19.11.1964
Neðri deild: 18. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

58. mál, innlent lán

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls hér í hv. þd. gerði ég nokkrar aths. við frv. það, sem hér um ræðir. Þeim fsp., sem ég hafði þá fram að færa, hefur hæstv. fjmrh. nú svarað, bæði hér í hv. d. og eins á fundi með hv. fjhn., sem haldinn var í gær, þegar mál þetta var þar til meðferðar. Ég tel rétt, eins og ég sagði við 1. umr., að þessi tilraun sé gerð, og við fulltrúar Framsfl. í fjhn. þessarar hv. þd. höfum undirritað nál., sem mælir með samþykkt frv., með þeim fyrirvara þó, að við höfum áskilið okkur rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja þeim, sem fram kunna að koma. Hv. formaður fjhn., 6. landsk. þm., hefur gert grein fyrir þessari niðurstöðu, þannig að ég þarf ekki að endurtaka það. Við erum sammála honum um nál. að öðru leyti en því, að ég get ekki fallizt á, að ástæðan til þess, að þessi tilraun sé nú gerð eða fær, sé stöðugra verðlag en verið hafi. Ég tek ekki undir þá röksemd hv. formanns, en að öðru leyti get ég vísað til þess, sem hann sagði um afstöðu okkar í meiri hl.

Ég minntist á það við 1. umr., að ég væri í nokkrum vafa um það, hvort ekki ætti að

fella niður ákvæðið um framtalsundanþágu skuldabréfanna, og í samræmi við það hef ég fylgt þeirri brtt., sem hér hefur legið frammi frá hv. 5. þm. Austf., Lúðvík Jósefssyni. Mér finnst, að sú till. hafi átt mikinn rétt á sér. Það hefur aldrei verið meira talað um skattsvik hér á landi en nú, og sjálfsagt er það með miklum rétti gert, og þess vegna finnst mér ástæðulaust og raunar rangt, að Alþingi samþykki lög, sem geri eftirlitsmönnum þeirra verk torveldara. Það hefur verið lögð áherzla á, að nú væri nýsett á fót skattalögregla og af hennar starfi mætti mikils vænta, og ég tel, að því beri að fagna, að hún hefur verið sett og er að taka til starfa, og vil ég að óreyndu vonast til góðs árangurs af hennar starfi. Þess vegna tel ég það ekki rétt, að Alþingi sé nú að samþykkja ákvæði, sem torveldi þetta starf þegar í upphafi.

Ástæðan til þess, að ég kem hér fram við þessa umr., er sú, að ég vil leyfa mér ásamt hv. 1. þm. Norðurl. v., Skúla Guðmundssyni, að bera fram skriflega brtt. við þessa 3. umr. Með leyfi forseta, langar mig til að gera grein fyrir henni. Hún er svona:

„Við 3. gr. frv. bætist: Skuldabréfin og spariskírteinin skulu skráð á nöfn eigenda.“

Ég sé ekki nú, þegar búið er að fella það, að bréfin skuli vera framtalsskyld, annað en Alþingi hljóti að verða, úr því að sú tilhögun fékkst ekki, að ákveða það, að þessi bréf skuli hljóða á nafn, enda er það í samræmi við þann anda, sem hér á að ríkja, að skattalögreglunni sé gert eins auðvelt um starf sitt og framast er unnt. Því hefur verið haldið fram og verður sjálfsagt áfram haldið fram, að óhægt sé að breyta til um þessi bréf, meðan sparifé almennt sé ekki framtalsskylt. Við það er það tvennt að athuga, að hér mundi þá, ef þetta yrði samþykkt, að bréfin yrðu undanþegin framtalsskyldu, í fyrsta sinn farið inn á þá braut, að verðbréf séu undanþegin framtalsskyldu, og í öðru lagi gegnir ekki alveg sama máli um þessi bréf og sparifé almennt. Sá mismunur byggist á 3. mgr. 21. gr. l. um tekjuskatt og eignarskatt, sem ég vil leyfa mér að rifja upp, með leyfi hæstv. forseta, en þar segir:

„Komi í ljós í framtölum gjaldenda ósamræmi milli ára, sem stafað getur af því, að innstæða hefur ekki verið fram talin vegna framangreindrar undanþágu, ber gjaldendum að leggja fyrir skattayfirvöld, þegar þess er krafizt, yfirlit frá innlánsstofnunum um allar innstæður sínar á tímabili því, sem um er að ræða, og einnig geta skattayfirvöld krafizt hjá innlánsstofnunum allra þeirra upplýsinga, sem þau telja þörf fyrir í þessu sambandi.“

Í þessari grein er skattayfirvöldum bent á leið til þess að staðreyna framtöl einstaklinga, þegar svo stendur á eins og greinin fjallar um, þ.e. hafa samband við viðkomandi innlánastofnun og fá allar upplýsingar þar viðkomandi sparifjárinnstæðum framteljenda. Þegar um handhafabréf er að ræða, er engin stofnun, tilsvarandi innlánsstofnun, sem þessar upplýsingar getur veitt. Þess vegna eru ekki alveg sambærileg mál almennt sparifé og þau verðbréf, sem hér um teflir. Ég tel það rétt fyrir mitt leyti, að ríkisstj. sé fengin sú lagaheimild, sem hér um fjallar og farið er fram á, til þess að reyna þessa leið til lántöku fyrir ríkissjóð, en ég tel jafnframt, að Alþingi eigi ekki með því að gera skattaeftirlitsmönnum meiri örðugleika í starfi en nauðsynlegt er, og fyrst hv. meiri hl. Alþingis gat ekki fallizt á að hafa bréf þessi framtalsskyld, sem mér fannst engin frágangssök, vegna þess fyrst og fremst, að þau eru miklu eftirsóknarverðari en að leggja fé í banka, þar sem verðtryggingin kemur til og vextirnir eru þetta háir, þá verði að setja þær skorður við, sem þessi brtt. okkar hv. 1. þm. Norðurl. v. fer fram á.

Ég leyfi mér að fara fram á það við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir till., þar sem hún er of seint fram borin og skriflega flutt, en mál þetta er nú allt rekið með afbrigðum; svo að ég skil ekki, að á því ætti að standa.