því að veita undanþágu frá framtalsskyldunni. Þetta varð samt sem áður ofan á, og hefur ekki þótt fært að breyta því síðan, þótt skattalagabreytingar hafi verið gerðar, þannig að í dag standa enn þessi 10 ára gömlu ákvæði í skattalögum um spariféð. Þegar nú gerð er tilraun með útgáfu ríkisskuldabréfa eða spariskírteina í fyrsta skipti í 15 ár, þá telja menn óhjákvæmilegt að hafa að þessu leyti sams konar ákvæði um þau bréf og eru um spariféð. Í fjhn. Ed., þar sem ég kom á fund og svaraði ýmsum fsp., var m.a. rætt um þetta atriði. En niðurstaðan þar varð sú, að aðeins 1 nm. af 7 gerði um það till. til d. að fella niður ákvæðið um undanþágu frá framtalsskyldunni. Hverjum augum sem maður lítur á þetta ákvæði í skattal., þá held ég, að við verðum að hafa sama hátt að þessu leyti á um þessa skuldabréfaútgáfu eins og er í skattal. Ef hér væri þingvilji fyrir því að breyta skattal. þannig, að sparifé yrði aðeins undanþegið skattskyldu, en ekki framtalsskyldu, þá væri eðlilegt, að sama gilti um þau skuldabréf, sem þetta frv. fjallar um.