04.03.1965
Efri deild: 50. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

11. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. þetta er til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 19. júní s.l. , um breyt. á l. nr. 1 5. jan. 1938, um síldarverksmiðjur ríkisins. Eins og fram kemur í grg. fyrir brbl., eru þau sett samkv. óskum stjórnar síldarverksmiðja ríkisins og L.Í.Ú. Efni frv. er í því fólgið að afnema forgangsrétt samningsbundinna viðskiptamanna fyrir öðrum um móttöku síldar. Samkv. l. um síldarverksmiðjur ríkisins frá 1938 hefur alla tíð verið hafður á sá háttur, að samningsbundin skip hafa haft forgangsrétt til löndunar í þeirri röð, sem þau komu að landi. Gegn þessum forréttindum hafa svo þessir viðskiptamenn síldarverksmiðjanna orðið að skuldbinda skip sín til að leggja upp allan bræðsluafla hjá verksmiðjunum. Þetta ákvæði hefur oft komið sér illa, t.d. á meðan síldarverksmiðjur ríkisins höfðu engar verksmiðjur austar en á Raufarhöfn. Þá urðu þau skip, sem voru á veiðum fyrir Austurlandi, að sigla með aflann í sumum tilfellum alla leið til Siglufjarðar, þar sem móttaka á Raufarhöfn var af eðlilegum orsökum takmörkuð. Þetta hafði það í för með sér, að skipin töfðust oft um langan tíma frá veiðum, vegna þess að það tók af skiljanlegum ástæðum miklu lengri tíma að koma aflanum að landi, þegar þurfti að fara um svo langan veg, en það var óhjákvæmilegt, vegna þess að þótt verksmiðjurými og þróarpláss væri fyrir hendi á Austurlandi, höfðu skipin ekki leyfi til þess að afsetja neitt af aflanum í aðrar síldarverksmiðjur og urðu því að leggja í sumum tilfellum í langar siglingar til þess að afsetja aflann. Þessu ákvæði um forgangsréttinn var komið á í sambandi við þann rétt, sem viðskiptamenn verksmiðjanna öðluðust í sambandi við að leggja afla sinn upp til vinnslu, og máttu þau skip, sem voru þannig í samningum við síldarverksmiðjurnar, ekki heldur leggja afla sinn upp annars staðar.

Eins og frv. ber með sér, er það, sem hér um ræðir, einungis í þá átt að fella niður þetta forgangsákvæði og ekki talið nauðsynlegt að halda því lengur. Sjútvn. var á einu máli um að m,æla með því, að frv, verði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir.