16.12.1964
Neðri deild: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

104. mál, landgræðsla

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það verður ekki nema örstutt. — Hv. 2. þm. Sunnl. lýsti yfir fylgi sínu við frv. og hafði lítið eða ekkert út á það að setja, lýsti ánægju sinni yfir því, að það hefði verið flutt.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. 4. þm. Sunnl., hafði ýmislegt við frv. að athuga, en fór ekki stórum eða sterkum orðum með mótmæli, benti á, að það væri kannske sumt, sem þyrfti að athuga betur. Þetta kann vel að vera, að það verði. En ýmislegt af því, sem hann talaði um, að ekki væri nógu skýrt ákveðið í frv., er vitanlega ákveðið að draga hreinar og skýrar línur með í reglugerð samkv. l., eins og oft er gert.

Ég vil taka fram, að það hefur engum dottið í hug, sem að frv. stendur, að búseta landgræðslustjóra verði flutt frá Gunnarsholti. Það er vitanlega sjálfsagt, að hann sitji þar, vegna þess að þar er hann bezt settur og þar er búið að kosta miklu til, einmitt vegna þess að hann er þar, og þar á hann að vera. Það er rétt, það er ekki tekið beint fram í frv., en það er nú komið í hefð, að landgræðslustjóri er í Gunnarsholti og verður þar.

Hv. 4. þm. Sunnl. harmaði, að það skyldi ekki vera ákvæði um fjáröflun í frv. Það er alveg rétt, að í bréfi til n, var það tekið fram, að þess væri ekki óskað, að hún gerði till. um fjáröflun. Reynslan af því frá fyrri n. varð ekki til þess að greiða fyrir því, að við fengjum lög, sem við óskuðum eftir og reynsla síðustu ára um fjárframlög til sandgræðslunnar er sú, að það var því síður ástæða til þess, og mig undrar nú það, að hv. 4, þm. Sunnl. skuli gera lítið úr því, sem hefur áunnizt síðustu árin með fjárveitingar til sandgræðslunnar. Hv. þm. hlýtur að muna það, hvað var veitt til þessara mála 1958, síðast þegar hann var í stjórnaraðstöðu og hafði möguleika til þess að beita sínum áhrifum, þá var það innan við 2 millj. kr. Þetta hefur verið hækkað um 376% síðan. Ég veit, að hv. 4. þm. Sunnl. er svo sanngjarn í eðli sínu og vill vera það í framkomu, að hann játar það með sjálfum sér, að með því að sama sjónarmið hefði ráðið nú síðustu árin og það, sem var í gildi 1958, þá væri ekki búið að hækka fjárframlög til sandgræðslunnar eins og raun ber vitni. Eða hvers vegna skyldu ágætir menn ekki hafa eygt annan möguleika 1958 til fjáröflunar heldur en að skattleggja fóðurbæti og skattleggja búpeninginn? Ekki af öðru en því, að ríkiskassinn var lokaður. Þörfin á að taka föstum tökum á sandgræðslunni, uppgræðslunni og gróðurverndinni var alveg eins mikil 1958 og nú, það er svo langt síðan landið fór að blása, og ég held, að það fari bezt á því, að við hv. 4. þm. Sunnl. tölum um þessi mál alveg í fullri hreinskilni og vinsemd. Um leið og við erum sammála um þörfina í dag, að gera sem mest í þessum málum, þá getum við verið sammála um, að áður var þess einnig þörf, þegar hann var í stjórnaraðstöðu, en þá voru fjárráð ríkissjóðs takmörkuð, sem þau eru vitanlega einnig nú, en að þessu sinni hefur náðst gifturíkur árangur, þótt lokatakmarkinu í þessum málum sé ekki náð frekar en í svo mörgum góðum málum, sem við þurfum að vinna að og margt er ógert við.

Mér dettur ekki í hug, að þetta frv. út af fyrir sig sé alveg gallalaus smíð, og að sjálfsögðu fer málið í n., og komi þar fram till. til bóta, er vitanlega sjálfsagt að taka þær til athugunar. En ég held, að það þurfi enginn að vera í vafa um það, að frv. er stórt spor í rétta átt, mikilsvert spor í rétta átt, og við þurfum ekki að harma það, þótt ekki hafi síðustu 4—5 árin verið samin löggjöf um þetta efni. Það, sem mestu máli skiptir, er, að það takist vel, sem nú á að gera með hinni nýju löggjöf, og að síðustu árin, sem við höfum beðið eftir nýrri löggjöf, hefur starfssvið sandgræðslunnar verið stórum aukið með mjög miklum framlögum úr ríkissjóði, miðað við það fé, sem sandgræðslan hefur áður haft.