04.02.1965
Efri deild: 39. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

116. mál, almannatryggingar

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er að mínum dómi sjálfsögð og eðlileg regla, að bætur samkv. almannatryggingalögunum taki breytingum til hækkunar í samræmi við launabreytingar, sem verða, og þannig má segja, að það hafi verið í framkvæmdinni, eins og hæstv. ráðh. gerði grein fyrir hér áðan. Það hefur gerzt með þeim hætti, sem hann lýsti, lagabreytingu hverju sinni.

Ég er að sjálfsögðu samþykkur og meðmæltur þeirri stefnu, sem í þessu frv. felst, og það má fallast á það, að út af fyrir sig sé það til bóta að gera svona almenna breytingu í stað þess að þurfa að leita eftir samþykki Alþingis hverju sinni um svo sjálfsagða breytingu. En það, sem ég vildi benda á við 1. umr. málsins, er þetta, að mér finnst hér um svo sjálfsagt mál að ræða, að úr því að farið er að breyta þessu á annað borð í það horf, sem hér er ráðgert, þá hefði mér þótt æskilegra, að það hefði beinlínis verið tekið fram í þessum breyt. eða þeirri lagagr., að upphæðir bóta samkv. lögum þessum skyldu breytast í samræmi við grunnkaupstaxta verkamanna við almenna fiskvinnu, í stað þess, sem er í þessu frv. gert ráð fyrir, að ráðh. sé aðeins heimilt að ákveða þetta. Nú dettur mér ekki í hug að væna hæstv. ráðh., hvorki þann, sem nú situr, né hans eftirkomendur, um það, að þeir muni ekki beita þessu ákvæði. Ég geri ráð fyrir því, að ef það er komið í lög í heimildarformi, verði því jafnan beitt. Ég efast reyndar ekki um það. En úr því að það er nú svo, þá finnst mér, að það hefði verið skemmtilegri blær á því að staðfesta það hreinlega og láta það koma fram í lögunum sem skyldu. Það er eins og á þessu sé hálfgerður svipur einhvers hiks, og það held ég að sé ekki viðeigandi í þessu máli.