16.11.1964
Neðri deild: 15. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

58. mál, innlent lán

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sagði, að með þessu frv. væri að verulegu leyti farið inn á nýjar brautir um fjáröflun handa ríkissjóði. Að vísu eru dæmi til þess, að ríkið hafi áður boðið út skuldabréfalán á innlendum markaði, en þar hefur verið um svo litla fjáröflun að ræða, að hún hefur ekki skipt neinu verulegu máli. Það má e.t.v. segja einnig um það lán, sem hér er ráðgert að bjóða út, að það hafi ekki úrslitaþýðingu. En mér sýnist þó alveg augljóst, að hér sé verið að fitja upp á því að fara inn á nýjar brautir í þessum efnum og hér sé því verið að marka nokkuð nýjar leiðir og það megi búast við áframhaldi. Ég álít því, að það sé nokkur ástæða til þess að huga nokkuð nánar að því, hvað í rauninni er verið að gera með slíku lánsútboði, eins og hér er gert ráð fyrir að framkvæmt verði.

Hér hefur sá háttur verið hafður á um langan tím;a, að það hafa eingöngu verið sparisjóðir og bankar landsins svo að segja, sem safnað hafa saman því sparifé, sem til fellur á hverjum tíma í landinu. Ríkisstj. hefur hins vegar nú í seinni tíð reynt að búa þannig um hnútana í löggjöf, að hún hefði talsvert mikið íhlutunarvald, aðallega í gegnum Seðlabankann, á þessari sparifjársöfnun, og það hefur greinilega komið fram á Alþingi, að bönkum og sparisjóðum hefur þótt ríkið skipta sér allmikið af því, hvernig með þetta sparifé væri farið á hverjum tíma. En nú á sem sagt að bæta því einnig við, að ríkissjóður fer að verulegu leyti í kapphlaup við banka og sparisjóði landsins um það að draga til sín spariféð, auk þessara almennu ákvæða, sem ríkið hefur nú í sínum höndum varðandi framkvæmdavald Seðlabankans um ráðstöfun á þessu fé. Ég held, að það geti enginn vafi leikið á því, að þessi ráðstöfun verður til þess að draga úr sparifjármynduninni í sparisjóðum og bönkum landsins. Og alveg sérstaklega sýnist mér augljóst, að það verði til þess, þegar þannig á að halda á málinu eins og gert er nú ráð fyrir í grg., sem fylgir með þessu frv. Hér er gert ráð fyrir því, að vaxtakjör í sambandi við þetta lánsútboð verði þannig, að meðaltalsvextir verði í kringum 7.2%, en auk þess eigi svo að verðtryggja það fé, sem þarna fæst. Það er því alveg augljóst, að hér er verið að bjóða allmiklu betri kjör en bankar og sparisjóðir bjóða nú og þeim er ætlað að starfa eftir. Ég mundi telja, að það, sem eðlilegast væri að gerðist í þessum efnum, væri hreinlega það, að talsvert af fé, sem nú er bundið í sparisjóðum og bönkum landsins, yrði dregið þaðan út og færi til kaupa á þessum skuldabréfum. En það er auðvitað þáttur fyrir sig, hvort ríkið á að leggja inn á þessa braut og draga til sín spariféð og ráðstafa því, láta það sem sagt ekki fara eftir þeim gömlu leiðum, sem það hefur farið nú um langan tíma hér hjá okkur. En þá vil ég lýsa því yfir, að ég tel, að þau lánskjör, sem hér er gengið út frá, séu þess eðlis, að þau séu óeðlileg.

Það er mikið talað um það út af fyrir sig, að það hafi verið farið illa með sparifjáreigendur á undanförnum árum í sívaxandi dýrtíð, og það er auðvitað enginn vafi á því, að þeir hafa út af fyrir sig farið halloka. En leiðin til þess að bæta þeirra hag er ekki sú að mínum dómi að halda uppi mjög háum vöxtum í landinu. Sú framkvæmd, sem fyrirhuguð er í sambandi við þetta frv., er raunverulega að slá því föstu að mínum dómi, að hér skuli vera mjög háir vextir á komandi árum, því að ég tel, að þeir vextir séu mjög háir, þar sem greiða á meðaltalsvexti 7.2% og auk þess á að verðtryggja höfuðstólinn. Ég álít, að þessir háu vextir, sem hér hafa verið um skeið, hafi verið mjög óheillavænlegir í okkar efnahagslífi almennt séð og það beri að stefna að því að lækka vextina og því eigi í slíku lánsútboði sem þessu alls ekki að ganga út frá svona háum vöxtum, ef á að verðtryggja lánið sjálft. Ég hefði því talið, að það væri miklu eðlilegra að binda í þessum l. meir þau ákvæði, sem eiga að vera um vexti og lánskjör, heldur en gert er, og það ætti beinlínis að ákveða vaxtakjörin allmiklu lægri en hér er gefið í skyn að þau eigi að vera, með sérstöku tilliti til þess, að það á að verðtryggja það fé, sem gengur til kaupa á þessum bréfum.

Þá vil ég einnig taka undir það, sem hér hefur komið fram, að ég tel rangt að hafa ákvæði í frv., sem gerir ráð fyrir því að undanþiggja þessi skuldabréf framtalsskyldu, og þó að þau ákvæði séu enn í l. að undanþiggja framtalsskyldu sparifé, þá á síður en svo að bæta við þau ákvæði. Þau trufla nægilega mikið, þau ákvæði, að hægt sé með eðlilegum hætti að fylgjast með framtölum, svo að það er ekki við það bætandi. Það ætti þvert á móti að endurskoða þau ákvæði. En ég tel síður en svo, að það eigi að nota slík ákvæði, sem í l. eru, sem rökstuðning fyrir því að undanþiggja slíkt lán eins og þetta framtalsskyldu, því að það er enginn vafi á því, að ef það er meining manna, að eðlilegt aðhald sé með framtölum, þá verður sú skylda að vera í lögum, að skuldabréf skuli framtalsskyld og helzt af öllu allt sparifé.

En það ákvæði í þessu frv., sem ég tel þó lakast, er varðandi ráðstöfun á því fé, sem hér er leitað eftir af hálfu ríkisins. Ég tel mjög óeðlilegt, þegar farið er inn á þá braut, að ríkið aflar sér verulegs fjár til ýmiss konar framkvæmda í landinu, þá sé ekki annaðhvort í viðkomandi lögum ákveðið, hvernig með féð á að fara, eða þá hitt ákveðið, að þessu fé skuli ráðstafað af fjárveitingavaldinu sjálfu, af Alþingi. Hér var á það minnzt, að hjá ýmsum öðrum þjóðum væri miklu meira um það heldur en hjá okkur Íslendingum, að ríkissjóðir efndu til skuldabréfasölu á innanlandsmarkaði og öfluðu sér mikils fjár með þeim hætti. Þetta er rétt. Við þekkjum þetta t.d. vel frá Norðurlöndum. Þar er um slíka fjáröflun að ræða í allverulegum mæli hjá flestum ríkissjóðum öðrum en hér á landi. En þar er líka sú regla höfð, að því fé, sem kemur inn eftir þessum leiðum, er ráðstafað ásamt með öðrum, tekjum ríkissjóðs, það gengur inn og út á fjárlögum. Það ákvæði í þessu frv., sem segir, að ríkisstj. ráðstafi þessu fé í samráði við fjvn., þetta orðalag, „í samráði við“, það hefur nú þegar fengið nokkra reynslu hér, og reynslan er sú, að fjvn. er í rauninni skýrt frá því, hvernig ríkisstj. hefur ákveðið að ráðstafa fénu, en það er ekki borið undir Alþingi sem slíkt, hvernig með féð á að fara. Þetta tel ég í mesta máta óeðlilegt, og verði farið inn á þessa braut í vaxandi mæli á komandi árum, er á þennan hátt verið að draga fjárveitingavaldið úr höndum Alþingis að verulegu leyti.

Frá því er sagt, að því fé, sem inn komi með þessum hætti, eigi að verja til ýmiss konar verklegra framkvæmda samkv. framkvæmdaáætlun ríkisins. Ég efast ekkert um, að svo sé og svo muni verða gert. En þá er þess fyrst að geta, að Alþingi hefur ekki fengið þessa framkvæmdaáætlun ríkisins fyrir árið 1964. Ég veit, að hún hefur verið samin. Ríkisstj. hefur eflaust samið slíka framkvæmdaáætlun, þ.e.a.s. tekið ákvörðun um það, hve miklu fé skuli á árinu verða varið til ýmiss konar framkvæmda í landinu, til hafnarframkvæmda, til vegagerða, umfram það, sem Alþingi beinlínis hefur ákveðið sjálft, og til ýmiss konar annarra framkvæmda. Ríkisstj. hefur gengið frá slíkri áætlun sem þessari. En hún hefur ekki lagt þessa áætlun fyrir Alþingi. Alþingi hefur ekki haft neitt orð um það að segja, hvernig þessi framkvæmdaáætlun hefur verið úr garði gerð, en síðan er komið á eftir, eftir að svona hefur verið haldið á málunum, til Alþingis og óskað eftir heimild til þess að taka lán upp á 75 millj. kr. og það eigi að nota þetta lán til þess að sjá um framkvæmd á þeirri framkvæmdaáætlun, sem ríkisstj. hefur samið og hefur ekki einu sinni verið sýnd Alþingi. En ráðstöfun á þessu fé er með þeim hætti, að í ýmsum tilfellum þarf að framlána það fé, sem þarna kæmi inn, til einstaklinga eða til fyrirtækja, en ekki til almennra stofnana, ekki til lánastofnana. Hér er því um að ræða, að þessu fé yrði varið af ríkisstj. t.d. að taka til einstakra hafnarframkvæmda í landinu umfram það. sem Alþingi hefur ákveðið að veita til þeirra hafnargerða á yfirstandandi ári. Ég tel því, að þann hátt eigi að hafa á í þessum efnum, að því fé, sem inn í ríkissjóð kemur eftir þessu lánsútboði, eigi að ráðstafa af Alþingi sjálfu og helzt um leið og fjárlög ríkisins eru afgreidd. En eins og ég sagði, verði haldið lengra áfram á þessari braut og næst taki ríkissjóður ekki aðeins 75 millj. kr. lán, heldur 150 millj. kr. lán og svo fljótlega 300—400 millj. kr. lán til þess að sjá um, að nægilegt fé sé til að halda uppi ýmiss konar framkvæmdum í landinu, og ríkisstj. úthlutar þessu láni sjálf, þá er hún búin að taka í sínar hendur eftir þessari leið að verulegu leyti það vald, sem Alþingi hefur verið ætlað, sem er fjárveitingavaldið.

Ég álít því, að í fyrsta lagi sé varhugavert að óbreyttum öðrum aðstæðum að fara inn á þá fjáröflunarleið, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég tel mjög óeðlilegt að hafa vaxtakjörin svo há sem gert er ráð fyrir, með tilliti til þess, að lánið á að verðtryggja. Ég er algerlega á móti því að undanþiggja þessi skuldabréf framtalsskyldunni. Og ég tel óeðlilegt að hafa þau ákvæði um ráðstöfun á þessu fé, sem gert er ráð fyrir í frv. Út af fyrir sig viðurkenni ég, að það muni vera þörf á því að útvega meira fé til þeirra framkvæmda, sem hæstv. fjmrh, hefur hér minnzt á að skorti fé. En ég hefði talið út af fyrir sig eðlilegra, að ríkisstj. hefði reynt að afla þess fjár hjá hinum almennu fjármálastofnunum í landinu, eða þá, ef farin yrði svipuð leið og gert er ráð fyrir í þessu frv., þá hefði það skuldabréfaútboð verið með nokkuð svipuðum kjörum og aðrar lánsstofnanir verða að vinna eftir, þegar þær leita eftir sparifé landsmanna.

Þetta frv. fer nú til þeirrar n., sem ég á sæti í, og þar gefst mér eflaust kostur á því að gera frekari athugasemdir við það og fá frekari upplýsingar en hér eru fram komnar um málið.