27.10.1964
Neðri deild: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

11. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er borið fram til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 19. júní s.l.

Í l. um síldarverksmiðjur ríkisins segir svo í 10. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Áður en starfræksla verksmiðjanna hefst, skal stjórn þeirra gera samninga við þá útgerðarmenn, er óska að fá verksmiðjunum afla sinn til vinnslu, svo og um tölu veiðiskipa. Ganga samningsbundnir viðskiptamenn fyrir öðrum um móttöku síldar.“

Í 11. gr. er svo nánar gerð grein fyrir því, hvernig þessi móttaka síldarinnar til vinnslu skuli framkvæmd, þ.e.a.s. í aðalatriðum þannig, að greitt verði út við móttöku síldarinnar 85% af áætluðu verði, en síðan verði gerð upp í vertíðarlok afkoma síldarverksmiðjanna, og ef afgangur hefur orðið af rekstrinum, þá verði honum skipt hlutfallslega á milli þeirra skipa, sem samning höfðu gert fyrir síldarvertíð, og verksmiðjanna sjálfra, að því er tekur til þeirrar síldar, sem keypt var á föstu verði.

Þessi háttur á móttöku síldarinnar tíðkaðist nokkuð áður fyrr, en lagðist svo niður og var síðast notaður árið 1961, en síðan ekki. Í byrjun síldarvertíðarinnar á s.l. sumri voru uppi um það nokkrar óskir frá eigendum síldveiðiskipa að fá að leggja aflann inn á þennan hátt, og ritaði stjórn síldarverksmiðjanna mér bréf um það 10. júní s.l. og fór fram á, að þennan hátt mætti taka upp á ný, eins og áður hafði verið gert. Sömuleiðis fékk ég um svipað leyti bréf frá Landssambandi ísl. útvegsmanna um sama efni. En báðir voru þessir aðilar, bæði stjórn síldarverksmiðjanna og Landssamband isl. útvegsmanna, sammála um það, að ekki þyrfti að fylgja þessari ákvörðun ákvæði 10. gr. l., sem ég las um, að samningsbundnir viðskiptamenn gengju fyrir öðrum við móttöku síldarinnar. Báðir þessir aðilar óskuðu eftir því, að þetta ákvæði yrði fellt niður, og þó að síldin væri tekin á þennan hátt, yrði sami löndunarréttur hjá þeim og öðrum viðskiptamönnum verksmiðjunnar. Við þessari beiðni var orðið og gefin út brbl., sem ég minntist á í upphafi, 19. s.m. um það að fella þetta ákvæði úr gildi, þótt sú aðferð yrði höfð að taka síldina til vinnslu á þennan hátt.

Í frv. felst ekkert annað en þetta, og sem sagt, það er flutt samkv, till. beggja þeirra aðila, sem þarna eiga hlut að máli, bæði stjórnar síldarverksmiðjanna og Landssambands ísl. útvegsmanna.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.