08.03.1965
Efri deild: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

116. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð út af tilmælum hv. 9. þm. Reykv. varðandi brtt. á þskj. 301. Ég hlýt að taka það á mig, ef hér hafa orðið mistök, því að ég efa ekki, að hann skýri rétt frá því, að það hafi verið fullt samkomulag í n. um brtt. Ég hafði samið nál. eftir bókun á nefndarfundi, en þar er ég nú reyndar sjálf fundaskrifari, svo að alla vega mun þetta vera mín sök. En ég skal þá hlutast til um, að þskj. verði prentað upp og brtt. séu frá allri n., enda hygg ég, að það sé rétt, að hv. þm. muni hafa þar tjáð sig samþykkan þeim.

Ég vil aðeins bæta nokkrum orðum við það, sem hæstv. félmrh. sagði í ræðu sinni áðan varðandi bótagreiðslur aftur í tímann. Það er alveg rétt, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði, að fjárhagssjónarmið hljóta alltaf að ráða miklu og mestu um, þegar ákveða skal breytingar eða hækkanir á bótum, og ég býst við, að það hafi alla tíð verið svo. En á bótagreiðslum eða uppbótum á tryggingabætur aftur í tímann eru ýmsir annmarkar í framkvæmd. Ég vil t.d. nefna barnalífeyrinn, sem, þegar sleppir elli- og örorkulífeyri, mun vera sú tegund bóta, sem mestu nemur í krónutölu, ég ætla um 80 millj., barnalífeyririnn samanlagt. Hins vegar eru 2/3 af því endurkræfur barnalífeyrir, sem Tryggingastofnunin krefur sveitarfélögin um. Nú er það svo, að um áramót er gert upp og sveitarfélögin kvittuð fyrir árið, og það mundi vera mjög vafasamt, að Tryggingastofnunin gæti svo, þegar kemur fram á næsta ár og búið að gera upp reikninga og kvitta, að Tryggingastofnunin gæti þá komið með reikninga fyrir uppbætur, sem hafi verið ákveðið að greiða, kannske mörgum mánuðum eftir að reikningsuppgjöri er lokið. Svo má líka nefna það, að það er ákaflega erfitt, og forstjóri Tryggingastofnunarinnar tjáði mér, að það mundi vart vera hægt að koma til bótaþega smáupphæðum á minni háttar bótagreiðslur, við skulum segja t.d. sjúkradagpeninga o.fl. Uppbætur nema þar svo smáum upphæðum, að fyrirhöfn svarar varla kostnaðinum.

Þá sagði hv. 9. þm. Reykv., að með þessu sé verið að afhenda ráðh. vald, ef frv. um heimild honum til handa verði samþ., það sé verið að afhenda ráðh. vald, sem áður hafi verið, að mér skilst, í höndum Alþingis. Ég fæ ekki annað séð en Alþingi geti hvenær sem er haft það vald í sinni hendi. Ef ráðh. þætti beita heimildinni á þann veg, að menn væru einhverra hluta vegna ekki ánægðir með, er það auðvitað Alþingi, sem fyrst og fremst hefur valdið í sínum höndum.

Þá sagði hv. þm., að þetta væri ekki nema sjálfsagt réttlætismál, að bótaupphæðirnar breyttust til samræmis við kauphækkanir, sem verða. Ég man það nú að vísu ekki svo glöggt, enda átti ég ekki sæti á Alþingi í tíð vinstri stjórnarinnar, en mig grunar þó, að þá hafi ekki alltaf verið fylgt jafnt og þétt eftir þeim launahækkunum, sem urðu, með hækkun á bótum almannatrygginga. Það mun þó að sjálfsögðu einhver leiðrétta, ef ég fer ekki þar með rétt mál. En hafi það ekki verið, sem er grunur minn, skil ég ekki, hvernig hann hefur getað séð réttlætinu svo traðkað, þegar þeir voru við völdin, sem hann átti þó að hafa aðstöðu til þess að hafa áhrif á.