18.03.1965
Efri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

142. mál, nafnskírteini

Frsm. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Allshn. hefur rætt frv. þetta og fengið á sinn fund hagstofustjóra, Klemenz Tryggvason, sem var einn þeirra þriggja nefndarmanna, er sömdu frv.

Það atriði, hvort sú ákveðna skylda ætti að vera í frv., að ljósmynd fylgdi nafnskírteini, var sérstaklega rætt, en nm. gátu ekki orðið sammála um nauðsyn þess, og er það ástæðan fyrir hinum almenna fyrirvara, sem fram kemur í nál. á þskj. 340.

Allir nm. voru sammála um það meginefni frv., að öllum landsmönnum, 12 ára og eldri, sé skylt að hafa nafnskírteini, sem mundi m.a. auðvelda alla löggæzlu í landinu og framkvæmd hinna fjölmörgu ákvæða um réttindi og skyldur, sem nú eru miðaðar við ákveðinn aldur manna, t.d. skyldusparnað, og ef að því yrði horfið, sem lengi hefur verið rætt um, að greiða opinber gjöld jafnóðum af launum, auk þess sem útgáfa nafnskírteina ætti að geta leiðrétt ýmsar rangfærslur, sem í dag eru t.d. á launagreiðslumiðum starfsfólks, um fæðingardaga og ár.

Höfuðástæðan til þess, að nm. gátu ekki orðið sammála um að hafa þá skyldukvöð í frv., að ljósmynd skyldi undantekningarlaust fylgja nafnskírteini, var nánast sú, að stór fjöldi manna, t.d. allt eldra fólk, þyrfti ef til vill aldrei að framvísa slíku nafnskírteini og því óþarft að leggja þessa kvöð á það. Hins vegar bar öllum nm. saman um, að meiri heimild væri í slíku nafnskírteini með ljósmynd, og er gert ráð fyrir, að með sérstöku rúmi á skírteini þessu sé hægt að hafa ljósmynd.

Um frekari útskýringar á megintilgangi frv. fjölyrði ég ekki, en vísa til mjög ýtarlegrar grg., sem frv. fylgir, og framsöguræðu hæstv. fjmrh. í málinu við 1. umr. þess. Nefndin leggur til, eins og fram kemur á þskj. 340, að frv. verði samþykkt, en einstakir nm. hafa fyrirvara um að flytja eða fylgja brtt.