08.03.1965
Efri deild: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

142. mál, nafnskírteini

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) fyrir undirtektir hans, þar sem hann lýsir sig sammála því, að það sé brýn nauðsyn á nafnskírteinum.

Hann gerði hins vegar aths. við 3. gr. frv. og taldi réttara að lögbjóða, að ljósmynd skuli fylgja hverju nafnskírteini. Í frv., eins og það liggur fyrir, er þetta látið frjálst að öðru leyti en því, að þegar tiltekinn aldur er tilskilinn í lögum eða reglugerðum, t.d. áfengislögum, lögreglusamþykktum eða öðrum ákvæðum, verði nafnskírteininu að fylgja mynd, til þess að það sé fullt sönnunargagn um aldurinn. En að þessu slepptu, sem sagt þegar ekki er áskilinn tiltekinn aldur fyrir því, að ungmenni megi koma á vissa staði eða eiga viss viðskipti, er ekki lögboðið, að mynd skuli fylgja nafnskírteini.

Hins vegar er í niðurlagi 13. gr. heimild til að ákveða með framkvæmdarvaldsráðstöfun, að mynd skuli vera á öllum nafnskírteinum, ef þau eru ætluð til nánar ákveðinna nota.

Það þótti ekki rétt að lögbjóða það strax í fyrstu umferð, að ljósmynd skyldi jafnan fylgja, og er komið inn á þetta í grg. um 3. gr., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki er talið rétt að lögbjóða, að mynd skuli vera á öllum skírteinum, enda mundi það leiða af sér óþörf fjárútlát fyrir marga.“

Þetta er byggt á því, að þegar sleppir þeim ungmennum, sem þurfa oft og tíðum að sanna aldur sinn, sé í mörgum tilfellum ekki nauðsyn að hafa mynd, þ.e.a.s. af fullorðnu fólki.

Hins vegar tel ég alveg sjálfsagt, að hv. allshn., sem væntanlega fær málið til meðferðar, taki þessa ábendingu hv. 3. þm. Norðurl. v. til athugunar, og ég mun að sjálfsögðu ræða þessa athugasemd við aðalhöfund frv., sem er hagstofustjóri, sem hefur mest undirbúið þetta mál, og er ábendingin vissulega þess virði, að hún sé athuguð gaumgæfilega.