04.02.1965
Efri deild: 39. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

116. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm, er kunnugt, hafa bætur almannatrygginganna að undanförnu, nú um langan tíma a.m.k., verið samræmdar almennum launahækkunum í landinu. Fyrst voru þessar bótahækkanir miðaðar við laun opinberra starfsmanna, en eftir kjaradóminn var í stað þess að miða við kaup opinberra starfsmanna, sem var þá erfitt til viðmiðunar, vegna þess að breytingar hjá þeim voru svo misjafnar, miðað við kaup verkamanna. En í öllum tilfellum var þetta þó þannig, að það þurfti nýja lagasetningu um bótahækkanir, hverju sinni sem þeim var breytt. Þetta er dálitið fyrirhafnarsamt, og niðurstaðan hefur því orðið sú að setja lög, sem í eitt skipti fyrir öll tryggi það, að ráðh. sé heimilt, að fengnum tillögum tryggingaráðs, að breyta upphæðum bóta í samræmi við breytingar á grunntaxta verkamanna, og hefur því verið valinn sá grunntaxti, sem greiddur er við almenna fiskvinnu.

Þetta er aðalefni frv. og raunverulega engin breyting frá því, sem verið hefur að undanförnu, önnur en sú, að hér er með lagasetningu heimilað í eitt skipti fyrir öll að gera þetta á þennan ákveðna hátt, í staðinn fyrir að áður þurfti að leita til Alþingis hverju sinni með nýja lagasetningu.

Í ákv. til brb. er síðan gert ráð fyrir, að sú hækkun, sem varð á almennum verkalaunum með júnísamkomulaginu í fyrra, komi til framkvæmda við bótagreiðslurnar á þann hátt, að það verði greidd 5% hækkun á elli- og örorkulífeyri á tímabilinu frá 1. júlí 1964 og til gildistöku þessara laga.

Í frv., sem hér var flutt í haust um verðtryggingu launa, var ákvæði um það, að hækkun á vísitölu framfærslukostnaðar skyldi af sjálfu sér einnig ná til bótagreiðslnanna, þannig að það, sem hér er um að ræða, eru eingöngu þær bótahækkanir, sem leiðir af hækkun eða breytingu grunnkaupsins.

Þetta verða náttúrlega, þegar til framkvæmdanna kemur, nokkuð mikil útgjöld fyrir Tryggingastofnun ríkisins. Það er gert ráð fyrir, að aukinn kostnaður við þessar greiðslur nemi um 34 millj. kr., miðað við 1 1/2 ár frá 1. júlí 1964 til 31. des. 1965, og þessa upphæð mundi þá Tryggingastofnun ríkisins verða að taka á sig til bráðabirgða, og það mundi ekki koma til jöfnunar fyrr en við uppgjörið um næstu áramót. Ég held, að þetta sé eðlileg breyting á núverandi fyrirkomulagi, og vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. heilbr.- og félmn.